Í janúar 1990 barst lögreglunni tilkynning frá bílakaupanda sem sagði farir sínar ekki sléttar, þvert á móti. Hafði hann þá lent í árás manna sem áður höfðu selt honum bifreið. Réðust þeir að manninum og klæddu hann úr fötunum og hentu honum undir kalda sturtu. Eftir það óku þeir bílnum aftur til síns fyrri heimilis. Um ástæðuna fyrir þessari óvenjulegu árás má lesa hér fyrir neðan en DV fjallaði um málið á sínum tíma:
Hörkuátök í bílaviðskiptum í Seláshverfi:
Stungu kaupandanum undir kalda sturtu
Allsérstæðar innheimtuaðgerðir vegna bílaviðskipta voru viðhafðar í húsi einu í Seláshverfi um helgina. Þær enduðu með því að ráðist var að bílkaupandanum á heimili hans og honum stungið undir kalda sturtu. Seljandi bílsins hafði ekki fengið greitt fyrir bílinn sem hann seldi íbúa í Seláshverfi. Fór hann þá á föstudagskvöldið við annan mann til að krefja kaupandann um peninga. Kaupandinn sagðist ekki hafa þá handbæra. Þá vildi seljandinn að kaupin gengju til baka og sakaði kaupandann um að hafa falsað bankaskjal. Þessu neitaði seljandinn. Tvímenningarnir réðust þá á kaupandann, rifu fötin af honum og tuskuðu hann til í íbúðinni. Honum var einnig hótað lífláti ef hann segði lögreglunni frá. Að lokum var maðurinn færður undir kalda sturtu. Við svo búið tóku mennirnir bíllyklana með sér og keyrðu bílinn umdeilda í burtu.
Bílkaupandinn tilkynnti til lögreglu um aðfarir mannanna og að búiö væri að stela bílnum hans. Seinna um kvöldið afhenti seljandi bílsins lögreglunni bíllyklana en sagði henni ekki hvar bíllinn væri niður kominn. Seljandinn tjáði lögreglunni að hann ætlaði að geyma bílinn í öruggri vörslu sinni þar til málið leystist og hann fengi sitt. Kaupandi bílsins gaf skýrslu til lögreglu en hann hefur ekki kært seljandann fyrir líkamsárás né heldur stuld á bifreið.
Lögreglan hefur ekki frekari afskipti af einkaviðskiptum sem þessum nema að kæra liggi fyrir. Bíllinn umdeildi er enn í vörslu seljandans. Samkvæmt heimildum DV er nokkuð algengt að seljendur, sem telja sig svikna í bílaviðskipum, grípi til róttækra ráða til að nálgast þau verðmæti aftur sem þeir fá ekki greitt fyrir samkvæmt samningum.
Baksýnisspegill þessi birtist áður hjá Mannlífi þann 29 nóvember 2022.