Lögreglu barst í gærkvöldi ábending um aðila sem var í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur. Viðkomandi hafði ítrekað ónáðað fólk en eftir samtal við lögreglu gekk hann leiðar sinnar. Í hverfi 103 var ölvuðum aðila vísað út af veitingastað eftir að hafa látið illa og í hverfi 108 hafði lögregla afskipti af mjög ósáttum viðskiptavini. Lögreglu hafði borist ábending um manninn og að hugsanleg slagsmál væru í uppsiglingu. Málið leystist með tiltali.
Síðar um kvöldið veittust fjórir til fimm menn að ungum manni. Einn ógnaði manninum með hníf og höfðu þeir af honum reiðhjól sem þeir svo skemmdu. Að því loknu yfirgáfu mennirnir vettvang og voru á bak og burt þegar lögregla kom. Málið er í rannsókn. Knapi féll af baki síðdegis í gær og hlaut opið beinbrot. Viðkomandi var fluttur á bráðamóttöku þar sem hann fékk aðhlynningu. Þá sinnti lögregla öðrum minniháttar málum í nótt en samkvæmt dagbók lögreglu var nóttin heldur annasöm.