Miðvikudagur 1. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Hildur starfaði sem flugfreyja Icelandair í 21 ár: „Sárt að heyra að það sé mín stétt sem er að stefna fyrirtækinu í gjaldþrot“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hildur Stefánsdóttir er ein fjölmargra fyrrum flugfreyja Icelandair, sem hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum, um launakjör stéttarinnar. Tilefnið er bréf Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem hann birti á innri vef félagsins til starfsmanna þess. Þar sagði Bogi starfsmenn vera „helstu fyrirstöðuna“ fyrir að hægt sé að bjarga rekstrinum, en farið hefur verið fram á að flugfreyjur og -þjónar, auk flugmanna, taki á sig talsverða launahækkun svo flugfélaginu verði bjargað.

Sjá einnig: Segir flug­freyj­ur og flug­menn Icelandair þurfa að taka á sig 50-60 prósenta launa­lækk­un

„Nú setur mig hljóða. Ligg hér andvaka og hugsa um ævistarfið mitt og fyrrum samstarfsfélaga mína. Eins og þið mörg vitið er ég hætt að vinna. Ekki vegna þess að ég valdi mér það heldur vegna þess að ég var óheppin og smitaðist af einhverri óværu í vinnunni sem hefur haft afgerandi varanlegar afleiðingar,“ byrjar Hildur færslu sína á Facebook.

Hildur er þó ekki ein þeirra nærri 900 flugfreyja sem fengu uppsögn nýlega, þar sem hún hætti starfi síðasta vetur. „Ég er hætt að vinna, ég veiktist í vinnunni haustið 2011 og hætti veturinn 2018/19 vegna sjúkdóma sem eru afleiðing þessarra veikinda,“ segir Hildur í samtali við Mannlíf.

Hún segist alin upp hjá Icelandair, en hún hóf starf á skrifstofunni 15. maí árið 1997, þá 21 árs gömul, tveimur árum seinna fór hún að fljúga.

Flugfreyjustarfið varð ævistarfið

- Auglýsing -

„Og það var mitt ævistarf. Starf sem ég hef alla tíð verið stolt af. Ævistarf með hópi fólks sem mér finnst ég enn tilheyra því í hjarta mínu er ég og verð alltaf flugfreyja.“

Hildur segist vera sorgmædd og undrast fréttir af því að forstjóri Icelandair haldi því fram að launakostnaður flugfreyja og -þjóna sé að valda því að fyrirtækið stefni í gjaldþrot. Segist hún viss um að enginn, nema þeir sem starfinu sinna, geri sér grein fyrir föstum launum flugfreyja- og þjóna.

„Eftir 21 ár í starfi og sem stjórnandi um borð eru föstu launin 585.967. Það er hæsta launaþrep sem flugliði kemst í. Inní þessari tölu er vaktaálag,“ segir Hildur. Og til að taka það alveg skýrt fram er hér um að ræða laun í dag. „Ef við tökum hæstu grunnlaun sem möguleiki er á eru þau 400.524. Heilar 400.000 krónur. Eftir 21 ár í starfi.“

- Auglýsing -

Hildur miðar launin við laun Eflingar og bendir á að grunnlaun 18 ára einstaklings hjá Eflingu sem hefur unnið í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki séu 335.000 kr. „Og þeir sem ná ekki þessari upphæð hjá Eflingu eiga að fá aukagreiðslur eða bónusa til að tryggja að þeir fái aldrei lægri laun. Aðeins 65.524 í mun en 20 ½ ár í starfi og ansi mikill munur á ábyrgð,“ segir Hildur.

Dagpeningar hækka launin að hluta

Hildur segist gera sér fyrir því að flugfreyjur og -þjónar fá líka greidda dagpeninga skv. lögum sem eru skattfrjálsir og hækka smá ráðstöfunartekjur, en bendi á að þeir eru aðeins greiddir ef viðkomandi er í flugi.

„Um leið og við förum í fæðingarorlof eða veikindaleyfi eða bara sumar/vetrarfrí eru þeir ekki greiddir. Föstu launin eru það sem við fáum greitt þá mánuði sem áður eru nefndir og það er af föstu laununum sem við greiðum í lífeyrissjóð,“ segir Hildur, sem þær í dag úborgaðar um 220 þúsund krónur, þar sem hún er á framreiknuðum örorkulífeyri.

Starfið gefandi, en á sama tíma heilsuspillandi

Hildur bendir einnig á marga heilsutengda þætti sem fylgja starfinu, og segir þá stefna heilsu sinni í hættu bara við það að mæta í vinnuna. „Meiri tíðni krabbameins og fósturláta t.d., stytting lífaldurs með því að vinna á svona óreglulegum tímum og fara svona milli tímabelta eru ágætis dæmi fyrir utan það hversu útsettari við erum fyrir allskonar smitum en ég ætla ekki að gera það,“ segir Hildur. „Ég ætla heldur ekki að reyna að fara að útskýra einhver hvíldartímaákvæði eða það hvernig þér líður í skrokknum eftir að fara 6 morgunflug í röð, hvað þá hversu skerta meðvitund þú hefur eftir það – meira svona ónothæfa meðvitund. Það er einfaldlega ekki hægt að útskýra það fyrir þeim sem ekki hafa prófað.“

Hildur bendir einnig á jákvæða þætti starfsins og segir það gefandi að vera með viðskiptavinum og geta aðstoðað þá. „Ég get heldur ekki útskýrt fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu gefandi þessi vinna er. Það að geta aðstoðað fólk, stutt það eða glatt á allskonar augnablikum í sínu lífi. Að vera föst með þeim inní röri og deila með þeim gleði og sorg.“

Segir hún orð Boga Nils og þá stefnu sem Icelandair boðar nú vera bæði sára og niðurlægjandi eftir áratuga réttindabaráttu.

„Að upplifa svo núna að fyrirtækið vilji henda út á hafsauga öllu – og þá meina ég öllu – sem hefur áunnist síðustu áratugi í réttindabaráttu FFÍ er sárt. Það er sárt og það er niðurlægjandi. Það er eins og verið sé að gera lítið úr öllu sem hefur verið gert. Það er verið að segja okkur að það skiptir engu máli hversu lengi þú hefur unnið, það getur hver sem er unnið þetta. Og þar með er verið að gera lítið úr ævistarfi fólks,“ segir Hildur og bætir við í kaldhæðni:

„Og það er enn sárara að heyra að það sé mín stétt sem er að stefna fyrirtækinu í gjaldþrot. Ég vildi óska að sá kostnaður fyrirtækisins væri að skila sér í buddur fyrrum samstarfsfélaga en ég er ansi hrædd um að stjórnendur fyrirtækisins verði að leita annarstaðar að þessum gríðarlega launakostnaði sem er að sliga allt.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -