Í dag verður haldið hraðskákmót til minningar um Hrafn Jökulsson, skákfrömuðar og fyrrum fjölmiðlamanns sem lést nýverið eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Eftirfarandi er fréttatilkynning frá mótshöldurum:
Í dag, miðvikudaginn 12.október kl. 16.00 verður haldið stórglæsilegt hraðskákmót í Norðurturni Smáralindar. Rými verður fyrir 100 manns og verðlaunin verða stórglæsileg, 100.000 fyrir fyrsta sæti, 80.000 fyrir annað sæti og 20.000 fyrir þriðja sætið auk lítilla verðlauna í kvennaflokki, barna og unglingaflokki og fyrir 60 ára og eldri. Þátttökugjald er 2000 kr fyrir 18 ára og eldri en frítt fyrir börn og unglinga.
Mótið verður haldið til minningar um Hrafn Jökulsson, hins mikla skákfrömuðs og athafnamanns sem lést þann 17.september eftir baráttu við krabbamein. Það verður posi á staðnum þar sem fólk getur styrkt börn Hrafns með beinum hætti auk þess sem ágóði mótsins eftir kostnað rennur til þeirra. Íslandsmót skákfélaga verður haldið um helgina svo þetta verður góð upphitun fyrir þá sem hyggjast taka þátt í því. Mótið fer fram í Norðurturni Smáralindar fyrir framan XO sem er aðalstyrktaraðili mótsins en auk þeirra styrkja mörg fyrirtæki í Smáralind og nágrenni mótið með minni áheitum.
Tefldar verða 5 umferðir með 3 mínútur á keppanda en svo bætast við 2 sekúndur á hvern leik. Ef margir verða jafnir efstir verður svo bráðabani til að útkljá sigurvegara.
Reiknað er með góðri stemningu og sterku og spennandi móti til að heiðra minningu Hrafns. Hann var einmitt gríðarlega duglegur að halda mót sem þessi og þá gjarnan í stærri kantinum. Hann sá alltaf til þess að leikgleðin og drengskapurinn væri í fyrirrúmi svo að skáklistin fengi að njóta sín sem best. Eitt hans helsta hugðarefni í gegnum æviskeiðið var einmitt að efla skákina og að auka vinsældir hennar, bæði hérlendis og víðar. Hægt er að skrá sig í gegnum hlekk á netinu en það verður rými fyrir 100 manns svo það verður líka opið fyrir skráningar á mótstað á meðan pláss leyfir.