Hinseginfáni var skorinn niður í Mosfellsbæ fyrir utan Á. Óskarsson.
Nú um helgina verður Gleðigangan gengin og er hún hluti af Hinsegin dögum sem nú eiga sér stað. Margir fagna fjölbreytileikanum og gleðjast en því miður eru sumir svo uppfullir af hatri að þeir þurfa að skemma gleðina fyrir öðrum. Hinseginfáni sem hékk fyrir utan fyrirtækið Á. Óskarsson ehf. var skorinn niður síðustu nótt
„Þetta var mjög óþægilegt að sjá og vakti ömurlegar tilfinningar,“ sagði Heiðar Ágústsson, framkvæmdastjóri Á. Óskarsson, í viðtali við mbl.is. „Þetta er litskrúðugur fáni sem táknar gleði, mannvirðingu og annað og það er ótrúlegt að fólk skuli eiga það mikið bágt að það láti þetta fara í taugarnar á sér.“
Þá voru átta hinseginfánar skornir niður fyrir utan bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar.
„Þetta sýnir það greinilega að baráttan fyrir tilverurétti hinseginfólks er aldrei búin og að ef henni er ekki sinnt dettur hún bara til baka. Það er mikilvægt fyrir okkur akkúrat núna að auka sýnileikann og halda baráttunni virkri og áberandi,“ sagði Heiðar um málið.
„Lögreglan kom og sagði mér að þetta yrði flokkað sem hatursglæpur. Hún sagði mér líka að það væri óvenju mikið um glæpi af þessu tagi í ár. Það er sumsé talsvert um það að verið sé að skera regnbogafána.“
Undanfarið hefur verið mikið bakslag í garð hinseginfólks og þá sérstaklega transfólks. Í því samhengi hafa Samtökin 22, sem segjast berjast fyrir réttindum samkynhneigðra, verið sökuð um að vera haturssamtök sem berjast gegn tilveru transfólks.
Ég hvet alla sem að eiga fánastangir til þess að verða sér úti um regnboga fána og flagga til þess að sýna að við sem þjóð líðum ekki svona skemmdarverk og níðingsverk,“ sagði Heiðar loks.