Enn ein matarsýking er komin upp eftir þorrablót en í þetta sinn er það eftir blót sem haldið var í Brúarási í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði á laugardaginn. Guðrún Hafsteinsdóttir, formannsefni Sjálfstæðisflokksins sótti blótið.
Samkvæmt Austurfrétt eru Heilbrigðiseftirlit Austurlans (HAUST) og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) að vinna að því að rekja uppruna matarsýkingar sem upp kom á þorrablóti í Brúarási á laugardagskvöld. Alls hafa yfir 20 manns tilkynnt veikindi.
Framkvæmdarstjóri HAUST, Lára Guðmundsdóttir, segir að þorrablótsnefndin hafi í gær tilkynnt um grun um hópsýkingu. Var strax farið til þess aðila sem sá um veitingar á blótinu og sýni tekið af matnum til að setja í ræktun. Tekur það nokkra daga að fá niðurstöður úr þeirri rannsókn.
Þá var einnig farið yfir verkferla og aðstæður hjá veitingaaðilanum en fundað verður með honum aftur í dag.
Í morgun bað HSA fólk um að láta vita ef það kenndi sér meins eftir þorrablótið en það er hægt að gera hjá embætti landlæknis. Tilgangurinn með því er að kanna umfang sýkingarinnar en minnst 25 hafa tilkynnt veikindi. Þá safnar HSA einnig sýnum frá einstaklingum sem verða svo bornar saman við matarsýnin.
Fram kemur í færslu HSA að ekki sé enn vitað til þess að einhver hafi veikst alvarlega en Lára segir í samtali við Austurfrétt að þau tilfelli sem vitað sé um lýsi sér í snörpum en skammvinumm veikindum. Liðið höfðu um 10 til 12 klukkustundir frá borðhaldinu þegar fólk veiktist en að flestir voru búnir að jafna sig um hádegisbil í gær.
Samkvæmt Láru eru veikindin flokkuð sem hópsýking en það snúist ekki um fjölda smitaðra, heldur aðstæður þar sem hætta er á að margir veikist. HSA segir að unnið sé að rakningu í góðri samvinnu við alla sem að málinu koma og er þeim þakkað fyrir ábyrgð og aðstoð.
Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra og formannsefni Sjálfstæðsflokksins var á þorrablótinu í Brúarási en hún var á ferð um Austurlandið yfir helgina til að kynna sín áherslumál fyrir formannskosningarnar en er nú stödd á Suðurlandinu en stíf dagskrá bíður hennar í dag. Birti hún bæði myndskeið og ljósmyndir frá blótinu, meðal annars þar sem hún stóð með Dagnýju Ýri Stefánsdóttur, sveitarstjóra Múlaþings, á story á Instagram. Ekki er vitað hvort hún hafi veikst eftir blótið en miðað við myndefnið sem hún hefur verið að birta í story á Instagram, hefur hún haft í nógu að snúast um helgina og því líklegt að hún hafi sloppið vel frá blótinu.
Ekki náðist í Guðrúnu við vinnslu fréttarinnar.