Karlmaður var í gær úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald en þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í dag. Ástæða gæsluvarðhaldsins mun vera rannsókn lögreglu á hnífstungu í Grafarholti á föstudaginn síðasta en krafan er gerð á grundvelli almannahagsmuna.
Fimm menn voru handteknir í kjölfar árásarinnar en fjórum hefur verið sleppt úr haldi. Þá skoðar lögregla einnig hvort árásin tengist hnífstunguárásinni sem átti sér stað á Litla-Hrauni á fimmtudaginn síðasta. Maðurinn sem varð fyrir árásinni á fimmtudag er af albönskum uppruna og var hann í kjölfarið fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka.