Vilhálmur H. Vilhjálmsson lögmaður er afar ósáttur við lengd gæsluvarðhalds yfir skjólstæðingi sínum en hann hefur setið í varðhaldi í fjóra mánuði, án ákæru.
Daníel Andri Einarsson, fæddur 1997, hefur setið í gæsluvarðhaldi í fjóra mánuði án þess að honum sé birt ákæra. Hann er grunaður um að hafa banað Sofiu Sarmite Kolesnikova sem fannst látin í heimahúsi þann 27. apríl á Selfoss. Bróðir Daníels var einnig handtekinn á vettvangi en honum var sleppt 4. maí.
Samkvæmt RÚV telur lögreglan sterkan grun um að Daníel hafi kyrkt Sofiu en hún var með för á hálsi. Bráðabirgðakrufning leiddi hins vegar ekki skýrt í ljós að kyrking hefði verið banamein hennar en Daníel neitar staðfastlega hálsförin séu af hans völdum. Hann segist hafa komið að Sofiu látinni á baðherbergisgólfi og talið hana hafa látist af völdum fíkniefna.
Sjaldgæf lengd á gæsluvarðhaldi
Lögmaður Daníels, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er afar ósáttur við þann langa tíma sem Daníel hefur þurft að dúsa í gæsluvarðhaldi. Engin ákæra hefur verið gefin út á hendur fanganum. Mannlíf spurði lögmanninn hvort þetta langt gæsluvarðhald, án ákæru, 18. vikur, sé einsdæmi hér á landi en hann sagðist ekki geta fullyrt um það. „Ég treysti mér hins vegar til að segja það að ef svo er, þá eru þau tilvik örfá og þetta er alveg skýr og ótvíræð meginregla um það að gæsluvarðhald eigi ekki að vara lengur en 12 vikur nema það sé gefin út ákæra eða það séu brýnir rannsóknarhagsmunir,“ segir Vilhjálmur.
mjög fátæklegur rökstuðningur
Vilhjálmur segir að lögum um meðferð sakamála hafi verið breytt árið 2008. „Af gefnu tilefni, af því að menn höfðu verið látnir dúsa í gæsluvarðhaldi í langan tíma á meðan lögreglan var að dunda sér við rannsókn eða rannsókn var lokið og ákæruvaldið var að hika við að gefa út ákæru í málinu. Og þess vegna er þessi regla sett.“
Enginn rökstuðningur
Vilhjálmur ítrekar að gæta þurfi að mannréttindum fólks í gæsluvarðhaldi.
„Í þessu tilviki er mjög fátæklegur rökstuðningur fyrir því að þetta skilyrði fyrir brýna rannsóknarhagsmuni sé uppfyllt. Það er í raun og veru nánast vísað í það að af því að lögreglan segir það, þá séu brýnir rannsóknarhagsmunir. Og það er bara enginn rökstuðningur í úrskurðum Landsréttar,“ segir Vilhjálmur.
Lögmaðurinn segir að hér sé um grafalvarlegt mál að ræða og úrskurðirnir séu bara staðfestir með vísan til forsendna Héraðsdóms. „Sem er að mínu mati grafalvarlegt mál um svona mikilvægt grundvallaratriði þar sem verið er að víkja frá skýrri meginreglu,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir að vikið sé frá grundvallarreglu sem eigi sér stoð í stjórnarskrá og í Mannréttindasáttmála Evrópu og löggjafinn hafi mælt fyrir um með skýrum hætti.
„Það er hlutverk dómstóla að dæma eftir lögum. Og Alþingi hefur sett þessa lagareglu og það er algjörlega ólíðandi að það sé þá ekki skýrt út af Landsrétti hvað það er sem fellur undir brýna rannsóknarhagsmuni.“
Ófullnægjandi útskýringar á töfum
Að lokum bendir Vilhjálmur á áhugaverða staðreynd.
„Í nýjasta úrskurði Héraðsdóms, sem Landsréttur staðfestir með vísan til forsendna, eru nokkrar línur um það að lögreglan hafi ekki gefið fullnægjandi útskýringar á því, eða gengið á eftir því með fullnægjandi hætti, af hverju þessar tafir eru á rannsókninni. Þegar maður las þennan rökstuðning, taldi ég að hann væri að fara að hafna kröfunni um gæsluvarðhald en síðan er þetta samþykkt þrátt fyrir það að Héraðsdómur, sem Landsréttur staðfesti með vísan til forsendna, telji að lögreglan hafi ekki gefið fullnægjandi útskýringar á töfum á rannsókninni.“
Stjúpfaðir Daníels Andra vildi ekki tjá sig um málið er Mannlíf hafði samband við hann.