Félag háskólakvenna hefur valið Háskólakonu ársins 2019. Fyrir valinu varð dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningu og tölfræði við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum og stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics.
Margrét Vilborg lauk BS gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2001 og hlaut þá hæstu einkunn sem skráð hafði verið. Hún lauk doktorsgráðu frá MIT í Cambridge 2008. Rannsóknarritgerð hennar ber heitið Data-Driven Approach to Health Care – Applications Using Claims Data.
Margrét Vilborg hefur verið meðhöfundur í fjölmörgum rannsóknargreinum sem birtar hafa verið í viðurkenndum ritrýndum tímaritum. Hún hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir kennslu, meðal annars var hún valin besti kennarinn í MBA valgreinum árið 2018 og hlaut virt kennsluverðlaun Robert H. Smith viðskiptaháskólans árið 2018-19.
Margrét Vilborg er jafnframt stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics þar sem þróuð hefur verið hugbúnaðarlausn sem gerir stofnunum og fyrirtækjum kleift að framkvæma launagreiningar, skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu.
Félag háskólakvenna var stofnað 1928. Í fyrsta skipti í sögu félagsins var efnt til vals á Háskólakonu ársins árið 2017. Þá varð fyrir valinu dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Í annað sinn varð fyrir valinu dr. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, en hún lauk BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego.
Í tilkynningu frá Félagi háskólakvenna segir að tilgangur þess að velja Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill fagna framgangi þeirra, áræðni og sérstökum árangri.