Fyrir helgi gróf lögreglan á Vestfjörðum upp líkamsleifar ungs manns sem lést í umferðarslysi í Óshlíða fyrir 49 árum síðan. Rannsaka á hvort andlátið hafi borið fram með öðrum hætti en áður var talið.
Það var þann 23. september árið 1973 er leigubíll með tveimur farþegum keyrði af Óshlíðarvegi í Bolungarvík og valt niður grýtta hlíðina. Hinn nítján ára Kristinn Haukur Jóhannesson lést í slysinu en hin tvö, leigubílstjórinn og kona sem var farþegi, sluppu bæði með lítil meiðsl.
Vísir sagði fyrst frá slysinu daginn eftir og sagði bílinn hafa farið af veginum í blindbeygju og oltið niður 60-70 metra langa snarbratta grjótskriðu og alla leið í flæðamálið. Þá kom einnig fram í fréttinni að pilturinn hafi kastast út úr bílnum á miðri leið og beðið bana er hann lenti í skriðunni. Þau sem lifðu slysið af hafi náð að komast upp á veg til að tilkynna lögreglunni á Ísafirði um slysið.
Í næstu frétt á sínum tíma kom fram að stýrið í bílnum hafi ekki verið í sambandi en ekki hefði þó verið hægt að segja með fulltri vissu að það hafi verið ástæðan fyrir útafakstri bílsins. Aukreitist kom fram síðar að bremsan hefði hugsanlega fests með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum.
Kristinn Haukur Jóhannesson var fæddur árið 1954 og var frá Barðaströnd. Kjörforeldrar hans voru þau Jóhannes Hjálmar Sveinsson, bóndi í Miðhlíð innri og Anna Soffía Össurardóttir Thoroddsen en þau áttu einnig dóttur.
Samkvæmt Rúv hefur fjölskylda Kristins haft efasemdir um rannsókn málsins og fundist dældirnar í bílnum ekki nægilega miklar miðað við að hann hafi oltið niður skriðuna. Hefur fjölskyldan því farið þess á leit að rannsókn málsins verði tekin upp að nýju og fengu það samþykkt með dómsúrskurði.
Réttarlæknir mun nú reyna að greina áverkana og skera úr um það hvort þeir hafi hlotist í bílslysi eða borið að með öðrum hætti.
Í frétt Rúv segir að lögreglustjórinn á Vestfjörðum segi að enginn hafi verið yfirheyrður í tengslum við málið en vildi að öðru leyti ekki tjá sig. Fram kemur í tilkynningu lögreglu að þó svo að langur tími sé liðinn frá andlátinu séu taldar líkur á að hægt verði að upplýsa tildrögin nánar en ekki er vitað hversu langan tíma rannsóknin mun taka.