Varahéraðssaksóknari svarar ekki hvort hópur manna verði ákærðir vegna gruns um kynferðisbrot gegn þroskahamlaðri konu sem starfaði fyrir einn mannanna.
Sjá einnig: Verslunarstjóri grunaður um kynferðisbrot gegn fatlaðri starfskonu sinni
Karl Ingi Vilbergsson, varahéraðssaksóknari, hefur ekki enn svarað spurningum Mannlífs sem hann fékk sendar fyrir ellefu dögum síðan og ítrekun nokkrum dögum síðar. Þá hefur Mannlíf einnig hringt í embættið og ýtt á eftir svörum en enn bólar ekki á þeim. Var blaðamanni tjáð að Karl Ingi Vilbergsson, varahéraðssaksóknari svarðaði fyrir málið. Spurningarnar varða meint kynferðisbrot gegn þroskahamlaðri konu sem starfaði í stórverslun í Reykjavík en fyrrverandi verslunarstjóri og yfirmaður konunnar er talinn hafa brotið á konunni um nokkurt skeið.
Samkvæmt lögreglunni, sem rannsakað hefur málið, voru fleiri sakborningar rannsakaðir, grunaðir um kynferðisbrot á konunni. Málið er nú á borð héraðssaksóknara, sem þarf að taka ákvörðun um það hvort mennirnir verði ákærðir eður ei.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs hafði maðurinn unnið sem verslunarstjóri hjá þekktri verslunarkeðju hér á landi en verið nýtekinn við verslunarstjórastöðu í annarri þekktri verslunarkeðju, en hafi verið látinn taka poka sinn þegar málið kom upp.