Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir í aðsendri grein á Vísi að;
„þeirri spurningu sé yfirleitt ósvarað hvernig farsæld mjög ungra barna sé best tryggð í þeirri brúarsmíði milli fæðingarorlofs og leikskóla sem samfélagið og stjórnmálamenn eru ákaflega áhugasamir um.
Í hversu margar klukkustundir á dag er gott fyrir eins árs gömul börn að dvelja í leikskóla? Er það endilega betri fjárfesting fyrir samfélagið að auka dvalartíma ungra barna í leikskólum en að lengja fæðingarorlof upp í tvö ár? Hvernig væri til dæmis að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með þrepaskiptu leikskólastarfi þar sem dvalartími barna lengist í áföngum eftir því sem þau eldast? Um slíkar hugmyndir er sáralítið rætt og hlýtur það að vekja furðu í ljósi þess hve mikill áhugi er á leikskólamálum, sérstaklega rétt fyrir kosningar. Það skyldi þó ekki vera að umræða brúarsmiðanna um þessi mál snúist í of miklum mæli um annað en hagsmuni barna?“
Telur að taka inn yngri börn dragi úr gæðum starfsins
Eins og kunnugt er og Haraldur benti á, þá voru leikskólamál eitt af aðalkosningamálum síðastliðið vor. Haraldur útskýrir að þar hafi komið fram að flestir flokkar ætluðu sér að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs.
„Fáir höfðu raunverulegar hugmyndir um það hvernig fara mætti að því og enn færri lögðu fram tillögur sem myndu ráðast að rót vandans, sem er að fjölga leikskólakennurum. Ef sá vandi er ekki leystur munu allar tilraunir til að stækka leikskólakerfið, til dæmis með því að taka inn yngri börn, draga úr gæðum leikskólastarfs og hafa alvarleg áhrif á starfsumhverfi leikskólakennara.“
Kerfið þarfnast 1500 fleiri leikskólakennara
Haraldur vill helst sjá að ríki og sveitarfélög stefni að því að fjölga leikskólakennurum um 1500.
„Íslendingar eru stoltir af leikskólunum sínum. Löggjöfin um leikskólastarf er merkileg og rammar inn mannréttindi barna með hætti sem er öfundsverður. Víða um heim er horft til Íslands sem fyrirmynd í þessum efnum bæði er varðar stefnumörkun og löggjöf.
Eins og á mörgum sviðum öðrum hefur framkvæmd stefnunnar ekki endilega verið okkur til sama sóma og stefnumörkunin sjálf. Þannig eiga tveir þriðju hlutar starfsfólks, sem sinnir menntun og uppeldi leikskólabarna, að vera leikskólakennarar (um þetta má lesa í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara nr. 95/2019). Árið 1998 störfuðu 926 leikskólakennarar á Íslandi og voru þeir þá 29% af starfsmönnum leikskóla. Síðan þá hefur verið gert stórátak í að fjölga leikskólakennurum sem leiddi af sér að árið 2019 störfuðu 1.585 leikskólakennarar hérlendis.
Í tvo áratugi hefur því ekki aðeins tekist að tryggja nýliðun í leikskólakennarastéttinni heldur hefur stéttin vaxið hraðar en flestar aðrar stéttir. Það segir þó ekki alla söguna því árið 2019 höfðu íslenskir leikskólar fjarlægst hina lagalegu kröfu um lágmarkshlutfall leikskólakennara í stað þess að nálgast hana. Hlutfallið var þá 28% í leikskólum sem reknir eru af sveitarfélögum og aðeins 19% í einkareknum leikskólum. Það er okkur ekki til sóma.
Vöxtur leikskólastigsins hefur verið langt umfram efni og gæði.
Of hraður vöxtur leikskólastigsins er meginorsök þess að ekki hefur tekist að fjölga leikskólakennurum hlutfallslega síðustu áratugi.
Það er ábyrgðarhlutur að láta grunnkerfi samfélags vaxa umfram efni og gæði. Sú ábyrgð liggur á herðum allra sveitarfélaga landsins. Það verður að finna jafnvægi á milli fjölgunar leikskólabarna og –kennara. Það eru engar töfra- eða skyndilausnir til.“
Markmiðið að bjóða upp á gæðamenntun í leikskólum
Að lokum nefnir Haraldur að það séu þó jákvæð teikn á lofti.
„Það eru mjög jákvæð teikn á lofti varðandi fjölgun leikskólakennara. Samkvæmt tölum frá HÍ hefur verið umtalsverð fjölgun í leikskólakennaranáminu undanfarin ár og mjög stór hópur útskrifaðist nú í vor. Slíkur árangur næst ekki í tómarúmi heldur er afrakstur markvissrar vinnu og margra samhangandi þátta. Sem dæmi hafa samningsaðilar unnið markvisst að því að bæta laun og starfsaðstæður. Styrkir til náms hafa verið efldir sem og tækifæri til að stunda nám meðfram starfi og fleira. Það eru síðan stór verkefni framundan í vinnu við betri vinnutíma í leikskólum sem og jöfnun launa á milli markaða. Öll þessi skref miðast að því að fjölga leikskólakennurum sem er forsenda fyrir því að geta boðið börnum upp á gæðamenntun í leikskólum.“