Inga Sæland, félagsmálaráðherra segir í Facebook-færslu á Facebook-síðu Flokks fólksins, frá ansi sérstökum hönnunargalla í Smiðju, nýju húsi Alþingis.
„Snemma í desember sátum við „valkyrjur“ á fimmtu hæð í nýju byggingu Alþingis, Smiðju. Við höfðum óskað eftir fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins. Fráfarandi ríkisstjórn hafði lagt mikla áherslu á það í kosningabaráttunni hvað hún hefði skilað góðu búi og því vorum við undirbúnar fyrir góðar fréttir af stöðu ríkisfjármála. Úti ríkti hálfgert vetrarveður í takt við tímann. Það brá svo við að áður en fundur hófst kom allnokkur titringur á herbergið.“ Þannig hefst færsla Ingu en töldu Valkyrjurnar að um jarðskjálfta væri að ræða. Svo var þó ekki.
„Við skrifuðum það á smá jarðskjálfta en allnokkurn þó og vel fyrir honum fundið. Þegar hins vegar þetta virtist vera samfelld skjálftahrina með reglulegu 15 mínútna bili á milli skjálfta vissum við að eitthvað skrítið væri á ferðinni. Síðan var það staðfest að ekki væri um jarðskjálfta að ræða heldur hönnunargalla á húsinu sem olli því að fundarherbergin á fimmtu hæð titruðu í hvert sinn sem strætisvagnar eða önnur stór ökutæki óku yfir hraðahindrunina í Vonarstræti framan við bygginguna.“
Að lokum sagði Inga, í umfjöllun sinni um hinn vandræðalega hönnunargalla, frá því að titringurinn hafi ollið hræðslu þegar forseti Úkraínu heimsótti Alþingi.
„Til gamans má geta þess að titringur þessi olli töluverðum áhyggjum þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti Ísland og fundaði með utanríkismálanefnd þingsins í sama fundarherbergi. Ekki er öll vitleysan eins.“