Hótelstarfsmenn í miðbæ Reykjavíkur þurftu að óska eftir aðstoð lögreglu síðdegis í gær vegna einstaklings á hótelinu. Maðurinn, sem var gestur á hótelinu, hafði brotið rúðu og var einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Fyrr um daginn kom lögregla manni til bjargar í hverfi 108. Sá hafði legið í grasbala og var ósjalfbjarga sökum ölvunar. Lögregla ók manninum til síns heima.
Tvö útköll voru vegna þjófnaðar, hið fyrra átti sér stað í Smáralind en seinna í Hafnarfirði. Í Laugardal hringdi íbúi á lögreglu eftir að brotist hafði verið inn hjá viðkomandi. Lögregla rannsakar málið. Þá sinnti lögregla hefðbundnu umferðareftirliti og stöðvaði ökumann í Hlíðunum sem er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.