Helgi Rúnar Bragason, fyrrum þjálfari og leikmaður í körfubolta, er látinn 47 ára að aldri eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm.
Greint var frá andláti Helga á heimasíðu Þórs á Akureyri. Helgi var dáður körfuboltaleikamaður og varð bikarmeistari með Grindavík árið 1998. Helgi lagði skóna á hilluna 26 ára vegna meiðsla. Helgi fór til Akureyrar þar sem hann þjálfaði körfubolta á ýmsum stigum fyrir Þór í tvo áratugi og var framkvæmdarstjóri Íþróttabandalags Akureyrar um tíma.
Helgi var baráttumaður mikill og safnaði tæpum fjórum milljónum fyrir Krabbameinsfélagið á aðeins tveimur árum.
Helgi Rúnar lætur eftir sig eiginkonu, Hildi Ýr Kristinsdóttur, og dóttur þeirra, Karen Lind.