Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Herdís er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna: „Var svo hræðilega óánægð í lögfræðináminu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er ótrúlega gaman að fá svona viðurkenningu. Ég er búin að vinna mikið erlendis og það er gaman að vera einhvern veginn séður og viðurkenndur hérna heima á Íslandi. Svo er þetta svo mikil uppskeruhátíð og gaman að hitta tónlistarsamfélagið og fagna saman,“ segir Herdís Stefánsdóttir tónskáld sem er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötu ársins og upptökustjórn ársins fyrir sjónvarpsþættina Y: The Last Man og fyrir titillagið við Verbúðina ásamt Kjartani Holm. Þess má geta að Herdís var einnig tilnefnd í fyrra og hittifyrra.

Hvað vill Herdís segja um tónlistina sem hún samdi fyrir sjónvarpsseríuna Verbúðina?

„Það eru næstum því tvö ár síðan við Kjartan Holm byrjuðum að semja tónlistina fyrir Verbúðina. Við vorum búin að lesa handritið og það var ennþá verið að skjóta þættina og vorum að átta okkur á um hvað þetta væri og hver stemmingin væri. Persónan Jón heldur í öðrum þætti epíska ræðu á Alþingi sem við kölluðum „launaþræla“ þar sem hann sem maður fólksins talaði fyrir bættum kjörum verkalýðsins. Eftir því sem maður kynntist honum og seríunni og sá alla spillinguna þá var þetta náttúrlega fólkið með peningana sem var að hugsa um sjálft sig en notaði þetta tæki eins og verkalýðurinn og almenna fólkið skipti engu máli. Við hugsuðum með okkur hvað Jón myndi vera að hugsa og hvernig tónlist hann myndi vilja hafa þegar hann væri að sannfæra fólk um að hann væri talsmaður verkalýðsins og væri með fólkinu í liði. Þá kom hugmyndin að semja verkalýðsinnblásið lag og horfa til klassískra, íslenskra sönglaga eins og til dæmis Maístjörnuna. Við veltum fyrir okkur íslenskri sönglagahefð og verkalýðslögum og svo horfðum við líka til Shostakovich og stórra útsetninga sem voru mikið í tísku á Sovéttímanum. Þannig að við vorum með alls konar pælingar og það einhvern veginn varð svo kjarninn í tónlistinni.“

Við erum með milljón útsetningar af þessum hljómum.

Og úr varð titillagið. „Þegar við vorum búin að semja það þá byggðist öll tónlistin í Verbúðinni á þessu þema. Við erum með milljón útsetningar af þessum hljómum; af þessu þema. Við erum með þetta þema með hvalahljóðum. Við erum með þetta þema með sinfóníu. Við erum með þetta þema með kór sem við tókum upp á Akureyri. Við erum með þetta þema í píanóútsetningu sem og í brassi og elektróník. Þannig að við gerðum endalausar útgáfur og það í raun og veru varð tónlistin í Verbúðinni.“

Herdís Stefánsdóttir

 

- Auglýsing -

Eigin hljóð

Herdís er spurð hvað einkenni tónlist hennar almennt.

„Hvað sem ég geri þá er ég alltaf að reyna að gera eitthvað sem er spennandi og nýtt fyrir mér. Ég reyni að hugsa og prófa ný hljóð og prófa nýja hluti. Ég vil alltaf vera ég og gera eitthvað sem ég er. Ég get ekki sagt að ég sé að reyna að gera eitthvað ákveðið í minni tónlist annað en að gera eitthvað sem mér finnst vera geggjað og spennandi. Ég geri alltaf eitthvað ólíkt. Í grunninn kem ég úr raftónlist; ég er alltaf með einhverjar hljóðpælingar og ég bý til og safna mínum eigin hljóðum, sérstaklega í kvikmyndaverkefnum þar sem verkefnin eru svo mismunandi. Ég gert allt frá strengjakvartett yfir í mjög elektrónískt skor. Að því leyti fer þetta eftir því í hvaða verkefni ég er. Ég hef aldrei gert sömu samsetningar af hljóðfærum. Það er alltaf eitthvað nýtt.“

- Auglýsing -

Herdís og eiginmaður hennar, Dustin O’Halloran, píanóleikari og tónskáld, eru nýbúin að klára að semja tónlist við sex þátta bresk-bandaríska sjónvarpsseríu, The Essex Serpent. „Þetta er fyrsta verkefnið okkar saman og verða þættirnir sýndir í maí á Apple TV.“ Þess má geta að Dustin var á sínum tíma tilnefndur til BAFTA, Óskars- og Golden Globe-verðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni Lion.

Herdís segist oft einmitt semja dimma tónlist. Drungalega.

„Það var bara geggjað,“ segir Herdís um samvinnu þeirra. „Við erum ólík tónskáld en það er samt mikil tenging á milli okkar. Þegar við vorum komin langt af stað í verkefninu þá vissi ég stundum ekki hvað ég hafði samið og svo hvað hann hafði samið. Það var eins og við værum ein rödd. Þetta gekk ótrúlega vel og var gaman. Við erum ólíkir karakterar; ég ímyndaði mér að ég myndi semja tónlistina við atriði sem væru dimm og erfið en hann myndi taka fallegu melódíurnar en svo endaði það á hinn veginn.“ Herdís segist oft einmitt semja dimma tónlist. Drungalega. „Það er erfitt að útskýra af hverju maður gerir eitthvað eða hvað það er sem heillar mann en af einhverjum ástæðum hefur þetta komið auðveldlega frá mér. Það hefur stundum verið fyndið að ég fæ stundum „feedback“ frá leikstjórum um að tónlistin sé of „scary“ en þá finnst mér það kannski verið geggjað eða fallegt. Það er svo afstætt hvernig maður upplifir og túlkar tónlist.“

Fram undan er verkefni sem Herdís segir að sé stærsta verkefni sitt til þessa. Hún vill hins vegar ekki segja hvað það er. Hún má það ekki.

Herdís Stefánsdóttir

Ég var svo hræðilega óánægð

Herdís byrjaði átta ára gömul að læra á píanó hjá píanókennara sem bjó í sömu götu og þetta gerði hún af og til til 17 ára aldurs. Hún fór aldrei í tónlistarskóla og lærði aldrei tónfræði eða hljómfræði. Hún var á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík og skráði sig svo í lögfræði við Háskóla Íslands.

Mér leið ekki vel og vissi ekki hver ég var eða hvað ég átti að gera.

„Ég var svo hræðilega óánægð í lögfræðináminu. Það átti svo illa við mig. Mér leið ekki vel og vissi ekki hver ég var eða hvað ég átti að gera. Ég fór svo að spila á píanóið þegar heim kom úr skólanum og fór að búa til mín eigin lög. Mér fannst það vera fjarstæðukennt að ég gæti samið tónlist; mér fannst það ekki vera raunverulegt. En svo fór ég virkilega að hafa áhuga á því. Með fram lögfræðináminu fór ég í einaktíma í hljómfræði og svo fór ég að útsetja fyrir kór og strengjakvartett.“

Það endaði með því að Herdís hætti í lögfræðináminu. Hún útskrifaðist frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og lauk síðan árið 2017 meistaranámi í tónsmíðum með áherslu á kvikmyndatónlist frá New York University. Hún bjó svo um tíma í Los Angeles en flutti svo heim til Íslands árið 2020.

Þau Dustin búa í Reykjavík ásamt þriggja ára dóttur sinni sem er músíkölsk eins og mamma og pabbi.

Herdís Stefánsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -