Laugardagur 4. janúar, 2025
-2.2 C
Reykjavik

Hrafn Jökulsson tvívegis barinn alvarlega á Landspítalanum: „Hann ætlaði að drepa mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hnefar hans voru eins og stunguskólfur. Ég hef aldrei séð slíka hnefa og þetta var enginn venjulegur beljaki sem var ákveðinn í því að drepa mig,“ segir Hrafn Jökulsson rithöfundur í samtali við Mannlíf. Hann hefur kært til lögreglu tvær alvarlegar líkamsárásir sem hann varð nýverið fyrir á Landspítalanum.

Hrafn hefur ítekað verið nauðungarvistaður á geðdeild spítalans á árinu og mætir hann fyrir Landsrétt í dag til að tala máli sínu um lausn frá nauðungarvistuninni. Þann 9. nóvember réðst annar vistmaður geðdeildar tvívegis á rithöfundinn, með þeim afleiðingum að Hrafn rotaðist í fyrra skiptið og í síðasti árásinni var honum bjargað af starfsmanni deildarinnar. „Þetta voru mjög grófar líkamsárásir, í tvígang. Í seinna skiptið kastaði starfsmaður sér fyrir höggið, líkt og sannur lífvörður Bandaríkjaforseta, en það var heljarhögg,“ segir Hrafn.

„Hann fékk næði til að undirbúa sig fyrir báðar árásirnar. Ég furða mig á því að það virðast engir verkferlar til eða viðbragðsáætlun til að bregðast við eftir fyrri árásina, sem var mjög alvarleg. Ég hef aldrei verið steinrotaður áður og ég skil ekki hvers vegna maðurinn var ekki færður eitthvað annað. Það er guðs mildi að hann náði ekki að klára þriðju árásina, þar sem aumingjans maðurinn hafði bitið það í sig að koma mér af jörðinni,“ segir Hrafn.

Aðspurður um tilfinningar sínar og líðan eftir árásirnar segist Hrafn hafa það ágætt og allan tímann hafi hann ekki verið óttasleginn. „Ég tel mig þokkalega heppinn. Ég er náttúrlega svo klikkaður að ég er aldrei hræddur um líf mitt. Það er í Guðs höndum, míns frelsara. Ég skrifa það alfarið á stjórnendur spítalans og yfirmenn heilbrigðiskerfisins að skapa þær aðstæður að svona hættulegir hlutir gerast. Atburðarrásin hefði ekki þurft að vera nema örlítið önnur, þá hefði orðið enn eitt dauðsfallið á geðdeild Landspítalans,“ segir Hrafn.

- Auglýsing -

 

Hér fyrir neðan má sjá kæru Hrafn til lögreglunnar vegna árásanna á Landspítalanum. Undir hana ritar Reimar Pálsson, lögmaður rithöfundarins:

Kæra til lögreglu

- Auglýsing -

Umbjóðandi minn, Hrafn Jökulsson, kt. 011165-3709, Krossnesi, Árneshreppi, hefur falið mér að óska eftir lögreglurannsókn með vísan til 3. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á líkamsárás sem hann varð fyrir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, deild 32C, þann 9. nóvember sl.

Umbjóðandi minn sætti nauðungarvistun á grundvelli lögræðislaga á sjúkrahúsinu í greint skipti og atvik munu hafa verið þau að annar sjúklingur hafi ráðist að honum tvívegis með stuttu millibili og veitt honum áverka, m.a. á höfði. Umbjóðandi minn hafi rotast og orðið fyrir miklu áfalli í tengslum við þennan atburð.

Umbjóðandi minn beinir kæru þessari að stjórnendum Landspítalans. Umbjóðandi hafi sætt nauðungarvistun á spítalanum og brýnt var að stjórnendur spítalans tækju allar viðhlítandi ráðstafanir til að tryggja öryggi hans. Hafi það verið brýnt því aðrir sjúklingar, sem hann hafi verið vistaður með, hafi einnig sætt nauðungarvistun og sumir hverjir væntanlega á þeirri forsendu að þeir kynnu að reynast öðrum mönnum hættilegir. Þetta hafi stjórnendum spítalans verið kunnugt en samt hafi þeir með öllu vanrækt að setja viðhlítandi öryggisreglur um starfsemi deildarinnar og/eða tryggt að þeim væri fylgt eftir með nægjanlegum fjölda öryggisvarða og skipulögðum vinnubrögðum. Ekki síst hafi þetta átt við eftir fyrri atlöguna að umbjóðanda mínum, en óskiljanlegt er að ekki hafi tekist að afstýra þeirri seinni.

Umbjóðandi minn telur vanrækslu stjórnenda spítalans í þessum efnum kunna að vera stórfellda og refsiverða, sbr. t.d. 132. gr., 141. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 24. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og 9.-13. gr. reglugerðar nr. 786/2007, en sú reglugerð mælir m.a. fyrir um faglegar lágmarkskröfur við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Umbjóðandi minn gerir því kröfu um að málið verði tekið til rannsóknar. Hann tekur þó fram að hann óskar þess sérstaklega að rannsókn verði ekki beint að þeim sem réðist að honum, enda sé hann ósakhæfur,. Eins óskar hann þess að rannsókn verði ekki beint að þeim almennu starfsmönnum deildarinnar sem voru að störfum í greint sinn, enda telur hann aðbúnað, öryggi og mönnun hafa verið ófullnægjandi. Á því beri stjórnendur ábyrgð en almennum starfsmönnum verði ekki kennt um.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -