Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Hjálmdís hefur aðhyllst BDSM frá unglingsaldri: „Ábendingar um BDSM félagið hefðu bjargað mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blaðamaður Mannlífs settist niður með 33 ára gamalli konu, til þess að ræða reynslu hennar af BDSM og samfélaginu því tengdu. Konan, sem kýs að koma fram undir nafnleynd að sinni, segir að sér hafi blöskrað umræðan undanfarið og þær skotgrafir sem fólk hafi farið í í tengslum við BDSM og kynhegðun fólks. Henni hugnast ekki þegar fólk leggur dóm á kynhegðun annarra, svo lengi sem hún skaði engan. Að hennar mati gerir BDSM það ekki, þegar það er stundað á réttan hátt á grundvelli virðingar, ábyrgðar og samþykkis. Enda séu þeir grunnþættir lykilatriði í BDSM heiminum.

„Eftir að hafa horft á Kastljósþáttinn og lesið ýmsar greinar honum tengdar þá bara varð ég að fá aðeins að tjá mig,“ segir konan, sem verður hér eftir kölluð Hjálmdís.

Hún vísar þar til þess þegar þær Sigga Dögg og Hanna Björg Vilhjámsdóttir voru gestir í Kastljósi nýverið og ræddu þar kynfræðslu. Hanna Björg sakaði Siggu Dögg um að normalísera ofbeldishegðun, vegna þess að Sigga Dögg tæki umræðu um flest sem unglingar spyrðu hana um í kynfræðslu, til að mynda kyrkingar. Sigga Dögg hefur lýst því að sér þyki ávallt betra að fræða en hræða og að hún stígi inn í öll málefni með krökkunum á grundvelli samþykkis, samskipta og virðingar.

 

Kennarinn skautaði yfir kynlífskaflann

„Ég er rúmlega þrítug og kynfræðslan í grunnskóla var vægast sagt slök. Við getum orðað það þannig að þegar kom að kynlífskaflanum í líffræðibókinni þá skautaði kennarinn yfir þær blaðsíður, sem voru þó ekki nema tvær.

Krakkar eru og hafa alltaf verið forvitnir um kynlíf, það er staðreynd. Það hefur sýnt sig í gegnum árin og flest allir sem komnir eru á fullorðinsaldur eiga að vita það líka að þau létu lélega kennslu í þessum efnum ekki stoppa sig. Þau leituðu svara; svara hjá sér eldri systkinum, eldri krökkum, nú eða bara beint úr bókum og tímaritum en líklegast sjaldnast frá fullorðnu fólki. Enda hefur vaninn verið að tala sem minnst um kynlíf, nú eða þá að stunda hræðsluáróður í von um að krakkar haldi sig frá því sem lengst. En svoleiðis virkar þetta einfaldlega ekki.

- Auglýsing -

Ef upplýsingar koma ekki frá fyrirmyndum, þá er leitað annað. Í dag er upplýsingaflæðið endalaust á netinu og alltof mikið af því er einfaldlega heimskulegt – að ég tali nú ekki um hættulegt. Það að stinga höfðinu í sandinn og vonast til þess að krakkar velti ekki fyrir sér kyrkingum og öðru kinki er gamaldags hugsunarháttur og ég gleðst heilshugar yfir því að Sigga Dögg leyfi krökkunum ekki að stinga upp í sig.“

 

Hefði gefið mikið fyrir almennilega umræðu um kenndir og óra

Aðspurð hvernig sú litla kynfræðsla sem hún fékk í grunnskóla hafi verið, hugsar hún sig um og er augljóslega ekki hrifin.

- Auglýsing -

„Kynfræðsla skólagöngu minnar virkaði einhvern veginn þannig að það var rætt um þetta helsta; hvernig typpi virkar, hvert það fer og búið. Engin almennileg útskýring á öllu því sem gerist í kvenmannslíkamanum.“

Hún segir að krakkarnir hafi ekki gert þeim sem tók að sér kynfræðsluna auðvelt fyrir, eins og algengt er. Í því samhengi bendir hún á mikilvægi góðra og reyndra fyrirlesara.

„Það að koma með groddalegar athugasemdir til að stinga upp í fyrirlesara er krökkum eðlislægt, en um leið og fyrirlesarinn fer undan í flæmingi og segir að slíkir hlutir séu seinni tíma vandamál þá eru allir að tapa; fyrirlesarinn tapar virðingu og þeir krakkar sem þurfa í alvöru á því að halda að heyra um blæti missa af mikilvægri lexíu og viðurkenningu.

BDSM kenndir eru viðkvæmt málefni og engin furða; þar er verið að ræða um mjög persónulega hluti og jafnvel hluti sem hinum almenna borgara dettur ekki í hug. Oft á tíðum eru þetta málefni sem krakkar grínast með sín á milli.“

Hjálmdís segir að sem manneskja sem hafi alist upp með nokkuð sterkar blætiskenndir snemma á ævinni, hefði hún gefið ansi mikið fyrir að fá almennilega umræðu um þessa hluti í kynfræðslu.

„Ábendingar um að hægt væri að ræða við BDSM félagið hefðu algerlega getað bjargað mér frá mörgum árum af skömm og sjálfsásökunum fyrir að vera masókisti.“

„Ef krakkar komast ekki í kynni við ábyrgt fólk í BDSM efnum þá getur auðveldlega farið illa fyrir þeim, þar sem þau munu leita svara.

Þrátt fyrir að heyra aðeins talað um BDSM í hálfkæringi í skólanum þá vissi ég nokkuð vel hvað ég vildi og hóf þar af leiðandi leit mína á netinu til að finna svör við mínum kenndum. Það hefði verið töluvert gáfulegra að vita af BDSM félaginu og geta leitað svara þar.“

 

Eignaðist bólfélaga sem hún treysti

Þegar Hjálmdís hafði bögglast ein með kenndir sínar bróðurpart unglingsáranna og var komin langleiðina að tvítugu kynntist hún einstaklingi sem hún treysti nægilega vel til þess að uppgötva kynlíf með og gera tilraunir með þrár sínar, blæti og svo BDSM.

„Ég sé í dag hversu heppin ég var að finna frábæran mann sem aðstoðaði mig við að veita órum mínum útrás. Hann ræddi við mig sem jafningja þrátt fyrir stórkostlegan mun á reynslu, hann sýndi mér og mínum kenndum virðingu og ég fann aldrei fyrir skömm af hans hendi þrátt fyrir að mér sjálfri finndist sumir af órum mínum ansi undarlegir.

Sem ungling dreymdi mig ekki um kærasta og ástarsamband. Mig dreymdi um að kanna kynferðislegar langanir mínar og líkt og flestir krakkar á þeim aldri hefði ég verið til í að gera ýmislegt til að heilla lærimeistara minn. Þarna hefði ég svo auðveldlega getað rekist á skíthæl sem hefði misnotað sér aðstöðu sína þar sem ég var ung, óreynd en virkilega áhugasöm. Heppni mín fólst í því að rekast á einstakling sem vissi fyrir hvað BDSM stendur og leyfði mér algerlega að kanna kenndir mínar á mínum eigin forsendum. Hann ýtti aldrei á mig að gera hitt eða þetta, hann latti mig frekar til þess að sofa hjá heldur en að hvetja mig. Ég verð honum ævinlega þakklát fyrir þolinmæðina og kennsluna.“

Hún segir þau tvö deila dýrmætri vináttu enn þann dag í dag.

 

Að þekkja eigin mörk eykur sjálfsöryggi

Hjálmdís segir að henni þyki öll fræðsla vera af hinu góða. Það að svara spurningum krakka og unglinga og stíga inn í málefnin með þeim geti ekki verið verra en sá skortur á fræðslu sem hún og jafnaldrar hennar bjuggu við.

„Það að kenna krökkum að kanna líkama sinn getur ekki verið annað en jákvætt, sama hvort það snýst um snertingu á sníp eða typpi, kyrkingar eða ásláttarblæti (e. impact play); þeim mun betur sem þú hefur kannað eigin líkama, þeim mun líklegri ertu til að geta krafist virðingar í kynlífi.

Það að þekkja eigin mörk eykur sjálfsöryggi og ánægju í kynlífi.

Það að geta sagt til um hvað manni finnst gott og hvað maður kann illa við ætti að vera fyrst og fremst það sem kynfræðsla gengur út á.“

Hún áréttar að grundvöllur BDSM sé alltaf samþykki og samskipti.

„Það vill svo skemmtilega til að nokkur aðalboðorð BDSM eru traust, heiðarleiki og samskipti. Gott BDSM samband, hvernig svo sem það er uppsett, gengur út á það að báðir aðilar njóti sín, að samskipti séu opin og öryggisorðið sé heilagt og virt 100 prósent. Við megum ekki á öld upplýsinga stinga höfðinu í sandinn og ætlast til þess að krakkar sleppi því að gera hlutina ef við ræðum þá ekki. Uppfræðsla og opin samskipti skapa traust. Það að ræða ekki hugðarefni krakka í kynlífi sýnir ekkert annað en vanvirðingu við þau og þeirra pælingar. Fyrirmyndir okkar mega alls ekki verða til þess að krakkar skammist sín fyrir kynferðislegar langanir sínar og það að ræða ekki hlutina kemur ósjálfrátt inn skömm hjá krökkum.“

 

BDSM byggt á ofbeldis- og nauðgunarmenningu?

Undanfarið hefur verið nokkuð um raddir í samfélaginu sem vilja meina að BDSM sé í grunninn byggt á ofbeldis- og nauðgunarmenningu, sem og rótgrónu kynjamisrétti. Það er skoðun sumra að í BDSM sé verið að klæða ofbeldi í „huggulegan“ búning og leyfa því þannig að grassera óáreitt.

Hjálmdís er ekki lengi að svara því og segir að sér finnist það lýsa fordómum og fáfræði.

„Fáfræði sem stafar meðal annars af því að það má ekki ræða BDSM málefni. Fólk sem aðhyllist BDSM án þess að vita nákvæmlega út á hvað það gengur þarf að hafa öll bestu spilin á hendi til að kynna sér nákvæmlega og í öruggu umhverfi hvað það er. Það hversu auðveldlega vont fólk getur nýtt sér sakleysi ungs fólks í kynferðislegum málefnum og talið því trú um að svona eigi BDSM og kynlíf að vera versnar eingöngu við það að mega ekki kenna grunnhugmyndir þess.

Ég er ekki endilega að tala um að nákvæm fræðsla þurfi að fara fram innan skólans heldur vil ég að komið sé inn á grunngildi BDSM og það hvar best sé að kynna sér málið betur. Ungt fólk mun alltaf hafa hugmyndir um hvernig kynlíf það vill stunda; það er okkar fullorðna fólksins að gefa þeim bestu spilin til að geta kynnt sér það á öruggan hátt.

Mín reynsla er sú að þeir menn sem bera hvað mesta virðingu fyrir konum finnist innan BDSM samfélagsins. Það að hugmyndafræðin byggi á kynjamisrétti finnst mér algerlega galin og til marks um það hversu lítið fólk veit um málefnið. Ofbeldi og nauðgunarmenning eru harðlega gagnrýnd innan samfélagsins og grunngildi þess eru virðing og samþykki. Mikil áhersla er lögð á að virðing sé borin fyrir öllum þeim sem taka þátt í athöfnum og mikil virðing er líka borin fyrir löngunum og mörkum þeirra sem að málinu koma. Samþykki þarf alltaf að vera skýrt sem og hvaða öryggisorð eða merki eru notuð til að hægt sé að hætta um leið og einhverjum fer að líða hið minnsta óþægilega.“

 

50 gráir skuggar afar skökk mynd af BDSM

Út frá þessu berst samtalið að afþreyingu og birtingarmyndum BDSM innan dægurmenningar. Þar er Hjálmdís ómyrk í máli.

„Afþreying líkt og 50 Gráir skuggar er stórhættuleg og fullkomin leið til þess að gera fólk enn hræddara við BDSM, það er að segja hafi fólk lesið eða horft á hana með gagnrýnum augum. Þar er miklu valdaójafnvægi og ofbeldi lýst; strax í byrjun skilst mér til dæmis að konan sé neydd til að skrifa undir og samþykkja ýmislegt sem hún hefur enga löngun til. BDSM snýst ekki um að gera hluti án samþykkis, þótt að oft sé hægt að leika sér með svokallað „samþykkt ósamþykki“, þar sem hinn undirgefni hefur fulla stjórn á aðstæðum og veit það að aldrei verði gengið yfir mörk hans.

Ég hef persónulega hvorki lesið bækurnar né horft á myndirnar, þar sem ég neita að taka þátt í þeim skrípaleik. En ég hef lesið ansi margar greinar og umræður þar sem BDSM fólk er sárt og reitt yfir því hvernig bækurnar lýsa heimi BDSM, gefa kolranga mynd af því sem þar fer fram og gera jafnvel heilmikinn skaða bæði fyrir þá sem alfarið neita þá að kynna sér heiminn af opnum hug sem og þá sem vilja kynna sér heiminn en halda eftir lesturinn eða áhorfið að BDSM snúist um samskiptaleysi, yfirgang og ofbeldi.

Ég verð í rauninni döpur þegar ég hugsa til þess hversu illa hefði farið hefði ég til dæmis rekist á þessar bækur sem ung stelpa.

Ég var komin í unglingadeild bókasafnsins 12 ára, svo ég hefði verið búin að lesa hana um svona 15 ára. Slíkar bókmenntir hefðu gefið mér svo kolbrenglaða sýn á samþykki og virðingu að ég hefði vel getað týnt mínum mörkum og gefið færi á því að mér yrði misboðið hrapallega.“

 

Ekki leyfa nokkrum rotnum eplum að skemma fyrir

Annað sem hefur verið varpað fram í umræðunni undanfarið er að BDSM skapi kjöraðstæður fyrir ofbeldismenn til þess að níðast á brotnum eða ómótuðum einstaklingum. Hvernig skyldi það horfa við Hjálmdísi?

„Virðing og samþykki! Enn og aftur klifa ég á þessum orðum, þar sem það virðist endalaust erfitt fyrir fólk að skilja að fólk sem felur sig á bak við BDSM og notar það sem afsökun fyrir ofbeldi er hvort eð er skíthælar, það er að segja fólk sem væri hvort eð er að gera ógeðslega hluti, hvort sem það feldi sig bak við BDSM eða trúarbrögð og annað vald.

Ég hef alveg fengið að heyra setningar á borð við: „Ég veit að þú hafðir bara gaman að þessu, þú þykist allavega vera svona kinky BDSM týpa,“ þegar ég reyni eftir kynlíf að ræða við bólfélagann um hluti sem fóru yfir mín mörk. Það sýnir bara hversu nauðsynlegt er að tala um samþykki og virðingu við krakka og það sem fyrst.

Ég er til dæmis mjög ánægð með það hversu útbreitt það er orðið að spyrja börn hvort þau vilji kyssa ættingja bless og hvort þau vilji faðma þennan eða hinn. Ef þau læra ekki ung að setja mörk þá vita þau ekki hvar mörkin liggja – svo ég tali nú ekki um það að vilji börn ekki láta kitla sig þá á að virða það. Ég er sjálf með ofnæmi fyrir kitli og veit engar pyntingar verri en kitl. Ég veit fullvel að innan BDSM senunnar er fólk sem níðist á öðrum, er ofbeldisfullt og skýlir sér á bak við það að þetta sé bara partur af senunni – en er ekki svoleiðis fólk að finna allsstaðar, í öllum stéttum og stöðum?

Ég sé ekki betur, miðað við fréttir síðustu mánaða, en að allsstaðar sé að finna skíthæla sem misnoti sér aðstöðu sína.

Það að til séu menn sem misnota fólk í BDSM senunni er álíka flippuð ástæða til fordóma fyrir BDSM eins og það að vera með fordóma fyrir öllum forstjórum, þjálfurum eða skemmtikröftum, því einhverjir nokkrir þeirra hafa orðið uppvísir að ósæmilegri hegðun. Ekki leyfa nokkrum rotnum eplum að skemma fyrir öllum hinum, mætum fólki með virðingu og væntumþykju – þá gengur lífið svo miklu betur. Mörk í kynlífi eru lífsnauðsynleg; leyfið krökkunum að leita sér öruggra upplýsinga svo þau geti tekið upplýsta ákvörðun sjálf, um hvort þau kæri sig um munnmök, bindingar eða eitthvað sárasaklaust eins og kossa.“

 

Fann líkamsvirðingu í gegnum BDSM senuna

Hjálmdís hefur sjálf ekki gerst meðlimur í BDSM félaginu og ekki kynnst sínum bólfélögum í gegnum það.

„Ég hef aldrei fundið þörf hjá mér til að ganga í BDSM félagið, ég get svosem ekki gefið neinar nákvæmar útskýringar á því hvers vegna ég gekk aldrei í það en flest öllum mínum betri bólfélögum kynntist ég á Einkamál og þar er stórkostlega áhugaverður hópur af fólki. Ég hef alltaf haft gaman af kynlegum kvistum og oft á tíðum eytt miklum tíma í að ræða við fólk um hin ýmsu blæti bara til að geta betur glöggvað mig á því hversu fjölbreytt súpa mannfélagið er.

Líklegast er ég of mikill grúskari til að nenna að mæta á fundi og hittinga hjá félagi, mér finnst miklu áhugaverðara að kynnast fólki one on one“. Það að kynnast fólki gegnum tölvuskjá gefur líka merkilega sýn á innri mann þess, þú lætur ýmislegt flakka gegnum skjá sem þú ert feiminn við að gera augliti til auglitis. Maður sem ég er nýlega búin að kynnast orðaði þetta svo frábærlega um daginn þegar hann sagði að maður kynnist fólki miklu fyrr gegnum skjáinn þar sem fólk er afslappaðra og innri maðurinn á þannig auðveldara með að koma í ljós, þar sem ekki þarf að fela sig bak við töffarastæla og innsognar bumbur.

Fólk í BDSM senunni kenndi mér líkamsvirðingu löngu áður en það orð komst í tísku.

Stærð, lögun og hárlitur skiptir oftast ekki öllu máli, heldur miklu frekar andlega tengingin, blætin og langanirnar. Verandi stór stelpa þá voru þetta dásamlegar fréttir, þar sem oftast voru helstu kröfurnar þær að maður væri snyrtilegur og reyklaus. Það er þessi andlega tenging sem hefur alltaf heillað mig við BDSM, það að geta rætt langanir sínar og fengið þeim fullnægt með annarri manneskju sem fær alveg jafn mikið út úr því að þjóna, stjórna eða pína þig eins og þú færð út úr því að stjórna, þjóna eða láta pína þig.“

 

Nýtur þess bæði að stjórna og láta að stjórn

Hjálmdís segist vera svokallað switch í BDSM; það er að hún finnur sig hvort sem er í því að stjórna og láta að stjórn.

„Það fer algerlega eftir manneskjunni sem ég er að tala við hvorum megin mér finnst ég eiga betur heima. Með einum langar mig bara til að stjórna öllu og láta hann þjóna mér, nudda mig og dekra mig. Svo tala ég við annan, þar sem mig langar mest til að hann þrýsti mér ofan í dýnuna, bindi mig og geri „allt það sem hugur hans girnist“ – auðvitað innan þess ramma sem ákveðinn hefur verið.

Í grunninn sé ég drottnun, sem er reyndar orð sem ég þoli ekki, sem verndunarhlutverk; sá sem drottnar ber ábyrgð á því sem fram fer og ber ábyrgð á því að fara ekki yfir mörk þess sem stjórnað er. Þess vegna þarf góð og uppbyggileg umræða að hafa farið fram áður, en það sem mörgum yfirsést er það að drottnarinn þarf líka að hafa sín mörk á hreinu og passa að láta ekki undan þeim þrýstingi að gera hluti sem hann er ósáttur við. Sá undirgefni ber líka mikla ábyrgð þar sem hann þarf að vera viss um hverju hann er tilbúinn til að taka þátt í.

Einn skærasti rauðfáninn sem hægt er að rekast á er undirgefinn einstaklingur sem segist til í „allt“, vill gera hvað sem er og segist ekki hafa nein mörk. Það er manneskja sem er ekki tilbúin til að stunda BDSM, þar sem skýr mörk eru bráðnauðsynleg.

Ég er líka bæði sadisti og masókisti, hef álíka gaman af því að láta pína mig eins og ég hef af því að pína og valda öðrum sársauka. Sársauki er nefnilega svo merkilegt fyrirbæri; svo framarlega sem þú hefur stjórn á því hvar og hvernig hann fer fram þá getur hann verið valdeflandi fyrir þann sem er pyntaður. Ég veit um marga sem hafa gengið í gegnum ofbeldissambönd, bæði rómantísk og svo heimilisofbeldi sem börn, sem nýta sér BDSM til valdeflingar þar sem þú getur þar haft stjórn á öllu því sem fram fer.“

 

Þegar foreldrarnir fundu klámið

Hjálmdís rifjar upp mikilvægt augnablik frá unglingsárum sínum, sem hafði mikið að gera með samskipti og viðbrögð hinna fullorðnu.

„Ég hafði orðið mér úti um talsvert safn af klámefni vissrar tegundar, sem telst ekki alveg beint venjulegt áhugaefni hjá unglingsstelpu. Þegar safnið fannst við vortiltekt á heimilinu var tekið merkilega vel á málinu og þetta bara rætt á þann hátt að vissar kenndir væru eðlilegar og að ef ég hefði einhverjar spurningar þá væri minnsta málið að ræða þær í ró og næði. Þarna hefði verið svo auðvelt að hleypa út skömminni og sannfæra mig um að það væri eitthvað mikið að því að hafa áhuga á svona kinki.

En sem betur fer, með aðstoð opinskárra foreldra og seinna bólfélagans góða, þá tókst mér að búa til ansi sterka kynferðislega sjálfsmynd þar sem ég skammast mín ekkert fyrir mínar kenndir.

Ég hefði gefið svo mikið fyrir að vita strax við kynþroska að það væru fleiri þarna úti með sömu kenndir og að geta leitað mér upplýsinga hjá þeim í stað þess að leita þeirra á netinu. Krakkar finna sér alltaf leið til upplýsingaöflunar. Það er foreldranna og fyrirlesara að passa að þeir fái upplýsingar á öruggum stöðum.“

„Fariði varlega þarna úti krakkar, kynlíf getur verið dásamlegt en til að svo sé þá þurfa samskipti, traust og heiðarleiki að vera til staðar,“ segir Hjálmdís að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -