Vaskur her manna mætti til Drangavíkur á dögunum til að uppræta lúpínubreiður sem hafa sáð sér á svæðinu. Alaskalúpínan er ágeng planta sem veldur miklum breytingum í náttúrufari. Mannlíf hafði samband við Láru Ingólfsdóttur, einn af landeigendum Drangavíkur, sem staðið hefur fyrir upprætingu lúpínunnar á svæðinu.
„Við vorum tólf sem fórum norður í Drangavík og við vorum með fjögur slátturorf,“ segir Lára. Hópurinn saman stendur af vinum hennar og vinum þeirra. „Ætli við höfum ekki verið í um þrjá tíma að þessu. Fjórir á orfum og restin að tína og reita litla anga sem hafa sáð sér.“
Blaðamaður spurði hvort lúpínan hafi náð að breiða sér yfir stórt svæði: „Það er þarna einn dálítill flekkur af lúpínu og annar minni,“ svarar hún og segir aðgerðina hafa gengið afskaplega vel og að hópurinn hafi fengið yndislegt veður.
Þetta er í fjórða skiptið sem hópurinn slær lúpínuna en hann komst ekki í fyrra sökum slæms veðurs. „Það þarf fernt að fara saman, við þurfum að hafa mannskap, við þurfum að hafa hús, við þurfum að hafa bát og við þurfum að hafa veður,“ útskýrir Lára og bætir við: „Í fyrra var allt til staðar nema veðrið.“
Lúpínan á undanhaldi vegna aðgerðanna
Aðgerðirnar bera árangur og þrátt fyrir að hafa náð að sá sér í fyrra aftur segir Lára að árangurinn sé augljós og lúpínan sé að hörfa.
Við upprifjun telur Lára að það séu að verða komin sex ár síðan hún fyrst fékk fregnir af lúpínu á svæðinu og ákvað strax að gera eitthvað í málinu.
Óljóst hvernig plantan hefur sáð sér
Landsvæðið sem umræðir er ekki stórt og finnst Láru tilkoma og sáning plöntunar á svæðinu skrítin – þar sem svæðið er ekki í alfaraleið. „Þeir sem fara norður á Strandir ganga um Drangavíkina en eiga ekkert leið þarna,“ útskýrir Lára. Erfitt er að átta sig á hvernig lúpínan hefur sáð sér á svæðinu og hafa fræðimenn gefið út að fuglar til dæmis beri ekki lúpínufræ.
Úr vörn í sókn
Aðspurð hvort að Lára hafi fengið á sig ásakanir um að hafa sjálf sáð lúpínunni á svæðinu svarar hún: „Því var kastað fram í rælni og það var nú þess vegna sem ég fór í málið.“ „Ég var spurð að því hvort ég hafi sáð henni, þá ákvað ég að gera eitthvað í málinu,“ segir Lára létt í lundi og nefnir að það hafi meira verið í gríni sagt.