Allar fangageymslur í Reykjavík fylltust í nótt og þurfti lögreglan því að grípa til þess ráðs að vista fólk í fangaklefum lögreglunnar í Hafnarfirði.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Alvarlegast atvikið í nótt var sennilega hnífaárás á Lækjartorgi. Um hálf þrjú í nótt var tilkynnt að þar væru tveir menn að ráðast að tveimur öðrum. Þolendur voru fluttir á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar. Árásarmenn fundust skömmu síðar og gista fangageymslu.
Mikil ölvun var í miðborginni eftir að dagskrá Menningarnætur lauk. Margir voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þar af þrír gista fangageymslur þar sem þeir ollu umferðaróhappi eða slysi.