Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hlynur ræðir sorgarferlið í kringum barnsmissi: „Erfiðasta sem ég hef farið í gegnum á ævinni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlynur Kristinn Rúnarsson, fíkniráðgjafi og lögfræðinemi, segir gríðarlega sorg fylgja því að fæða andvana barn. Hlynur, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, hefur gengið í gegnum gríðarlega margt á stuttri ævi en segir sorgarferlið í kringum fæðinguna hafa verið það erfiðasta sem hann og konan hans hafa farið í gegnum.

„Við verðum ólétt, en svo kemur í ljós að við værum að fara í gegnum missi eftir 20 vikur og einhverja daga. Þann 6 október 2022 misstum við Mikael. Það er líklega það erfiðasta sem ég hef farið í gegnum á ævinni þó að það sé af mörgu að taka. Ég myndi líklegast fara í gegnum allt hitt frekar en að fara aftur í gegnum þetta. Sorgin var gríðarleg og tilfinningarnar mjög flóknar. Allt sem varð ekki, öll vonin sem maður hafði og tilhlökkunin og fleira. Maður fer í gegnum mikinn vanmátt, en svo á endanum áttar maður sig á því að lífið getur bara verið mjög ósanngjarnt við mjög marga og ég er engin undantekning þar. Það voru margir sem höfðu áhyggjur af því að þetta myndi setja mig út af beinu brautinni og ég myndi fara að nota gamlar leiðir til að fixa mig. En sem betur fer var ég kominn nógu langt í bata til að ná strax að nota öll verkfærin sem ég hafði. Taka einn dag í einu, halda rútínu, leita aðstoðar og fleira.“

Hlynur sem fór á sínum tíma alla leið á botninn í neyslu segir að fikt við stera hafi verið upphafið að ferli sem varð stjórnlaust. Hann lýsir því í þættinum strák sem gekk vel í skóla og átti sér stóra drauma breyttist yfir í mann sem endaði í fangelsi í Brasilíu eftir tilraun til fíkniefnaútflutnings.

„Fólk sem fer út í neyslu á oft sögu um að flosna snemma úr skóla og fara af braut fljótt, en það átti ekki við um mig. Ég átti auðvelt með að læra, gekk vel í skóla og var félagslega sterkur. Í raun og veru voru ekki margir hefðbundnir ,,indicatorar” um að ég myndi þróa með mér fíkn. En það gerist þegar ég er að verða fullorðinn að þá byrja ég að fikta við stera. Með steranotkuninni þróaði ég með mér útlitsdýrkun og dómgreindin byrjaði að ruglast mikið. Ég var stanslaust að setja athyglina á það sem væri að við líkama minn þegar ég fór að æfa og keppa í fitness. Það urðu til mjög miklar ranghugmyndir hjá mér og út frá því fór leiðin að liggja meira niður á við. Það verða ekkert allir ruglaðir sem prófa stera, en þannig var það svo sannarlega hjá mér,“ sagði Hlynur við Sölva um málið.

„Það sem gerðist hjá mér var að ég fékk gríðarlega þráhyggju og fór að nota meira og meira af sterum. Afleiðingarnar urðu svo þær að ég varð hvatvísari og hvatvísari og slæmur í skapinu. Sjálfsmyndin var í raun orðin mjög slæm og þetta versnaði bara og versnaði. Sterarnir höfðu mikil hugbreytandi áhrif á mig og ég sé það núna hvað ákvarðataka mín versnaði mikið eftir að ég byrjaði að nota þá. Svo leiðir eitt af öðru og þegar þú ert búinn að taka ákvörðun um að gera eitt ólöglegt verður það næsta auðveldara. Smám saman fór ég að fara meira upp á kant við lögin og nota önnur efni og leiðin lá hratt niður á við.“

En Hlynur ætlar ekki að gefast upp og ætlar sér að verða lögfræðingur sem berst fyrir mannréttindum fólks.

- Auglýsing -

„Ég gat ekki skilið á sínum tíma að það yrði tilgangur með því sem ég hef farið í gegnum, en nú líður mér svo sannarlega þannig. Það er ekkert betra en að geta hjálpað fólki í erfiðleikum og að manns eigin reynsla geti orðið að styrkleika í þeirri vegferð. Ég er að læra lögfræði og ef til vill verð ég að berjast fyrir mannréttindum fólks sem lögfræðingur eftir einhver ár.“

Hægt er að nálgast allt viðtalið við Hlyn inn á heimasíðu Sölva Tryggvasonar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -