Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Helgi segir Útvarp Sögu leika á lögregluna léttilega: Segja „glóbalistar“ en meina gyðingar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hraunar yfir Útvarp Sögu í nokkuð löngu máli á Facebook í dag. Hann segist hafa fengið hausverk við að hlusta heimskulegar samræður á stöðinnni fyrr í dag. Hann segir að stöðin sé eitt besta dæmið um hvers vegna hatursorðræðulöggjöf Íslands sé meingölluð, þrátt fyrir heimsku þá komast þau framhjá löggjöfinni auðveldlega.

Helgi skrifar: „Stundum fæ ég líkamlegan hausverk af því að hlusta á Útvarp Sögu. Asnaðist til þess núna fyrir hádegi. Þar sátu forsprakkar rásarinnar tveir ásamt ytri viðmælanda og espuðu hvort annað upp í heimskulegar samsæriskenningar með því að kasta á milli sín sífellt heimskulegri fullyrðingum byggðri á sífellt blöskrunarlegri vanþekkingu á bókstaflega öllu sem ég heyrði þau tala um. Það er ekki bara að þetta hafi verið ein og ein staðreyndavilla, heldur var þetta þvílíkt flóð af kjaftæði að manni fannst eins og leðurblaka með hundaæði væri að sleikja innra eyrað á manni. Sem veldur hausverk.

Og á köflum er orðræðan þannig að hún veldur ekki hausverk fyrir að vera svona heimskuleg, heldur magaverk fyrir óttann og hatrið sem hún miðar að því að espa upp.

Svo ég fór að pæla aðeins í fyrirbærinu hatursáróðri, sem hefur mér reyndar verið hugleikið lengi.“

Hann segir löggjöfina gegn haturáróðri á Íslandi vonlausa. „Nú er hatursorðræðulöggjöfin á Íslandi í besta falli óskiljanleg. Ef maður les hæstaréttardómana um hvernig henni hefur verið beitt, verður hún ennþá óskiljanlegri. Hún er ófyrirsjáanleg, ónákvæm, og virðist henni ekki bara ætlað að fyrirbyggja hatur, ofbeldi og réttindamissi jaðarhópa, heldur líka til að verja fólk gegn allt öðrum hlutum, eins og móðgunum. Fyrir vikið er sú löggjöf í skásta falli mestmegnis gagnslaus, ef ekki stundum hreinlega skaðleg. Í löggjöf er það ekki hugurinn sem gildir, heldur afleiðingarnar, og þessi löggjöf er að sjálfsögðu sett af góðum hug, en hún þarf að vera gerð af einhverri alúð. Fólk sem vill eitthvað rökræða þetta við mig skal fyrst hafa lesið a.m.k. einn hæstaréttardóm um þetta, því ég er ekki að mótmæla tilvist hatursorðræðugreinar – ég aðhyllist að hafa slíka – en hún má ekki vera gagnslaus og enn síður skaðleg markmiðinu sem við erum að reyna að ná,“ segir Helgi.

Hann segir marga núans á þessu þó. „Okkur hættir til að réttlæta vondar lausnir með því að tala endalaust um vandamálið. En þetta er tvennt ólíkt. Það er hægt að vera sammála um vandamálið en ósammála um lausnina. Því miður er lítill greinarmunur almennt gerður á þessu í íslenskri orðræðuhefð. Það hefur aldrei verið mikið pláss fyrir núansa, en upplifun mín er allavega sú að plássið minnki jafnt og þétt.

- Auglýsing -

En við Íslendingar dettum ennfremur alltof oft í lagahyggju þegar kemur að nokkru sem varðar tjáningarfrelsið. Hvað sé í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu. Hvað standist stjórnarskrána. Hvernig lögfræði virki. Og gott og vel, það er alveg gagnlegt, en það er hinsvegar ekki það sem þetta snýst um.“

Svo beinir hann aftur sjónum að Útvarp Sögu og hvernig þau leika á lögregluna. „Eftir stendur nefnilega, að fólk getur espað upp ótta og hatur í hvoru öðru, án þess að segja neitt dónalegt, og reyndar jafnvel án þess að nota staðreyndavillur, ef bara heimskan er næg, útúrsnúningurinn nógu einbeittur eða tilfinningarnar eru nógu frumstæðar. Þetta er nákvæmlega staðan á Útvarpi Sögu. Staðreyndavillur eru reyndar frekar algengar þar, en aðallega er það ályktanirnar sem eru dregnar sem eru út úr kú, í sambland við snældusturlaða heimsmynd, þar sem svarið er alltaf einfeldningslegasta útgáfan af einhvers konar samsæri „þeirra“ sem ætla að taka allt frá „okkur“.

