Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hekla næringafræðingur:„Útbúa hafragrautinn með mjólk frekar en vatni, vera óspar á sósur.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hekla McKenzie Árnadóttir næringarfræðingur þykir ótrúlegt að við sjáum ekki betur um eldri borgarana okkar og talar um það hversu mikil áhrif næring hefur á farsæla öldrun.

Í viðtali við Sólveigu Baldursdóttur, blaðamann á Lifðu núna segir Hekla: „Ég ætlaði alls ekki að fara þessa leið í náminu en hafði þó lengi einbeitt mér að næringarástandi viðkvæmra hópa. Undir þá skilgreiningu falla m.a. aldraðir en líka flóttafólk og innflytjendur, sem er sá hópur sem ég hafði stærstan hluta af mínu námi unnið með.“

Á meðan unga fólkið okkar sýnir málefnum eldra fólks áhuga líkt og Hekla gerir er okkur borgið því hjá þeim er oft krafturinn sem er nauðsynlegur til breytinga. Við þurfum bara að bera gæfu til að hlusta á þau.

Einföld leið til að auka orku

Hekla segir að nauðsynlegt sé að gæta vel að því að samsetning matarins sé rétt og í hlutfalli við þarfir heimilisfólksins. Hekla segir að eðlilegt sé að við borðum minna með hækkandi aldri en við verðum að vara okkur á að matarlyst minnkar með aldrinum umfram minnkaða orkuþörf.

Hún segir að þörfin fyrir vítamín og steinefni haldist nánast óbreytt og sama tíma aukist próeinþörfin.

„Þegar kemur að veiku og hrumu eldra fólki skiptir mestu máli að huga að orkuinntöku. Próteinþörfin eykst og gott er að orku- og prótínþétta máltíðir. Einföld leið til að auka orku og prótein í máltíðum sé til dæmis að útbúa hafragrautinn með mjólk frekar en vatni, vera óspar á sósur og nota fullfeitt álegg. Þetta stangast á við fæði sem yngra fólki er ráðlagt að vera á.”

- Auglýsing -

Leiðbeinandi Heklu í náminu var Ólöf Guðný Geirsdóttir dósent í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, en meginviðfangsefni Ólafar í rannsóknum er næringarástand aldraðra ásamt rannsóknum á hvernig matur og næring hefur áhrif á farsæla öldrun.

„Áhugi Ólafar á málaflokknum hafði sannarlega áhrif á mig og það var svo fyrir tilstilli hennar sem ég endaði á að taka þátt í samevrópskri rannsókn um áhrif næringarinngrips og hreyifíhlutunar gegn færniskerðingu meðal aldraðra. Ég vann svo lokaverkefnið mitt út frá niðurstöðum íslenska hóps þessarar rannsóknar.“

„Sama sumar og ég skrifaði lokaritgerðina var mér síðan boðið starf sem næringarfræðingur á hjúkrunarheimili. Þar með kviknaði áhugi minn á næringu aldraðra fyrir alvöru,” segir Hekla sem langar að létta líf fólks á þessu æviskeiði.

- Auglýsing -

Vantar sárlega starfsfólk á hjúkrunarheimilin

Hekla segir að mönnunarvandi sé viðvarandi vandamál á hjúkrunarheimilum sem komi eðlilega niður á heimilisfólkinu sem flestir eru orðnir mjög fullorðnir.

„Slíkt kemur niður á heimilismönnum sem og starfsfólki á hinum ýmsum sviðum. Til dæmis segir það sig sjálft að þegar tíu manns sitja til borðs og sjö af þeim þurfa aðstoð við að matast er illmögulegt að sinna öllum eins og best væri á kosið. Allir sem þekkja til vita að það vantar sárlega starfsfólk á hjúkrunarheimilin, sér í lagi fagfólk til þess að við getum séð sómasamlega um að næra eldri borgarana okkar.”

Þar er Hekla að tala um næringarfræðinga, talmeinafræðinga og hjúkrunarfræðinga en næringarfræðingar eru almennt ekki að störfum inni á slíkum stofnunum. ,,Það er bráðnauðsynlegt að gera reglulegt mat á næringarástandi og öðrum næringarþörfum íbúa.“ Hekla nefnir dæmi um konu sem hafði sjálf verið hjúkrunarfræðingur þegar hún var yngri og starfað mikið að öldrunarmálum.

Óskaplega óspennandi og ólystugt

„Þessi kona var komin með heilabilun en næring hennar var ótrúlega fábreytt. Starfsfólk í eldhúsi útbjó mat fyrir hana einu sinni í viku fyrir alla vikuna en það var stappaður fiskur og kartöflur, óskaplega óspennandi og ólystugt en þetta fékk hún á hverjum degi. Í lok vikunnar var þetta svo orðinn vikugamall fiskur. Þessi staða verður náttúrlega bara af því það er vöntun á þekkingu inni á heimilunum.

Á hverju hjúkrunarheimili ætti að vera bæði næringarfræðingur og talmeinafræðingur. Þeir sem starfa í eldhúsinu hafa ekki þekkingu til að útbúa sérfæði eins og maukfæði þótt mjög margir starfsmenn sinni þessu starfi vel og eftir bestu getu. Því miður er samt allt of algengt að þessu sé ekki sinnt rétt.”

Hekla ólst upp við ríka matarmenningu hjá foreldrum sínum og líka hjá móðurömmu sinni. Sú góða kona er engin önnur en Nanna Rögnvaldardóttir matreiðslubókahöfundur með meiru og nú er Hekla sjálf komin með meistarapróf í næringarfræði svo mataráhuginn í fjölskyldunni skilaði sér til Heklu þótt á annan hátt sé. ,,Ég hef alltaf fylgst vel með starfi ömmu og sat um að hjálpa henni fyrir veislur og matarmyndatökur sem barn” segir Hekla.

„Ég var þó óttalegur matargikkur á mínum yngri árum og man til dæmis eftir að hafa farið í ferðalag með ömmu til þriggja landa og ég held ég hafi ekki smakkað neitt alla ferðina nema McDonald’s hamborgara,” segir hún og hlær ,,Ég man að amma var orðin svolítið pirruð seinni hluta ferðarinnar en hún vildi ekki pína matvanda barnabarnið sitt til að smakka á öllum dýrindis sælkeramatnum sem okkur stóð til boða,“ segir Hekla og brosir.

Hún segist sjá mikið eftir því núna að hafa verið svona erfið við ömmu sína en nú ætli hún að bæta henni það upp. Hún sé nú sjálf farin að búa og geti búið til kræsingar handa ömmu sinni og boðið henni í mat. Hekla eignaðist dóttur fyrir ári síðan sem breytti lífi hennar eðlilega umtalsvert. Hún er samt búin að finna fjölina sem hún vill vera á varðandi nám sitt og hefur áhuga á áframhaldandi námi í þessum fræðum.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -