Þriðjudagur 7. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Harmleikurinn á Óshlíðarvegi – Bilun í stýri, föst bremsa og efasemdir aðstandenda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„19 ára gamall piltur af Barðaströnd lézt í bílslysi aðfaranótt sunnudagsins. Hann var farþegi í bíl, sem fór út af Óshlíðarvegi í blindbeygju.“

Svo hefst frétt í Vísi, mánudaginn 24. september árið 1973. Ungi maðurinn sem lést þessa nótt hét Kristinn Haukur Jóhannesson. Hann var á leiðinni frá Bolungarvík til Ísafjarðar með tveimur félögum sínum, eins og segir í frétt Vísis.

Í fréttinni segir að þegar bíllinn hafi komið í blindbeygjuna á Óshlíðarveginum hafi hann farið út af. Bíllinn valt þá niður 60 til 70 metra langa snarbratta grjótskriðu og staðnæmdist ekki fyrr en í flæðarmálinu.

Ljósmynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar – skjáskot

Slysið varð eftir dansleik

„Pilturinn sem lézt, kastaðist út úr bílnum á miðri leið niður skriðuna. Félagar hans tveir slösuðust lítillega. Þeim tókst að komast upp á veginn aftur og tilkynna slysið til lögreglunnar á Ísafirði,“ segir í frétt Vísis. Sá sem ók bílnum þessa nótt var ungur maður, en hinn farþeginn ung kona. Samkvæmt fréttum höfðu þau borist með bílnum niður snarbratta hlíðina alveg niður í fjöru og gekk erfiðlega að klifra upp hana. Þau tilkynntu síðan um slysið frá Hnífsdal.

Slysið varð á milli klukkan 5 og 6 um morguninn. Bifreiðinni, sem var raunar leigubifreið, hafði verið ekið til Bolungarvíkur eftir dansleik í Hnífsdal og var á leið til Ísafjarðar þegar hún lenti utan vegar.

Kristinn Haukur Jóhannesson var frá Innri-Miðhlíð á Barðaströnd en hafði verið í vinnu á Bolungarvík. Hann fæddist árið 1954 og kjörforeldrar hans voru þau Jóhannes Hjálmar Sveinsson, bóndi í Miðhlíð innri og Anna Soffía Össurardóttir Thoroddsen.

- Auglýsing -
Kristinn Haukur Jóhannesson

Tvö slösuðust lítið – stýrið ekki í sambandi

Leigubílstjórann og ungu konuna sakaði lítið sem ekkert. „Leigubílstjórinn, sem er þaulvanur bílstjóri, segist álíta, að annað framhjólið á bílnum hafi festst af einhverjum sökum og bíllinn við það henzt út í kantinn, stoppað þar augnablik, en oltið síðan um, við það að farþegarnir köstuðust út í hliðina,“ segir í frétt Tímans um málið.

Á miðvikudeginum eftir slysið birtist frétt í Vísi þar sem sagði eftirfarandi:

„Stýrið á bílnum sem fór út af Óshlíðarvegi á sunnudaginn, var úr sambandi. Þegar farið var að skoða bílinn, kom þetta í ljós. Aftur á móti mun ekki vera hægt að segja með fullri vissu, hvort það hafi verið bilun í stýri, sem olli því, að bíllinn fór út af.

- Auglýsing -

Ökumaður bílsins er leigubílstjóri og hefur ekið þennan veg í mörg ár. Ekki hefur enn verið hægt að yfirheyra hann til hlítar vegna taugaáfalls, sem hann hlaut.“

Ljósmynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar – skjáskot

 

Föst bremsa og efasemdir

Í frétt Vísis segir að Kristinn hafi ekki verið spenntur í öryggisbelti, né heldur ökumaðurinn eða unga konan sem einnig var farþegi. Talið var að Kristinn hefði kastast út úr bílnum um miðbik hlíðarinnar og lent undir bílnum. Hann hafi sennilega látist samstundis.

Síðar kom einnig fram að hugsanlega hefði bremsan í bílnum festst með þeim afleiðingum að bíllinn lenti út af veginum.

Samkvæmt heimildum hafði fjölskylda Kristins alltaf efasemdir um atburðinn sem olli dauða hans og niðurstöður rannsóknarinnar á sínum tíma. Þeim hafi til að mynda fundist bíllinn of heillegur til þess að rökrætt væri að hann hefði oltið niður hlíðina með þeim hætti sem hinir aðilarnir tveir lýstu.

Ljósmynd: Ljósmyndasafn Ísafjarðar – skjáskot

Rannsókn tekin upp að nýju

Nú, þegar 49 ár eru liðin frá slysinu, hafa orðið nýjar vendingar í málinu. Aðstandendur Kristins fóru þess á leit við yfirvöld að rannsókn málsins verði tekin upp að nýju. Það var samþykkt með dómsúrskurði og fyrir helgi voru jarðneskar leifar Kristins grafnar upp í þeim tilgangi að varpa ljósi á það með hvaða hætti hann lést fyrir tæplega hálfri öld. Réttarlæknir mun reyna að greina áverkana og skera úr um það hvort þeir hafi raunverulega hlotist í bílslysi, eða hugsanlega með einhverjum öðrum hætti.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum sagði í samtali við RÚV að enn hefði enginn verið yfirheyrður í tengslum við málið, en vildi ekki tjá sig að öðru leyti. Í tilkynningu vegna málsins segir að þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá atburðinum séu taldar líkur á að hægt verði að upplýsa nánar um tildrög andláts Kristins. Ekki er vitað hve langan tíma rannsóknin muni taka.

 

Bílstjórinn ósáttur vegna rannsóknar

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við leigubílstjórann sem ók bifreiðinni þessa örlagaríku nótt. Hann er á níræðisaldri og búsettur á Ísafirði. Hann var ósáttur með að taka ætti rannsóknina upp að nýju.

„Þá er semsagt verið að ýja að því að þetta hafi verið morð,“ sagði hann í samtali við blaðamann. „Þetta er bara bull. Það er verið að búa til eftir 50 ár glæpamál úr því sem er löngu búið að fara í gegnum. Þetta er furðulegt.“

Aðspurður hvort hann gæti sagt blaðamanni eitthvað um atburði þessarar nætur og það hvernig hann myndi eftir slysinu og tildrögum þess var hann ómyrkur í máli:

„Nei, ég hef annað að gera en að standa í svona fávitahætti.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -