Hjalti Úrsus talar við Hildi Maríu Sævarsdóttur um mál sonar síns, Árna Gils Hjaltasonar, sem sat saklaus í fangelsi á sínum tíma í 277 daga, en hann hafði verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps árið 2017. Landsréttur sýknaði svo Árni Gils í fyrra. Árni Gils lést daginn eftir að viðtalið var tekið. Hér er brot úr viðtalinu.
Passar ekkert saman
Hjalti Úrsus segir að tæknideild lögreglunnar hafi aldrei farið á vettvang glæpsins eða meints glæps. „Hefðu þeir bara tekið þessa þrjá blóðdropa og séð að þeir voru úr Árna sjálfum, þá hefði verið ólíklegt að hinn hefði orðið fyrir miklum skaða þarna. Hann er stór, hann er 2,05 metrar og sennilega 190 kíló. Rosalega stór og sterkur.“ Þegar Oddgeir lögmaður [innsk. blm. Oddgeir Einarsson var verjandi Árna] sagði að það væru engar blóðprufur, þá sagði ákæruvaldið að það skipti ekki máli úr hverjum blóðið væri. Ég bara: ha? Skiptir ekki máli? Ákæruvaldið fór í allt of mikinn ham einhvern veginn.“ Tæknideildin var ekki kölluð til að sögn Hjalta Úrsus og engar ljósmyndir teknar af áverkunum. „Það var ekkert blóð, ekkert DNA, það var ekkert vopn. Þeir náðu að fela það allt. Öll rannsóknin var í þvílíkum molum. Og svo líka spítalinn. Ég var að djöflast í spítalanum og kona þar, sem sá um samskipti, sagði að í kjölfar þessa máls myndu þau breyta starfsreglum og ef um væri að ræða ofbeldismál þá yrðu teknar myndir. En þarna voru ekki teknar myndir og þau segja að það verði að taka mynd af svona áverka með kvarða; þá hefðu þeir kannski séð að sárið var eftir skósóla eða ekki hníf. Áverkinn sem hann kom með á spítalann var um fjögurra sentímetra breiður en dýptin á sárinu var 0,8 millimetrar, ef hann hefði stungið hann hefði dýptin verið um þrír millimetrar. Eða fimm millimetrar. Þetta er svo einfalt; dýptin á sárinu – þetta passar ekkert saman.
Við áfrýjuðum til Hæstaréttar og Hæstiréttur sagði að í fyrsta lagi væri einn dómari og að það þyrfti að hafa fjölskipaðan dóm. Svo tóku þeir út smátexta úr dómnum; þar stendur að ákærða hefði mátt vera ljóst með því að slást við brotaþola með svo hættulegu vopni að þá gæti illa farið, hvort sem hann héldi sjálfur á hnífnum eða hann héldi um hníf brotaþola, sem var með hnífinn, og þarna segir bara Hæstiréttur að maðurinn sé ekki að fara í fangelsi ef þið vitið ekki einu sinni hvort það var hann sem hélt á hnífnum eða hinn. Svo segja þeir: Hver er staða brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar?
Og svo átti Árni að hafa stungið hann með vinstri. Bíddu; er Árni rétthentur eða örvhentur?“
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér.