Hlutabréf Síldarvinnslunnar hafa rokið upp eftir að tilkynnt var um kaup fyrirtækisins á útgerðarfyrirtækinu Vísi.
Viðskiptablaðið greindi frá því á mánudag að hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hefði hækkað um 6,9 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins, eftir að fregnir höfðu borist af fyrirhuguðum kaupum fyrirtækisins á útgerðinni Vísi í Grindavík kvöldið áður. Í lok dags nam hækkunin 7,4 prósentum í 441 milljóna króna viðskiptum.
Af 22 félögum var mest velta með bréf Síldarvinnslunnar í Kauphöllinni á mánudag. Gengi hlutabréfa í Síldarvinnslunni stóð í 103,5 krónum á hlut við lokun markaða þann dag. Það er 78 prósent hækkun frá útboðsgengi A-tilboðsbókar félagsins.
Við opnun markaða í morgun stóð gengi hlutabréfa í Síldarvinnslunni í 104 krónum.