Íbúi í Vogabyggð sá manninn sem lést um helgina borinn út á börum
Nú um helgina lést maður á sextugsaldri og var kona á sama aldri úrskurðuð í gæsluvarðhald stuttu eftir það, sem var svo framlengt til 4. október. Maðurinn lést í húsi í Vogabyggð og sagði íbúi hverfisins frá atvikum sem hann varð vitni að.
„Við vorum bara heima í rólegheitum þegar við sáum allt loga í bláum ljósum og þá var slökkviliðsbíll hérna fyrir utan, þrír sjúkrabílar og alla vega fjórir lögreglubílar og allir á hlaupum,“ sagði íbúinn í samtali við mbl.is
„Ég sá engan fara út í járnum en þegar þriðji sjúkrabíllinn kom voru þeir að fara með mann út á börum og voru að hnoða hann, þeir skiptust á að hnoða hann, við stóðum hérna úti á svölum og það gerðu fleiri íbúar hér líka, til dæmis nágranni minn við hliðina á mér, við vorum að ræða saman hérna meðan á þessu stóð,“ sagði íbúinn um atvikið.