Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Haukur Hilmarsson hefði orðið 36 ára í dag – Áður óbirt ljóð eftir hugsjónamanninn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Afmælisbarn dagsins er náttúruverndarsinninn, anarkistinn, aðgerðarsinninn og hugsjónamaðurinn Haukur Hilmarsson. Ekki er víst hvort hann sé lífs eða liðinn þó líklegast þykir að hann sé liðinn. Hann er eða hefði orðið 36 ára í dag.

Haukur Hilmarsson – hugsjónamaður
Ljósmynd: Ásgeir Ásgeirsson eða Geiri X

Haukur hafði ríka réttlætiskennd og mátti ekkert aumt sjá. Sem unglingur mótmælti hann Kárahnjúkavirkjun ásamt Saving Iceland aðgerðarhópnum og var Haukur ekki hræddur við að koma sér í vandræði en meðal annars hlekkjaði hann sig við vinnuvélar. Þá barðist hann einnig fyrir rétti flóttafólks til að fá að búa á Íslandi en meðal aðgerða sem hann tók þátt í varðandi þann málaflokk var það þegar hann hljóp, í slagtogi við annan mann, inn á flugbraut til að reyna að stöðva brottflutning flóttamannsins Paul Ramses sem fljúga átti úr landi. Ramses var flogið úr landi en fékk svo síðar hæli á Íslandi. Þá spilaði Haukur gríðarlega stóran part í Búsáhaldabyltingunni svokölluðu en frægt er atvikið er hann fór upp á Alþingishúsið og tók niður íslenska fánann og hengdi upp Bónus fánann í staðinn.

Sjá einnig: Uppreisnin á Austurvelli: Þegar Haukur Hilmarsson hengdi upp Bónusfánann

Árið 2017 fór Haukur til Sýrlands til að hjálpa Kúrdum að berjast gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS sem herjuðu á Afrin-hérað með tilheyrandi drápum og limlestingum. Kúrdarnir og Haukur sigruðu ISIS-menn 2018 en fögnuðu ekki lengi því her Nató-ríkisins Tyrklands réðist á Kúrdana með flugskeytaárásum og er talið að Haukur hafi látist í þeim árásum en lík hans hefur aldrei fundist. Reyndar hefur aldrei verið leitað að því en einhverjar fyrirspurnir sendar en fátt hefur verið um svör.

Sjá einnig: Fjögur ár frá hvarfi Hauks Hilmarssonar: „Var Haukur með kurteisari mönnum í daglegu lífi“

Ekki vita allir af því en Haukur var bráðgott skáld en hér fyrir neðan má sjá sennilega síðasta ljóðið sem hann skrifaði en það er frá árinu 2017. Vinur Hauks, Linus Orri Gunnarsson Cederborg, birti í dag myndband í tilefni af afmæli Hauks þar sem hann syngur lag við ljóð Hauks. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan ljóðið.

- Auglýsing -

Dansa á ösku daganna

Ég hef farið hörðum höndum
helming alls sem ég hef snert,
ljóð mín vafið böguböndum,
brotið lög, mitt orðspor svert.

Hollráð vísra haft að spotti,
hundsað sektir, gróða skert,
þræla reynt með þöglu glotti,

þrálátt marið hold mitt bert.

- Auglýsing -
Lifa til að leika og herja
hart á verði laganna.
Taka hús og timbur ferja,
duga og vinna dagstund hverja.
Frelsið verja,
valdið berja,

dansa á ösku daganna.

Mildum höndum, hins þó vegar,
hef ég leikið smærri menn.
Elskað stúlkur stórfenglegar,
stundum fleiri en eina í senn.
Heimskum hlíft og hlúð að þjáðum,
hlýt ég lengi að verja enn,
hörðum, mjúkum höndum báðum,
heim þann sem ég fyrir brenn.
Lifa til að leika og herja
hart á verði laganna.
Hlaupa, klifra, kné sín merja,
gáma mat og moldina erja.
Frelsið verja,
valdið berja,

dansa á ösku daganna.

Mannlíf óskar afmælisbarninu og aðstandendum innilega til hamingju með afmælisdaginn!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -