„Þau stjórna efnaskiptum í líkamanum, hafa áhrif á beinvöxt og þroska, þau hafa áhrif aðgreiningu kynja í móðurkviði. Þau hafa áhrif á kyneinkenni, jafnvel kynvitund. Þau hafa áhrif á þroska heila í móðurkviði og svona mætti lengi telja“ segir Una Emilsdóttir, sérnámslæknir í umhverfislæknisfræði í þætti Kveiks.
Nýlegar rannsóknir á styrk nokkurra hormónaraskandi efna í Íslendingum sýna að þeir eru álíka útsettir fyrir þeim og aðrir Vesturlandabúar – til dæmis svokölluðum PFAS-efnum. Það eru manngerð þrávirk efni sem hrinda frá sér vatni og fitu. Aðeins lítill hluti þeirra hefur verið bannaður.
Í þættinum kemur fram að sumir telji hormónaraskandi efni í ýmsum varningi ógna framtíð mannkynsins. Mikil óvissa hefur ríkt um áhrif þeirra og regluverkið á erfitt með að taka á þeim. Deilt er áratugum saman um hvort efni skuli leyfð eða bönnuð og á meðan þykknar efnasúpan í kringum okkur.
Eftir seinni heimsstyrjöld skall flóðbylgja á almenningi á Vesturlöndum þegar á markað komu ýmis undraefni. Á innan við öld hefur efnaframleiðsla í heiminum nær þúsundfaldast og enn eykst magnið á hverju ári. Svokölluð hormónaraskandi efni valda sérstökum áhyggjum.
Rannsóknir benda til þess að sæðisgæðum hafi hnignað skarpt á Vesturlöndum síðustu áratugi og sá möguleiki hefur verið nefndur að ef ekkert lát verður á þróuninni verði næstu kynslóðir hugsanlega ófærar um að eignast eigin börn, nema með tæknilegri aðstoð.
Í óbirtri rannsókn Rannveigar Óskar Jónsdóttur fyrir ári var styrkur nokkurra PFAS-efna mældur í 140 Íslendingum. Í 7,5 prósentum kvenna á barneignaraldri var styrkurinn yfir hættumörkum fyrir fóstur.
Milljón dauðsfalla á hverju ári
Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Umhverfisstofnun Evrópu og Norræna ráðherraráðið eru meðal þeirra sem hafa reglulega sent frá sér skýrslur um hættuna af hormónaraskandi efnum.
Alþjóðasamtök fæðinga- og kvensjúkdómalækna segja þau eiga þátt í milljónum dauðsfalla á ári hverju og kosta samfélagið milljarða dollara. Verið sé að drekkja heiminum í óprófuðum efnum.
Una segir efnin líkjast hormónum og bindast sömu viðtökum.
„Þau annað hvort hvetja eða hindra starfsemi eðlilegra hormóna. Ef maður fær hugmynd um það hvað hormón gera í líkamanum og hversu mikilvægum hlutverkum þau gegna þá veit maður að maður ætti kannski að hafa ástæðu til að óttast hormónatruflandi áhrif,“ segir hún.
Ýmsar rannsóknir síðustu áratugi hafa bent til þess að það sé fylgni á milli útsetningar fyrir hormónaspillandi efnum og ótal heilsufarsvandamála, svo sem krabbameins, sykursýki, skjaldkirtilsvandamála, offitu, ófrjósemi, ADHD, einhverfu, frávika á kynfærum drengja, fjölblöðrueggjastokkaheilkennis, endómetríósu, fósturmissis, skerts vitsmunaþroska og lágs testósteróns. Hinsvegar er mun minna um að orskatengsl þarna á milli hafi verið staðfest. Rannsóknunum ber heldur ekki alltaf saman.
Það er staðreynd að vestrænir karlar í dag mælast að meðaltali með helmingi færri sprækar sáðfrumur en afar þeirra gerðu, en breyturnar að baki því geta verið fjölmargar.
Fræðimenn eru langt frá því að vera sammála. Sumir hafa með tímanum styrkst í trú sinni á að hormónaraskandi efni hafi mikil og alvarleg áhrif. Aðrir eru komnir á þá skoðun að of mikil áhersla hafi verið lögð á þátt hormónaspilla og of miklum fjármunum sé varið til rannsókna á þeim. Nærtækara væri að horfa til dæmis á þátt vestræns mataræðis og stóraukinnar lyfjanotkunar.
Nánar er fjallað um þetta mál í þætti Kveiks sem sýndur var á RÚV í gær.