Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hjónin fóru áður þá leið sem Landspítali bendir á: „Fjöldi innskráninga höfðu verið þurrkaðar út“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það sem er sérstaklega athyglisvert er að við erum búin að fara þessa leið sem sjúkrahúsið leggur til. Við gerðum það árið 2015,“ segir Gunnar Árnason, vegna bréfs sem hann og Hlédís, eiginkona hans, fengu frá lögfræðingi Landspítala, þar sem þeim var hótað lögsókn fyrir að setja sig í samband við heilbrigðisstarfsmenn sem skráðir eru með fjöldann allan af uppflettingum í sjúkraskrám þeirra. Hjónin sögðu sögu sína í viðtali við Mannlíf í maí síðastliðnum.

Í bréfi frá Ingibjörgu Lárusdóttur, lögfræðingi spítalans, segir meðal annars: „Ég vil vinsamlega benda ykkur á að ákveðnar leiðir eru til að óska eftir rannsókn mála.“ Þar á eftir koma ábendingar um hvert beina megi málum af þessum toga. Þar er tiltekið að senda skuli athugasemdir um uppflettingar í sjúkraskrá á Eftirlitsnefnd um rafræna sjúkraskrá og/eða Persónuvernd. Auk þess megi senda athugasemdir um veitingu heilbrigðisþjónustu á spítalann eða embætti landlæknis.

 

Nöfn vantaði í fyrri skrána

Gunnar segir í samtali við Mannlíf að þau Hlédís hafi farið slíka leið árið 2015, þegar grunur þeirra vaknaði fyrst um að eitthvað kynni að vera óeðlilegt í tengslum við uppflettingar í sjúkraskrám þeirra. Þau telja tilhlýðilegar skýringar ekki hafa komið fram.

„Enda er þetta ekki rétt skrá sem við fengum þá. Seinna fengum við aðra skrá, mun lengri, sem innihélt uppflettingar og nöfn sem höfðu verið fjarlægð úr hinni skránni.“ Hann segir þau ekki hafa fengið skýringar á hinum ólíku uppflettiskrám. Seinni skráin hafi komið inn um lúguna heima hjá þeim, í umslagi frá Landspítala, í formi USB-kubbs.

Gunnar segir þau hafa sent fyrirspurn á aðstoðarframkvæmdastjóra lækninga árið 2015. „Áhyggjur okkar voru teknar til skoðunar og því lýst í tölvupóstsamskiptum að þær hefðu verið teknar mjög alvarlega. Málið hafi verið skoðað ofan í kjölinn, eins og tekið var fram að væri ávallt gert þegar slíkar áhyggjur kæmu fram. Í tölvupósti erum við síðan fullvissuð um það að eftir þessa skoðun þeirra þurfum við ekkert að hafa neinar áhyggjur af því að neinn óviðkomandi sé að fara inn í okkar sjúkraskrár. Það hafi verið gengið úr skugga um það, svo við getum bara sofið róleg.“

- Auglýsing -

Gunnar segir að á þessum tímapunkti hafi hundruðir innskráninga þegar verið framkvæmdar og því ljóst að það hafi verið sýnilegt þeim sem skoðaði málið á sínum tíma.

„Formaður þessarar sjúkraskrárnefndar, sem á að taka á móti svona málum, er sami aðili og var framkvæmdastjóri lækninga á þeim tíma sem við sendum okkar erindi.“ Gunnar segir hann ávallt hafa verið inni í öllum tölvupóstsamskiptum.

„Okkur fannst á sínum tíma dálítil fljótaskrift á þessu, að fá þessu svarað bara svona í stuttum tölvupósti, og að það ætti að sannfæra okkur. Seinna sama ár sögðu kunningjar okkar, sem starfa innan heilbrigðiskerfisins, að við gætum fengið „log-in“ skrána afhenta, sem var ekki gert þegar við spurðumst fyrir um málið fyrst. Við náðum síðan loksins að toga hana út í lok árs 2015. Það er skráin sem við fengum fyrst, sú sem inniheldur ekki nálægt því allar uppflettingar sem skráin sem við fengum seinna senda gerir.“

- Auglýsing -
Hlédís og Gunnar í viðtali við Reyni Traustason í maí.

 

Furðuðu sig á lækni á líknardeild

Gunnar lýsir því að þegar þau hjónin hafi fengið fyrri skrána afhenta, hafi þau rekið augun í manneskju sem þeim þótti skrýtið að væri að fara inn í sjúkraskrá þeirra.

„Þannig að við ákváðum að gera athugasemd við þá manneskju; sérfræðilækni af líknardeild. Það var bara út af þessu orði, líknardeild – við rákum bara augun í það. Þessi kona hafði aldrei sinnt okkur. Þá gerðum við aftur nákvæmlega það sem nú er verið að segja að við eigum að gera, í þessu hótunarbréfi. Við semsagt tölum ekki við lækninn. Við sáum hver þetta var, vitum hver hún er, en við sendum henni ekkert bréf, vegna þess að við fórum bara í sjúkrahúsið sjálft. Sömu menn sátu þá fyrir svörum og í byrjun árs 2015, framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri lækninga. Þeir benda okkur á að í þessari skrá sé hún bara með eina línu; eina uppflettingu. Þeir segjast hafa rætt við þennan lækni og hún hafi gefið þá skýringu að hún hafi bara slegið ranga kennitölu, sem olli því að hún var þarna komin inn í ranga sjúkraskrá. Hún hafi strax farið út úr henni aftur og því hafi hún í rauninni ekki farið inn í skrána. Þeir staðhæfðu það, samkvæmt því sem hún hafði sagt þeim þegar þeir spurðu hana út í þetta.“

Samkvæmt Gunnari fóru þau hjón á fund framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra vegna málsins, til þess að fara fram á tilhlýðilegar skýringar.

„En þarna vissum við ekki að þetta væri fölsuð skrá. Þessu máli var lokið af þeirra hálfu og við komumst ekkert lengra með það.“ Gunnar bendir á að þarna hafi þau hjónin því ávallt verið að fylgja þeim ferli sem lagt er til í bréfinu sem þau fengu sent nýlega.

„Síðan kemur í ljós þegar við fáum raunverulegu skrána, í fullri lengd, að fjöldi annarra innskráninga þessarar sömu konu höfðu verið þurrkaðar út í fyrri skránni. Raunverulega skráin sýnir fleiri línur og að hún fór í raun og veru inn í sjúkraskrána.“

 

Ekki óþekkt að læknar opni sjúkraskrár í misgripum

Það skal tekið fram að ekki er óþekkt að læknar opni sjúkraskrár fólks í misgripum, til að mynda með því að slá inn ranga kennitölu. Það er þó erfitt fyrir leikmann að átta sig á því hvernig slíkt geti ítrekað átt sér stað hjá sama aðila, og þá hvort það þurfi ekki að svara sérstaklega fyrir það og gefa tilhlýðilegar skýringar.

Einnig getur sama manneskja verið með ótal uppflettingar í sömu sjúkraskrá, því hver hreyfing í skránni skilur eftir sig eitt fótspor. Þannig verður til fótspor við opnun sjúkraskrár, annað ef lyf er skrifað út, enn annað ef leita þarf eftir greiningu eða skrá greiningu, og þar fram eftir götunum. Það verður þó að teljast undarlegt að ótal uppflettingar finnist í sjúkraskrá einstaklings, undir nöfnum heilbrigðisstarfsmanna sem hafa ekki annast viðkomandi eða starfað á deild sem sjúklingur hefur fengið umönnun á.

„Þannig að við getum auðveldlega sýnt fram á að við höfum þegar farið þá leið sem þau benda á. Það gekk nú svona,“ segir Gunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -