Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Hjálmar vísar sögusögnum um handtöku á bug: „Ég veit að þetta bitnar á börnunum mínum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður og formaður bæjarráðs Grindavíkur, vísar sögusögnum um ástæðu þess að hann fór í leyfi hjá lögreglunni, algjörlega á bug.

Æsilegar sögusagnir hafa verið í gangi um Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumann og formann bæjarráð Grindavíkur sem nýlega fór í leyfi, vegna hagsmunaárekstra sem upp eru komin vegna þeirra tveggja starfa sem hann hefur. Sögusagnirnar hafa ekki farið framhjá Hjálmari og fjölskyldu hans en önnur þeirra gengur út á að hann hafi hleypt vinum og vandamönnum inn í Grindavík þann 10. nóvember, svo þeir gætu sótt vörubíla og fleiri eignir, á meðan aðrir íbúar máttu ekki koma inn í bæinn. Hin sögusögnin snýr að rýmingu úr Grindavíkurbæ, daginn sem gaus síðast á svæðinu, 14. janúar. Átti Hjálmar að hafa neitað að yfirgefa bæinn og að Sérsveit ríkislögreglustjórans hafi þurft að sannfæra hann um að koma sér úr bænum.

„Fyrra atvikið, það er algjör fjarstæða að ég hafi verið settur af,“ sagði Hjálmar í samtali við Mannlíf og hélt áfram: „Ég var í vettvangsstjórn og ég tók ákvörðun um að hleypa þarna ákveðnum aðilum til að sækja bíla en þarna voru miklir hagsmunir í húfi og ég gaf þetta leyfi og ég var gagnrýndur fyrir það. Ok, þá er það bara þannig og þá er það afgreitt.“

Sú saga sem snýr að rýmingunni 14. janúar, segir Hjálmar vera algjöra þvælu en hann hafði heyrt af því að hann hefði verið handtekinn en aðspurður um Sérsveitina sagðist hann ekki hafa heyrt það fyrr. „Ég get eiginlega ekki sagt af hverju einhverjir eru að reyna að níða af mér skóinn en ég er svo sem búinn að vera lögreglumaður í 37 ár þannig að ég hef nú heyrt ýmislegt. Varðandi rýminguna, þá hringdi í mig blaðamaður daginn eftir, það kom mér á óvart. En staðan var sú að við söfnuðumst saman, fjölskyldan mín. Ég var með þrjú barna minna og barnabörn, móður mína 85 ára gamla og systur mína. Við vorum öll á heimilinu mínu, með bílana í gangi og vorum að klæða okkur í. Einu afskiptin sem voru höfð af okkur voru tveir kurteisir lögreglumenn sem bönkuðu upp á og sögðu „Eruð þið ekki að fara?“, „Jú, við erum bara að klæða okkur í jakkana og erum bara að fara, hún mamma er hérna með mér.“ „Ekkert mál, þið eruð bara með þeim síðustu að fara út úr bænum“. Þar með fórum við bara í bílana okkar og keyrðum öll út á Suðurstrandarveg og enduðum á Selfossi og í Reykjavík. Þetta er nú öll sagan.“

Hjálmar segir að svona dylgjur trufli hann lítið en að börnin hans taki þessu illa. „Þetta káfar ekkert upp á mig, ég veit alveg hvernig menn eru. En ég veit að þetta bitnar á börnunum mínum. Þau voru þarna og þau eru brjáluð. Ég er að reyna að segja þeim að vera róleg, svona er þetta bara, svona er fólk og við munum aldrei ráða við það, en þau voru á staðnum og eru þess vegna svona reið. Þetta eru bara gróusögur og maður á enga vörn í þessu.“

Mannlíf spurði Hjálmar út í hinar raunverulegu ástæðu þess að hann er nú í leyfi hjá lögreglunni. „Málið er það að ég er búinn að vinna í öllum gosunum, við vettvangsstjórn og annað og það hefur oft verið þægilegt og stytt boðleiðir, til dæmis þegar bærinn hefur komið að framkvæmd, lokunum og fleira. Þá var ágætt að vera beggja megin. Nú er atburðurinn orðinn miklu alvarlegri, nú er farið að sækja að réttindum Grindvíkinga og ég verð að beita mér meira, mér ber skylda, samkvæmt 24. grein sveitarstjórnarlaga, að verja íbúa mína og hugsa um hagsmuni þeirra. Þannig að það er miklu betra að ég sé í leyfi og fái að starfa sem bæjarstjórnarmaður og tali fyrir fólkið mitt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -