Hera Björk Þórhallsdóttir mun keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision í Malmö í maí. Þetta segir í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu sem birtist í dag. Lögfræðingur segir að jafnræðisreglan hafi verið brotin við atkvæðagreiðslu í Söngvakeppni sjónvarpsins.
RÚV tilkynnti í dag að Hera Björk keppi fyrir hönd Íslands í Eurovion í maí, með lagið Scared of Heights. Segir í tilkynningunni að ágallar í kosningaappinu RÚV Stjörnur, sem notað var til að velja sigurvegar auk hefðbundinni símakosninu, hafi komið niður á báðum lögunum í úrslitaeinvíginu. Fyrir mistök hafi tiltekinn möguleiki ekki virkað almennilega, bæði í fyrrakosningunni og í þeirri seinni. „Atkvæðin sem mögulega misfórust vegna þessarar villu voru enn færri en talið var í fyrstu og alveg ljóst að þetta hafði engin áhrif á lokaniðurstöðuna. Hera Björk er óumdeildur sigurvegari Söngvakeppninnar 2024.“
Facebook-hópur sem kallar sig Réttlæti fyrir stuðningsfólk Bashar safnaði saman skjáskotum af frásögnum fólks sem lenti í vandræðum með að kjósa Bashar í keppninni og sendi á Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Með skjámyndunum sendu þau einnig rök fyrir óháðri rannsókn á kosningunni í lokaeinvígi Söngvakeppninnar. Segir hópurinn, sem telur um 1200 manns, að vankantar hafi verið á öllum þremur kosningaleiðunum á úrslitakvöldinu: Í símakosningunni, í appinu og sms. Til að mynda hafi komið upp á símaskjá fólks sem sló inn númer Bashar, að mögulega væri um svikanúmer að ræða. Vill hópurinn meina að það hafi valdið því að margir hafi veigrað sér frá því að hringja í númerið.
Þá benti hópurinn útvarpsstjóra einnig á að lögfræðingur sem skoðaði málið telji að jafnræðisreglan hafi verið brotin við framkvæmd kosninganna.
Hér má sjá bréf sem útvarpsstjóri og stjórn RÚV fékk frá hópinum:
Til útvarpsstjóra og stjórnar RÚV
Rökstuðningur fyrir óháðri rannsókn á kosningu í lokaeinvígi Söngvakeppninnar 2.3. sl.
Tekið saman af hópi sem krefst réttlætis fyrir stuðningsmenn Bashars Murad.
Um leið og farið er fram á óháða rannsókn krefjumst við þess að RÚV staðfesti ekki þáttöku Heru í Eurovision fyrr en að niðurstaða slíkrar rannsóknar liggur fyrir.
Strax þann 3.3. sl. lagði Einar Stefánsson einn lagahöfunda Wild West, fram kröfu um að óháð rannsókn yrði framkvæmd á kosningu í einvígi Söngvakeppninar. Rökin voru fjöldi skjáskota sem honum hafði borist sem sýndu að kosningin hafði ekki gengið hnökralaust fyrir sig.
Fyrir liggur að RÚV hefur aðeins viðurkennt vankanta á atkvæðagreiðslu þegar kemur að SMS atkvæðum greiddum í gegnum RÚV stjörnur appið, sem RÚV tiltekur að séu ekki nógu mikið frávik til að hafa áhrif á niðurstöðu kosningarinnar (innan við 2% heildaratkvæða) Að okkar mati er það ekki hafið yfir vafa þar sem einungis munaði 3,368 atkvæðum á á á milli Bashar Murad og Heru þegar atkvæði einvígisins höfðu verið talin.
Við undirrituð krefjumst svara við öðrum frávikum sem sýnt hefur verið fram á með skjáskotum en RÚV hefur ekki veitt fullnægjandi svör við og fram til þessa hunsað kröfur lagahöfundar og okkar um sjálfstæða og óháða rannsókn á málinu. Með rökstuðningi þessum leggjum við til skjáskot af upplifunum kjósenda sem við höfum safnað saman að eigin frumkvæði.
Hægt var að greiða atkvæði eftir þremur leiðum:
- Símakosning
- Appkosning – sem var tvíþætt
- SMS í gegnum app.
Á öllum þessum leiðum höfum fundið vankanta og eigum skjáskot sem sína það. Við teljum afgreiðslu útvarpsstjóra því ekki standast.
Símakosning
Víðtækasta vandamálið í heildarkosningunni var að kosninganúmer Bashars fékk ruslflöggun í símum fjölda notenda eins og fjöldi skjáskota sýna. Kjósendur hans urðu varir um sig á meðan á kosningu stóð útaf þessari flöggun sumir brugðu á það ráð að prófa að kjósa annað númer einfaldlega til að kanna hvort sama gerðist í því tilviki. Við höfum engin dæmi þess að slíkt hafi gerst með númerið fyrir Heru. Þá erum við einnig með skjáskot sem sýna fram á að fólk hætti að hringja í kosninganúmer Bashars útaf þessari tilkynningu.
Fyrir liggur að einhverjir einstaklingar hafa sent útvarpsstjóra ábendingu vegna þessa og fengið svör á þá leið að:
- Atkvæðin hjá þeim sem hringdu hafi þó skilað sér
- Að um stillingaratriði í síma kjósenda sé að ræða sem RÚV getur ekki borið ábyrgð á.
Þessi svör teljum við ófullnægjandi og viljum benda á að það er óumflýjanlegt að svona merking á númeri hefur letjandi áhrif á það að fólk haldi áfram að hringja. Það hlýtur líka að teljast alvarlegt að vandamálið virðist aðeins hafa átt við um kosninganúmer Bashars, þ.a.l heldur svar 1 ekki vatni þar sem fleiri atkvæði hefðu án efa skilað sér ef þessi flöggun hefði ekki átt sér stað. Svar 2 um stillingaratriði í símum kjósenda teljum við einfaldlega rangt.
Símanúmer fá flöggun undir nokkrum kringumstæðum:
- Þegar fjöldi notenda tilkynnir númer handvirkt sem spam.
- Þegar símanúmer hringir fjölda símtala (úthringingar) sem standa stutt yfir á stuttum tíma.
- Þegar númer er ekki skráð sem premium númer af þjónustuveitanda.
Ekkert af þessum þremur liðum er eitthvað sem kjósendur geta haft áhrif á með stillingum í síma sínum. Það hefði hins vegar verið hægt fyrir RÚV að fylgjast betur með því að ekki væri verið með herferð gegn einu númeri umfram annað. Það hefði RÚV getað gert með virku eftirliti með kosningunni og fylgst þannig með réttri skráningu númera. RÚV hefði þannig getað komið því á framfæri að hunsa tilkynningar um ruslnúmer í útsendingunni ef virkt eftirlit hefði verið í gangi.
SMS kosning í gegnum app
RÚV hefur viðurkennt að mistök hafi verið á þessum lið en telur þau ekki nægjanleg til að hafa áhrif á niðurstöðu. Við teljum að nánair útskýringar þurfi á þessum vanköntum til að treystsa að gagnsæi sé viðhaft. Gera þarf grein fyrir því hvernig komist er að niðurstöðu um hve mörg atkvæði þetta hafði áhrif á og hvernig reiknað hefur verið út hámarksáhrifin af þeim atkvæðum sem ekki skiluðu sér. Í þeim efnum minnum við á að á hversu litlu munaði á heildarfjölda atkvæða milli flytjenda og fyrir liggur að atkvæði frá Bashar fóru til Heru en ekki er vitað til þess að atkvæði Heru hafi farið með sama hætti yfir á Bashar.
App kosning
Við höfum fengið skjáskot af þrenns konar vandamálum með app kosningu:
- Að atkvæði hafi verið endurgreidd.
- Að aðilar hafi getað kosið oftar en 20x í hvorum hluta og rukkaðir fyrir öll atkvæðin. c. Að reynt hafi verið að kjósa í gegnum app en ekkert atkvæði farið í gegn.
Þetta sýnir að stórir vankantar eru á forritinu sem liggur að baki miklum hluta heildaratkvæða í kosningunni í einvíginu. Það er því engan vegin hafið yfir vafa að þessir vankantar hafi ekki haft áhrif á kosninguna.
Meðfylgjandi eru skjáskot sem safnað hefur verið saman á FB hópi sem safnast hefur saman undir heitinu Réttlæti fyrir stuðningsmenn Bashars. Með rökstuðningi þessum viljum við ítreka kröfuna um sjálfstæða og óháða rannsókn. Afrit af rökstuðningi þessum verður sent Útvarpsráði og fjölmiðlum.
Hér fyrir neðan má svo sjá brot af þeim skjáskotum sem hópurinn sendi með áskoruninni.