Helgi Björns og Reiðmenn vindanna ásamt Sölku Sól munu skemmta göngufólki við efsta tind Úlfarsfells í kvöld en hátíðin kallast Úlfarsfell 2000. Gangan hefst kl. 18. Reiðmennirnir munu stíga á stokk um kl. 18:45.
Með Helga Björns og Reiðmennunum verður stórsöngkonan Salka Sól en þau Helgi hafa troðið saman oft áður, þá sér í lagi í sjónvarpinu á tímum Covid.
Það er Ferðafélag Íslands, World Class og Fjallakofinn sem standa fyrir fjölskyldugöngunni sem er hluti af lýðheilsuátaki. Um er að ræða skemmtigöngu sem endar við rætur Stórahnúks á Úlfarsfelli þar sem sett hefur verið upp svið. Í þessari skemmtigöngu mun Ferðafélag Íslands heiðra þá göngufélaga sem gengið hafa mörg hundruð sinnum á Úlfarsfell.
Fleiri þúsund manns hafa tekið þátt í Úlfarsfellshátíðum Ferðafélags Íslands undanfarin ár en þar gefst fjölskyldum kjörið tækifæri til að eiga saman góða stund úti í náttúrunni og syngja sumarið inn sumarið. Sjálfir Stuðmenn skemmtu á hátíðinni Úlfarsfell 1000 en þá gengu yfir 2000 manns á fjallið og skemmti sér í íslenskri náttúrunni.
Veðurspáin var ekki beisin framan af en veðurguðirnir virðast hafa skipt um skoðun og ætla að halda honum þurrum seinni part dags.