Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Hjólastólaaðgengi nýbygginga víða í ólagi: „Klárlega verið að brjóta réttindi fólks“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðgengi fyrir fatlaða er víða í ólestri, jafnvel í nýbyggingum. Þótt skýr ákvæði um aðgengi séu í gildi virðist þeim oft ekki vera fylgt og eftirlitsaðilar aðhafast ekkert. Fólk sem jafnvel hefur keypt íbúðir sem eiga að vera með fullu aðgengi kemst að raun um annað þegar flutt er inn. Erfiðlega gengur að sækja málin og flestir hrökklast á endanum burt og selja íbúðir sínar.

Aðgengisátak Öryrkjabandalags Íslands vakti á dögunum athygli á skertu aðgengi fyrir hjólastóla við nýbyggingu í Vogahverfinu í Reykjavík. Þrátt fyrir að rampur sé til staðar eru vankantar á hönnuninni með þeim hætti að hann er ónothæfur. Verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalaginu segir alltof algengt að ekki sé farið eftir lögum og reglum um aðgengi í nýbyggingum.

Mynd af inngangi nýbyggingarinnar var birt inni á Facebooksíðu Aðgengisátaks Öryrkjabandalags Íslands. Á henni má sjá ótal mistök í hönnuninni sem skerða aðgengið. Rampurinn er of mjór, ekkert handrið er meðfram honum, rými til þess að snúa hjólastól er ekki til staðar og í ofanálag virðist hurðin opnast út. Hún myndi því lenda á einstaklingi í hjólastól sem væri þar fyrir framan og ýta viðkomandi út af pallinum. Auk alls þessa er dyrabjalla of há.

Mynd tekin við fjölbýlishúsið í Vogahverfinu.

 

Gangar og inngangar eigi að vera aðgengilegir öllum

Við færslu sem sýnir myndina á síðu Aðgengisátaks ÖBÍ bendir einn aðili á það í athugasemd að ekki sé um að ræða aðalinngang. Tröppur séu fyrir innan innganginn og því sé þetta ekki ætlað hjólastólum. Við aðalinngang hússins megi finna allt annað aðgengi. Slíkt skiptir þó ekki máli, þar sem byggingin fellur undir ákvæði algildrar hönnunar, sem þýðir að gangar og inngangar eigi að vera aðgengilegir öllum, óháð því hvort um sé að ræða aðalinnganga eða ekki.

Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands útskýrir í samtali við Mannlíf að fjölbýlishús í dag eigi að vera byggð samkvæmt ákvæðum um algilda hönnun. „Það eiga allir að geta farið eftir almenningi; þú átt semsagt að geta farið hindrunarlaust í gegnum húsið og í gegnum alla innganga. Þú átt að geta komist inn í geymsluna þína og inn á öll svæði sem eru ætluð fyrir íbúa. Ef fólk er að tala um að það sé ætlast til þess að fatlað fólk komi inn um einn inngang, en allir aðrir geti farið út bakdyramegin eða hvernig sem það er, þá er klárlega verið að brjóta réttindi fólks.“

- Auglýsing -
Stefán Vilbergsson, verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands.

 

Alvarlegir vankantar á flóttaleiðum

Stefán hefur fengið það staðfest frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að ákvæðið sé rétt túlkað með þessum hætti. Hann bendir einnig á að líklega sé um flóttaleið að ræða, sem beinlínis nauðsynlegt sé að allir hafi aðgang að.

„Þú þarft að geta komist í gegnum allar hurðir og annað slíkt, í flóttaleið, þótt þú hafir ekki afl til þess að opna þungar hurðir.“ Stefán bendir á að oft sé látið hjá líða að gera ákveðna hluti varðandi flóttaleiðir með fullnægjandi hætti. Gjarnan séu ekki settir upp sjálfvirkir opnarar á hurðir í umferðarleið, eða ekki tryggt að tog sé ekki þyngra en svo að allir ráði við það. Aðspurður segir hann ástandið enn slæmt hvað þetta varðar og að ekki sé farið eftir ákvæðinu í mörgum nýbyggingum.

- Auglýsing -

„Í nýbyggingum á allt aðgengi að vera í lagi; í þessum byggingum sem falla undir kröfur um algilda hönnun. Þannig að allir; fatlað fólk og allur almenningur, börn, gamalmenni og hver sem er, eiga að geta farið um hindrunarlaust og með sama hætti og aðrir. Það er ennþá verið að klúðra þessu og oft með sama hætti. Þá eru bæði eldvarnarhurðir og útihurðir alltof þungar, og enginn sjálfvirkur opnari. Það eru oft háir þröskuldar og síðan er íbúum beint í gegnum bílastæðakjallara, en þar er oft ekki sjálfvirkur opnari á eldvarnarhurðum. Eldvarnarhurðir eiga að lokast þétt; þeirra hlutverk er fyrst og fremst að vera lokaðar. Þannig að fólk þarf oft að bisa við að reyna að opna þær. Ef þú hefur ekki handstyrk eða ert í hjólastól, þá ræðurðu ekkert við það.“

 

Kærði aðgengismál í íbúðarhúsi sínu

Þrátt fyrir að ákvæðið sé til staðar, og eigendum og verktökum skylt að fara eftir því, virðist eftirfylgni ábótavant. Í vor féll þó úrskurður eftir að íbúi kærði aðgengismál til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Íbúðin sem um ræðir er staðsett í Tangabryggju. Íbúinn kærði atriði á borð við þau sem Stefán nefnir, auk annarra. Í fyrsta úrskurði dæmdi nefndin verktakanum ekki í óhag. Ýmsir vankantar voru viðurkenndir en þrátt fyrir það ákvað nefndin að aðhafast ekkert í málinu. Í framhaldinu lagði íbúinn málið fyrir umboðsmann Alþingis, sem skyldaði nefndina til þess að taka málið upp aftur. Auk þess lagði Öryrkjabandalag Íslands fram álit í málinu. Í framhaldinu var úrskurðinum snúið við að miklu leyti.

„En brotalömin er bæði sú að verktakar leggja fram teikningar, sem síðan verða oft breytingar á í ferlinu,“ segir Stefán. „Þannig að þú ert oft ekki að kaupa það sem þú heldur að þú sért að kaupa. Síðan eru leyfisveitendur og eftirlitsaðilar, sem eru mikið til þeir sömu, að hleypa þessu í gegn. Það hefur dugað lítið að kvarta og kæra hingað til. Fólk hefur frekar hrakist út og orðið að selja íbúðir, sem það keypti sem aðgengilegar.“

Stefán segir ástandið í þessum málum því langt frá því að vera í lagi. „Við sjáum talsvert af þessu. Allt í einu eru kannski komnar tröppur upp að inngangi þar sem átti að vera beint flæði inn.“

Íbúðarhúsið í Vogahverfinu sem um ræðir er í Kuggavogi. Nýbyggingar hafa undanfarin misseri risið þar á ógnarhraða.

„Því miður eru menn oft ekki að vanda sig í þessu ferli; þeir sem bera ábyrgð passa ekki nægilega vel upp á þetta,“ segir Stefán.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -