Hörður Jón Fossberg Pétursson er látinn en var 93 ára gamall. Mbl.is greinir frá andlátinu.
Hörður fæddist árið 1931 í Reykjavík og ólst upp í Austurbænum og gekk í Austurbæjarskóla. Hörður lærði húsgagnabólstrun og lauk hann náminu árið 1955 eftir tvö ár í Iðnskólanum. Ári síðar opnaði Hörður svo eigin húsgagnabólstrunarverslun og rak hann fyrirtækið til ársins 2003 en árið 1972 hóf fyrirtækið einnig að selja húsgögn. Hörður átti sinn skerf í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpssögu en Bólstrun Harðar átti fyrstu leiknu sjónvarpsauglýsinguna sem birtist á RÚV.
Hörður var mikill knattspyrnumaður og var fyrsti formaður knattspyrnudeildar Fram auk þess að hann lék með liðinu um tíma. Þá skoraði hann fyrsta markið í bikarkeppni sem haldin var á Íslandi.
Hörður lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.