Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Heilsufar er nátengt blóðflokki okkar – Blóðflokkur 0 dregur úr hættu á kórónaveirusýkingu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú hafa nýjustu rannsóknir leitt í ljós að blóðflokkarnir eru afgerandi fyrir það hvort við eigum eftir að veikjast af tilteknum sjúkdómum. Einn tiltekinn blóðflokkur gagnast betur en allir hinir.

Sumir blóðflokkar hafa þó löngum vafist fyrir læknum sem allar götur frá árinu 1901 hafa reynt að rýna í hvað blóðflokkarnir gefa til kynna um okkur.

Flokkur 0 er konungur blóðflokkanna

Þeir sem eru í blóðflokki 0 geta tölfræðilega séð átt von á að sleppa við krabbamein, minnisglöp og hjartasjúkdóma.

Rannsókn leiddi í ljós að fólki í blóðflokki A, B og AB er 15% hættara við að látast af völdum hjarta- og æðasjúkdóma en þeim sem eru í flokki 0.

Auk þess virðist blóðflokkur 0 vernda líkamann gegn krabbameini.

Vísindamenn telja skýringuna vera fólgna í því að blóðflokkarnir A, B og AB fái ónæmiskerfið til að erfiða, með þeim afleiðingum að líkamanum verði hættara við að veikjast af krabbameini, á meðan 0 flokkurinn sé hagstæðari hvað þetta varðar.

- Auglýsing -

13 prósent minni ef þú ert í blóðflokki 0

Fólk í 0 blóðflokki er ólíklegra til að smitast af kórónuverunni samanborið við blóðflokka A, B og AB. Það sýnir stórt danskt rannsóknarverkefni frá Árósaháskóla og Háskólanum í Suður -Danmörku.

Vísindamennirnir hafa rannsakað 473.654 Dani sem höfðu verið prófaðir fyrir veirunni og borið þá saman við samanburðarhóp meira en 2,2 milljóna manna.

Meðal þeirra 7422 sem fengu jákvæða niðurstöðu voru færri sem voru í blóðflokki 0 og fleiri sem voru í flokkum A, B eða AB.

- Auglýsing -

Nánar tiltekið er hættan á að smitast af kórónaveirunni 13 prósent minni ef þú ert í blóðflokki 0 – og það er óháð því hvort þú ert rhesus jákvæður eða neikvæður.

Blóðflokkur 0 er samt ekki trygging gegn sýkingu og því hvetja vísindamennirnir þig til að fylgja varúðarráðstöfunum yfirvalda óháð því í hvaða blóðflokki þú ert í.

Ekki er enn vitað hvers vegna blóðflokkur 0 er minna móttækilegur fyrir kórónaveirusýkingu og því er þörf á frekari rannsóknum. Vísindamennirnir að baki verkefninu vona þó að þessi nýja vitneskja geti hjálpað að meðhöndla og koma í veg fyrir kórónuveirusýkingu.

A og AB geta valdið alvarlegum einkennum kórónuveirunnar

Þar sem blóðflokkur 0 getur veitt vernd gegn kórónuveirunnar eru vísbendingar um að blóðflokkur A og blóðflokkur AB geti aukið hættuna ekki aðeins á sýkingu heldur einnig á alvarlegum COVID-19 sjúkdómseinkennum. Þetta kemur fram í kanadískri rannsókn sem hefur rannsakað 95 alvarlega veika COVID-19 sjúklinga.

Að sögn vísindamannanna þurftu sjúklingar með blóðflokk A eða blóðflokk AB oftar að fara í öndunarvél, sem getur bent til þess að þeir hafi orðið fyrir meiri skemmdum á lungavef vegna sýkingarinnar.

Sjúklingar með A eða blóðflokk AB höfðu einnig hærri tíðni nýrnabilunar og almennt voru þeir lengur á gjörgæsludeildum en sjúklingar með blóðflokk 0 eða B.

Ný bandarísk rannsókn hefur rannsakað blóðflokk A og komist að því að SARS-CoV-2 er með prótín, RBD, sem virðist kjósa þennan blóðflokk.

Kórónaveiran notar prótínið til að bindast frumum og í samanburði við aðra blóðflokka binst prótínið oftar við frumurnar í öndunarvegi  hjá fólki í blóðflokki A.

 

 

Hér að ofan má sjá í kökuriti hvernig blóðflokkarnir fjórir deilast á heimsvísu. Þess má þó geta að svæðisbundnar sveiflur koma fyrir og í Suður-Ameríku eru t.d. margir í flokki 0 á meðan flestir Norðurlandabúar eru í flokki A

Íslendingar skera sig þó úr meðal Norðurlandaþjóðanna, því hér eru um 56% í blóðflokki O, 32% í blóðflokki A, 10% í B og einungis 3% í blóðflokki AB.

Til samanburðar þá er A flokkurinn algengastur hjá frændum okkar Norðmönnum, þar sem 49% tilheyra þeim flokki, 39% eru í O flokki, 8% í B og 4% Norðmanna eru í AB blóðflokknum.

Blóðflokkur AB getur leitt af sér minnisglöp

Önnur athyglisverð rannsókn gaf til kynna að fólki í blóðflokki AB væri alls 82% hættara við vandamálum í tengslum við minnið en þeim sem tilheyra öðrum blóðflokkum.

Vísindamennirnir skýra þetta á þann hátt að blóðflokkurinn ákvarði hvernig og hve auðveldlega blóðið storkni og að blóð tiltekinna flokka storkni betur en annarra, með þeim afleiðingum að litlir blóðtappar myndist og erfiðara reynist að muna.

Rh-jákvætt eða -neikvætt

Kerfið sem aðalflokkarnir fjórir skiptast eftir, kallast „AB0“ og grundvallast á því að yfirborð sumra blóðkorna er þakið ólíkum mótefnavökum, ellegar sykrum sem nefnast A eða B, á meðan sum blóðkorn hafa enga mótefnavaka (0).

Samkvæmt öðru blóðflokkunarkerfi, Rhesus, flokkast blóðflokkarnir í grófum dráttum í þá sem fela í sér mótefnavakann D (Rh-jákvæðir) og þá sem ekki hafa hann (Rh-neikvæðir). Fyrir bragðið er yfirleitt talað um átta blóðflokka, þ.e. A, B, AB og 0 sem annaðhvort eru Rh-jákvæðir eða Rh-neikvæðir.

Mikilvægt er fyrir fólk að vita hvort það er Rh-jákvætt eða -neikvætt, því blöndun þessara flokka getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem eru Rh-neikvæðir.

 

Heimildir:

Gorm Plamgren og Anne Lykke. 2021, 04.08. Heilsa okkar ræðst af blóðinu. Lifandi vísindi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -