Lögregla handtók í gærkvöldi karlmann sem hafði bæði hótað starfsfólki fyrirtækis og óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Samkvæmt dagbók lögreglu hefur dólgurinn ítrekað komið við sögu lögreglu vegna alls kyns brota.
Fyrr um kvöldið barst lögreglu tilkynning um þjófnað á farsíma en nú er beðið eftir gögnum úr myndavélakerfi vegna þessa.
Starfsfólk veitingastaðar óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem var ofurölvi. Skömmu síðar sá maðurinn að sér og hélt leiðar sinnar. Einn var vistaður í fangageymslu vegna hótana en sá var í annarlegu ástandi. Þá handtók lögregla ökumann sem reyndist vera undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.