Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita veitingastöðum undanþágu frá fjöldatakmörkun nýrrar reglugerðar um takmarkanir á samkomum í dag 23. desember. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Veitingastöðum verður því heimilt að taka á móti 50 gestum í rými í dag 23. desember í stað 20 líkt og kveðið er á um í reglugerð.
Að fjöldatakmörkunum slepptum verður skylt að viðhafa allar þær sóttvarnaráðstafanir sem kveðið er á um í reglugerðinni. Veitingastöðum ber því að loka á þeim tíma sem kveðið er á um í reglugerðinni, þ.e. kl. 21.00.
„Þetta er gert til að gæta meðalhófs í ljósi þess hve skammur fyrirvari er á gildistöku reglugerðar um hertar sóttvarnaaðgerðir. Rekstraraðilar eru hvattir til þess að gæta áfram ýtrustu sóttvarnaráðstafana, svo sem með greiðu aðgengi að handspritti, tryggja grímunotkun og gæta að 1 metra nálægðarmörkunum milli ótengdra aðila,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, sagði í samtali við Fréttablaðið að ráðherra hafi brugðist við beiðninni strax.
„Veitingastaðirnir hafa tekið við bókunum þennan dag sem erfitt er að breyta með þetta skömmum fyrirvara og ljóst að mikill undirbúningur og verðmæti munu fara forgörðum með tilheyrandi tjóni fyrir veitingamenn og óþægindum fyrir gesti. Ljóst er að ekki er unnt að bregðast við nýjum sóttvarnareglum með svo skömmum fyrirvara án mikils tjóns fyrir viðkomandi staði,“ segir í beiðninni sem var send til ráðherra.