Það væri reyndar áhugavert að heyra hvernig fólki litist á Útvarp Sögu ef skipt væri út orðinu „glóbalistar“ fyrir orðið „gyðingar“. Auðvitað mættu þau það ekkert, en vitiði hvað, það er ekkert mál að nota þá bara eitthvað annað orð. Ég veit að það er fullt af fólki sem túlkar „glóbalistar“ einfaldlega sem gyðinga, vegna þess að ég hef talað við það fólk.“

- Auglýsing -

Hann reynir svo að herma eftir umræðunni á stöðinni. „Það eru útlendingarnir sem vilja taka auðlindirnar okkar, samkvæmt þeim, en síðan er til ennþá verri hópur: Íslendingar sem vilja það, í stað þess að verja landið. Íslenskir svikarar. Svo voru glæstir dagarnir þegar Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir sjálfstæði, áður en glóbalistarnir neyddu okkur til að afsala okkur auðlindum til sín í leitan sinni að heimsyfirráðum. Þetta er bara niðursoðna útgáfan af þessu þverstæðukennda kjaftæði sem ég heyrði áðan, en það þarf að hlusta á efnið beint, og þekkja til orðræðu aktúal fasista (sem skammast sín ekki þegar þeir eru kallaðir það), til að öðlast skýra mynd af því hversu ógeðsleg orðræðan þarna raunverulega er.“

Niðurstaðan sé að það er barnaleikur að dulbúa hatursorðræðu á Íslandi. „En hér er vandinn. Þau sögðu ekkert sem væri hægt að ákæra fyrir hatursorðræðu. Það er nefnilega algjör barnaleikur að dulbúa viðbjóðslegan málstað með orðagjálfri sem segir aldrei beint út hvaða hóp um ræðir, og notar engin fúkyrði. Það er ekkert mál að snúa út úr staðreyndum og búa þannig til ótta úr bábiljum. Það eina sem þarf til að spúa út taugaveiklun og hatri, er rétt samblanda af heimsku og frumstæðum tilfinningum.

Það er vonandi augljóst að heimska og frumstæðar tilfinningar verða ekki upprættar með því að banna þær. Það bara virkar ekki, sama hversu mikið við myndum vilja. Alveg eins og að það hefur ekki virkað að banna dóp. Það þýðir ekki að dóp sé gott, það bara virkar samt ekki. Og er ekki að virka, hvorki hér, né í Þýskalandi né annars staðar.“

Að lokum segist hann telja að besta leiðin til að draga úr áhrifum Útvarp Sögu væri einfaldlega með samkeppni. Eins og er þá sé hún með einokun á spjall-útvarpi. „Það er óhugsandi í mínum huga að við þessu verði brugðist með löggjöf. Jafnvel með löggjöf sem gengi svo langt að hún mölbryti í bága við stjórnarskrána og Mannréttindasáttmála Evrópu. Það verður að takast á við þetta með upplýsingu, þ.e. með því að koma réttum upplýsingum, réttri rökfræði og smá fullorðins yfirvegun til fólks sem annars étur þetta upp hrátt. Á útvarpsmarkaði á Íslandi er vandinn sá, að Útvarp Saga er eina almenna, raunverulega spjall-útvarpið. Ef þig langar að heyra spjall hvenær sem er dagsins, á meðan þú ert að keyra (leigubíl – just sayin’), eða taka til í garðinum, eða vaska upp, eða hvaðeina, þá er þetta það eina sem er í boði.

Það versta sem gæti komið fyrir Útvarp Sögu, væri virk og almennileg samkeppni á þeim markaði. Samkeppni við þáttastjórnendur sem geta drullast til að kynna sér það sem þeir eru að þvaðra um.

En jafnvel ef það tækist, þá væri það bara útvarpið. En vandinn er langt frá því að vera allur þar.

Eftir stendur þetta helvítis internet, sem er orðin gróðrarstía haturs og andlegs ofbeldis af allri sort og úr mörgum áttum. Bergmálshellirnir stjórna heiminum, hvar sem maður stendur. Það er mögulegt að stíga út fyrir þá, en það krefst frumkvæðis sem flest fólk hefur ekki, og er reyndar erfitt jafnvel þá, vegna þess að gervigreindin er farin að draga ályktanir um hvað eigi að bjóða okkur, út frá eigindum okkar sem við erum ekki einu sinni meðvituð um.“

Helgi segir heimsku vera rót vandans. „Þannig að ef einhverjum hérna finnst ég vera að gera lítið úr vandanum, þá er viðkomandi ekki að hlusta. Vandinn er miklu, miklu, miklu stærri og alvarlegri heldur en fólk heldur. Sum mikilvægustu nágrannaríkin okkar eru á hraðri leið í átt að valdhyggju, og næstu árin í bæði austri og vestri munu hafa úrslitaáhrif á hvort við eigum einhvern séns á að sníða framhjá því sjálf. Og þegar fólk heldur að það sé að leysa eitthvað með hatursorðræðulöggjöf, þá er það auðvitað að reyna að gera eitthvað gott, en aftur: vandinn er mun stærri en að einhver móðgist eða tilfinningar særist, heldur líka brotin rökfræði og rangar ályktanir, sem án allra móðgana eða kæranlegra orðasamsetninga, espir upp ótta og hatur, réttlætir stríð og dregur úr tiltrú á bæði frelsið og lýðræðið.

Bensínið á þessa orðræðu eru kristaltær heimska og gerræði frumstæðra tilfinninga, í stað yfirvegaðrar og heiðarlegrar sannleiksleitar. Ef hatursorðræðulöggjöf er helsta vopnið sem við höfum, þá erum við í meginatriðum vopnlaus og þetta stríð, eða hvað sem þetta er, er þegar tapað.

Veit ekki með ykkur, en mig langar ekkert til að tapa því.

En þá þarf að ráðast á rót vandans, og rót vandans er botnlaus heimskan sem ræður ríkjum í mannlegu samfélagi. Að vinna bug á slíku vandamáli er óþægilegt, erfitt og flókið, en við komumst ekki hjá því að gera það. Í því verkefni reynir ekki bara á Alþingi heldur á samfélagið sjálft, og samfélagið allt. Líka þig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -