Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Helga stígur fram í kjölfar dóms Gísla: „Ótrúlega mikilvægt að fá viðurkenningu á því sem gerðist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gísli Hauksson, einn stofnenda sjóðstýringafélagsins GAMMA, var í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, Helgu Kristínu Auðunsdóttur, lektor við Háskólann á Bifröst. Gísla var auk þess gert að greiða henni hálfa milljón króna í miskabætur sem og allan sakarkostnað. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Helga Kristín steig fram opinberlega í fyrsta sinn í dag eftir að dómurinn var kveðinn upp. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún frá því ofbeldi sem Gísli beitti hana á heimili þeirra árið 2020. Hann var ákærður fyrir að hafa ítrekað tekið hana kverkataki, skellt henni utan í vegg og gripið um háls hennar svo hún átti erfitt með að ná andanum.

 

Fór í Kvennaathvarfið um nóttina

„Það var í maí fyrir tveimur árum sem ráðist var á mig á heimili mínu og ég flúði berfætt með svefnpoka sem ég greip með mér,“ segir Helga Kristín í færslunni. Hún segist aldrei hefðu trúað því að hún myndi upplifa svo mikla ógn og ofbeldi á heimili sínu, af hálfu manneskju sem hún treysti. „En í dag veit ég að þolandi hefur enga stjórn á ákvörðun annarra um að beita ofbeldi.“

Helga Kristín er sögð hafa reynt að komast undan Gísla en hann hafi þá farið á eftir henni, gripið um handleggi hennar og fleygt henni á rúm. Hún hlaut þónokkra áverka við árásina. Hún tognaði, hlaut ofreynslu á brjósthrygg og hálshrygg, auk töluverðra yfirborðsáverka á upphandlegg, öxl og hálsi.

„Sömu nótt hringdi ég í Kvennaathvarfið og bað nánast um númeraðan lista yfir atriði sem ég yrði að gera til að tryggja að ég færi aldrei aftur þarna inn á heimilið. Ég fór að þeirra ráðum í einu og öllu sem gaf mér svo mikilvægar bjargir vikurnar á eftir. Þakklæti til þeirra verður alltaf til staðar,“ segir hún í færslunni.

- Auglýsing -

Hún segir starfsmenn Kvennaathvarfsins hafa ráðlagt henni að fara á bráðamóttöku þá um nóttina vegna alvarleika áverkanna. Þangað fór hún og fékk staðfestingu.

„Það var mér ótrúlega mikilvægt að fá viðurkenningu á því sem gerðist og viðurkenningu á að ég var beitt ofbeldi. Líkamlegt ofbeldi skilur eftir merki og hefur áhrif á líðan í langan tíma. Það er því gaslýsing á hæsta stigi þegar gerandi ítrekað neitar sök. Í tvö heil ár. Að hann neitaði sök í allan þennan tíma gerði líðanina á þessum tíma margfalt verri.“

 

- Auglýsing -

Kæruferlið gerði ofbeldisupplifunina verri

Helga Kristín segist hafa ákveðið að kæra ofbeldið daginn sem henni fannst hún geta dregið andann ofan í lungu og brost með augunum. Hún segir ferlið sem tók við hafa verið afar erfitt. „Kæruferlið er með því erfiðasta sem ég hef upplifað og á margan hátt upplifði ég eins og kæruferlið hjá lögreglu hafi gert ofbeldisupplifunina verri.“

Hún segist þakklát þeim konum sem börðust á undan henni fyrir því að skila skömminni. Hún segir það þeim að þakka að hún finni ekki fyrir skömm í dag.

„En mig langar ekki að dvelja í því að þetta var lífreynsla sem ég bað ekki um og óska engum. Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað,“ segir Helga Kristín.

 

Játaði loks brotið

Brot af þessu tagi varðar allt að sex ára fangelsi og krafðist Helga Kristín miskabóta upp á þrjár milljónir króna. Dómurinn verður því að teljast afar vægur með tilliti til þessa, en saksóknari í málinu lagði til 60 daga skilorð til refsingar eftir að Gísli játaði brotið fyrir héraðsdómi fyrir viku síðan. Játningin var talin til mildunar dómsins.

„Í dag lýkur þessu ferli,“ segir Helga Kristín í færslu sinni. „Í dag var gerandinn sakfelldur eftir að hafa loksins játað brotið. Dómstóll hefur viðurkennt ofbeldið sem átti sér stað bakvið luktar dyr í maí 2020. Einu og hálfu ári frá kæru. Tveimur árum frá árás. Léttirinn við að þessu er lokið er ólýsanlegur. Það er bjart framundan enda á ég góða að,“ segir hún að lokum.

Gísli starfaði sem forstjóri GAMMA og stýrði uppbyggingu félagsins í bæði New York og London. Hann sagði skilið við fyrirtækið árið 2018. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil, sat til að mynda í miðstjórn og var formaður fjármálaráðs á tímabili. Eins og Mannlíf greindi frá voru öll ummerki um störf Gísla fyrir Sjálfstæðisflokkinn horfin stuttu eftir að greint var frá ákærunni í fjölmiðlum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -