Þriðjudagur 15. október, 2024
7.4 C
Reykjavik

Hópur íbúa vill að sveitarfélögin slíti viðskiptum við Rapyd: „Erum hæstánægð með þessi viðbrögð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hópur íbúa í 20 sveitarfélögum á Íslandi kallar eftir því að sveitarfélögin á Íslandi slíti viðskiptum við greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd, meðal annars vegna opinbers stuðnings Alþjóðlegs forstjóra fyrirtækisins við stríðsrekstur Ísraels á Gaza. Strax hafa fjögur sveitarfélög brugðist við.

Fulltrúar hópsins öfluðu upplýsinga um færsluþjónustu hjá öllum sveitarfélögum á Íslandi á vormánuðum 2024. Samkvæmt þeim upplýsingum eru að minnsta kosti 27 sveitarfélög á Íslandi í viðskiptum við Rapyd, sem þýðir að þegar íbúar greiða fyrir þjónustu í sínu nærsamfélagi með greiðslukorti, svo sem aðgang að sundlaugum eða bókasafnskort, renna gjöld til Rapyd. Fjársýslan fyrir hönd ríkisins er með samning við Rapyd um færsluþjónustu hjá A-hluta stofnunum ríkisins. Sveitarfélögin eru ekki A-hluta stofnanir og eru því ekki bundin þeim samningi. Þeim er því frjálst að skipta við annað greiðslumiðlunarfyrirtæki en Rapyd.

Rapyd Europe starfar á Íslandi en er ísraelskt fyrirtæki eftir kaup Rapyd á Valitor árið 2022. Alþjóðlegur forstjóri fyrirtækisins, Arik Shtilman, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við stríðsrekstur Ísraels og fyrirtækið hefur tekið beinan þátt í stríðsrekstrinum með tæknilegum úrlausnum.

Í grein sem hópurinn birti á Vísi færa höfundar rök fyrir því að sveitarfélögin á Íslandi ættu alls ekki að stunda viðskipti við Rapyd. Fyrir því eru bæði sterk lagaleg og siðferðisleg rök.

Hér má sjá rök hópsins:

„Landrán Ísraels í Palestínu er skýlaust brot á alþjóðalögum líkt og úrskurður Alþjóðadómstólsins frá því í júlí staðfestir. Rapyd starfar í landtökubyggðum Ísraels á Vesturbakkanum og er því þátttakandi í brotum á alþjóðalögum og hagnast á ólöglegu hernámi og landtöku Ísraels. Opinberir aðilar líkt og sveitarfélögin geta ekki verið í viðskiptasambandi við slíkt fyrirtæki. Það stríðir bæði gegn lagalegri og siðferðislegri skyldu íslenska ríkisins, opinberri stefnu ríkisins sem og mannréttindastefnu sveitarfélaganna. Stjórnvöld víðsvegar um Evrópu hafa opinberlega varað evrópsk fyrirtæki við að eiga viðskipti á hernumdu svæðunum í Palestínu enda gætu slík viðskipti varðað meðsekt í brotum á alþjóðalögum. Þær viðvaranir eiga líka við á Íslandi. Höfundar greinarinnar kalla eftir því að sveitarfélög á Íslandi íhugi stöðu sína hvað þetta varðar og slíti viðskiptasambandi sínu við Rapyd.“

- Auglýsing -

Samkvæmt upplýsingum greinarhöfunda eru eftirfarandi 27 sveitarfélög í viðskiptum við Rapyd:

  • Akureyrarbær
  • Bláskógabyggð
  • Bolungarvíkurkaupstaður
  • Dalvík
  • Eyjafjarðarsveit
  • Fjarðabyggð
  • Garðabær
  • Grímsnes- og Grafningshreppur
  • Grundarfjarðarbær
  • Hafnarfjarðarbær
  • Hrunamannahreppur
  • Húnabyggð
  • Hveragerðisbær
  • Hörgársveit
  • Ísafjarðarbær
  • Kaldrananeshreppur
  • Kópavogur
  • Múlaþing
  • Norðurþing
  • Rangárþing ytra
  • Seltjarnarnesbær
  • Skagafjörður
  • Skagaströnd
  • Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Strandabyggð
  • Suðurnesjabær
  • Vestmannaeyjabær

Fjögur sveitarfélög brugðust strax við

Mannlíf heyrði í Hrönn G. Gunnarsdóttur, fyrir hönd hópsins og spurði hana út í viðbrögðin við kröfu þeirra.

- Auglýsing -

„Við höfum fengið viðbrögð nú þegar frá fjórum sveitarfélögum. Við fengum það staðfest að Þingeyjarsveit er búin að skipta og fulltrúi frá Suðurnesjabæ hafði samband við okkar manneskju þar og tilkynnti að Suðurnesjabær væri hættur viðskiptum við Rapyd. Eins var haft samband við okkar manneskju í Bolungarvík, en þar á að taka málið á dagskrá sveitarstjórnar fljótlega. Við heyrðum síðan frá tveimur bæjarfulltrúum í Garðabæ sem eru búnir að óska eftir því að þetta verði tekið á dagskrá í bæjarstjórn þar. Einnig vitum við að þetta mál hefur verið til umræðu innan bæjarstjórnar á Akureyri.“

Segir Hrönn hópinn vera mjög ánægð með viðbrögðin.

„Við erum hæstánægð með þessi viðbrögð. Framundan hjá okkur núna er að setja okkur aftur í samband við þessi sveitarfélög og hvetja þau til að skoða þessi mál hjá sér. Mörg þeirra eru með það litla veltu að þau ættu að geta skipt án þess að fara í útboð. Við munum síðan beina sjónum sérstaklega að stærri sveitarfélögunum, s.s. Hafnarfjarðarbæ og Akureyrarbæ. Þar eru málin ef til vill aðeins flóknari en hjá minni sveitarfélögunum.“

Að lokum vill Hrönn taka eftirfarandi fram:

„Mig langar að nefna það að á bakvið þessa grein er ótrúlega margt fólk sem stendur mjög staðfast með þessum málstað og ber þetta mál áfram í sinni heimabyggð.“ 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -