Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Helga Vala rífur nýju Útlendingalögin í sig: „Ekki trúa öllu sem stjórnmálafólk segir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Ekki trúa öllu sem stjórnmálafólk segir. Þegar þau halda því fram að þau séu að skapa skilvirkara og ódýrara kerfi í málefnum útlendinga þá eru þau að gera þveröfugt.
Núna streyma út úr Útlendingastofnun ákvarðanir um synjun á áframhaldandi leyfi fólks sem hefur verið hér árum saman, á verndarleyfum, á hér fjölskyldu og hefur starfað hér allan tímann.“ Þannig hefst Facebook-færsla Helgu Völu Helgadóttur lögmanns og fyrrum alþingismanns. Þar segir hún frá nýjum breytingum á Útlendingalögum.

„Þetta gerist vegna nýrra breytinga á Útlendingalögum sem fyrirskipar endurskoðun á öllum leyfum á nokkurra ára fresti þannig að það þurfi enn að vera grundvöllur til að veita vernd, þótt fólk sé ekki í neinni þjónustu sem því fylgir,“ skrifar Helga Vala og útskýrir síðan lögin:

„Í stað þess að löggjafinn veiti stofnuninni heimild til að leiðbeina fólki inn á „rétt leyfi“ þá er búið til alveg ótrúlegt flækjustig bjúrókrasíu með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur vegna starfsfólks ÚTL sem nú þarf að leggjast yfir hverja og eina umsókn um endurnýjun á nýjum grundvelli sem kallar á margra mánaða og jafnvel ára vinnslu. En það leggst líka kostnaður á fjölskyldur sem töldu sig loksins vera búnar að eignast gott og eðlilegt líf, fjölskyldur í fullri vinnu og með börn í leikskóla og skóla.
Lög um útlendinga eru mjög takmörkuð þegar kemur að því að fá leyfi á öðrum grunni, sértu frá landi utan EES. Atvinnuleyfi er ekki ekki veitt nema ef skortur er á starfsfólki í því tiltekna starfi eða þú hafir umtalsverða sérfræðiþekkingu sem finnst ekki hjá öðrum íbúum hér á landi. Leyfi vegna sérstakra tengsla eru líka mjög takmörkuð og virðist ekki duga að hafa verið hér í hálfan áratug í fullri vinnu. Ung börn leiða ekki til þess að um sé að ræða viðkvæmar aðstæður og fjölskyldusameining er það ekki þegar henda á heilu fjölskyldunum út.“

Að lokum skýtur Helga Vala föstum skotum á síðustu ríkisstjórn og þá flokka sem studdu hin nýju lög og spyr hvort öryrkjar verði enn og aftur gerðir að sökudólgum þegar skortur á starfsfólki verður ljós þegar búið er að senda erlent fólk úr landi.

„Þetta höfum við fengið í boði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG með stuðningi flokka sem virðast ekki hafa haft þekkingu til að skilja hvað þau voru að samþykkja heldur tóku undir sönginn um að „innviðirnir þoli ekki meira“
Innviðir okkar þola það alls ekki ef mannekla skapast á lykilstöðum. Hjúkrunarheimili, sjúkrastofnanir, skólarnir og byggingariðnaður þolir ekki að missa allar þessar vinnandi hendur. Hverjum á þá að kenna um? Verða það þá öryrkjarnir sem aftur fá að vera í sviðsljósi sökudólganna eins og við sáum hér á árum áður?
Þessi nýju lög búa til ofboðslegt álag á Útlendingastofnun með tilheyrandi töfum á afgreiðslu leyfa.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -