Það merki sem tunglið er statt í þegar við fæðumst er afar mikilvægt í stjörnuspeki.
Tunglið stendur fyrir innra sjálf okkar, tilfinningar og þrár. Það segir til um hvar og hvernig okkur líður best. Það segir mikið um tilfinningalíf okkar, þægindaramma og það hvenær við finnum fyrir öryggi.
Tunglið táknar innsæi okkar og hefur innhverfa orku. Það er innra barn okkar og gefur til kynna hvar við erum viðkvæm. Tunglmerki okkar getur sagt til um hvernig við erum þegar við erum algjörlega berskjölduð og enginn annar í kringum okkur. Þegar allir varnarveggir falla.
Tunglið er hjartað á móti huga sólarinnar – það er órökrænt. Sumir virðast stjórnast jafnvel meira af tungli en sól, en það á sérstaklega við ef tunglið er í vatnsmerki (Krabba, Sporðdreka eða Fiskum), eða ef það er í sterkri samstöðu við aðra mikilvæga punkta í stjörnukorti viðkomandi.
En hvað segir tunglmerkið þitt um þig?
Hrútur
Fólk sem er með tungl í merki Hrútsins er óþolinmæðin, ákefðin og hvatvísin uppmáluð. Það lifir í augnablikum og leiðist mjög að bíða. Tilfinningaviðbrögð þess geta verið sterk, en að sama skapi jafnar það sig yfirleitt hratt.
Einstaklingar með tungl í Hrúti eru ástríðufullir og stjórnast oft af ýktum tilfinningum og löngunum. Vilji þeir eitthvað verða þeir að fá það strax og þeim leiðist að nálgast tilfinningamál eins og kettir í kringum heitan graut. Þeir kunna það hreinlega ekki. Allt þarf að vera uppi á borðinu.
Tunglhrútar eru stundum sagðir dálítið barnalegir. Það er þó aðallega vegna þess að sterkar staðsetningar Hrúts í stjörnukortum fólks gerir það að verkum að það er yfirleitt í sterkri tengingu við sitt innra barn. Þeim hugnast ekki feluleikur og þeir segja alltaf það sem þeir meina – oft án þess að hugsa það til enda. Þeir geta verið viðkvæmir og eiga það til að taka hlutum afar persónulega. Sjálfstraust þeirra stendur ekki alltaf eins styrkum fótum og það lítur út fyrir að gera og skapið getur verið sveiflukennt.
Fólk með Hrútatungl er mjög sjálfstætt og á það til að vera dálítið villt og óstýrilátt. Það er frumlegt og ber með sér mikinn kraft. Það þarf að vera á ferð og flugi til þess að líða vel. Það er traust, stendur styrkum fótum við hlið sinna nánustu og er tilbúið til að berjast fyrir þá sem þeim þykir vænt um með kjafti og klóm.
Það er mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að þeirra nánasta fólk kunni að meta hreinskilni þeirra, hvatvísi og einlægni. Þeir geta átt falleg sambönd við vini og maka sem leyfa þeim að vera þeir sjálfir, veita þeim frelsi og skilja villibarnið í þeim.
Naut
Fólk sem hefur tungl í Nauti er jarðtengt og þráir öryggi og jafnvægi. Það vill að heimili þess sé griðastaður þar sem hægt er að taka því rólega og kúpla sig út úr hraða samfélagsins. Öll skilningarvit þessa fólks eru virk og nýtt til hins ýtrasta – það elskar að njóta lífsins og lystisemda þess.
Þessir einstaklingar hafa gjarnan næmt fegurðarskyn og vilja hvort tveggja að heimili þeirra sé fallegt og notalegt. Þeir eru traustir og standa við það sem þeir segja.
Nautatungl eru þrjósk og það er ekki sniðugt að reyna að ýta þeim út í óvissu eða eitthvað sem þau eru ekki sátt við. Þeim getur verið hætt við að festast í hjólförum og þau streitast oft á móti breytingum.
Það skiptir þau máli að búa ekki við skort – þau verða að eiga nóg í sig og á til þess að vera alveg róleg. Þetta fólk fer því yfirleitt nokkuð vel með peninga.
Fólki með tungl í Nauti getur reynst erfitt að eiga við átök og óstýrilátar tilfinningar. Reyndar er þeim þvert um geð að bera tilfinningar sínar á torg og það er þeim erfitt að leyfa öðrum að sjá sig gráta. Þessir einstaklingar eru samt hlýir og yfirleitt frekar rómantískir. Það er mýkt og fegurð yfir þessu fólki og það hefur róandi nærveru. Flestum þykir gott að vera í kringum það. Það er þessu fólki sérlega mikilvægt að þeirra nánustu segi þeim ávallt sannleikann og séu trausts þeirra verðir. Makar þeirra verða að vera þeim trúir – það getur verið afar erfitt að eiga við særð Nautatungl og enn erfiðara fyrir þau sjálf að takast á við sársaukann.
Þetta eru einstaklega trygglyndir vinir og makar. Nautatungl endast gjarnan lengi í samböndum og vinátta þeirra getur enst ævina á enda – ef þau eru ekki svikin.
Tvíburi
Fólk sem hefur tunglið sitt í Tvíbura er mjög frjálst í anda. Það þarf á fjölbreytileika að halda og líkar stöðnun afar illa. Þetta er lifandi fólk sem elskar að læra og upplifa eitthvað nýtt. Þetta fólk er forvitið og áhugavert og á auðvelt með að heilla aðra.
Þessir einstaklingar kunna vel við að nota tíma sinn til að læra nýja hluti eða kafa djúpt ofan í hugðarefni sín. Þetta eru rannsakendur að eðlisfari. Það getur verið dálítil ofvirkni í Tvíburatunglum – þau eru gjarnan á fleygiferð, eiga erfitt með að staldra við og hugur þeirra er á sífelldum snúningi. Þeim getur verið hætt við miklum áhyggjum og óróleika. Heima fyrir geta þau verið dálítið skapstygg og uppstökk, þrátt fyrir að virðast uppfull af gleði og húmor út á við. Það hefur oftast með innri óróa og uppsafnaða orku að gera.
Fólk með Tvíburatungl þarf yfirleitt mikla örvun í daglegu lífi. Þeim leiðist afar auðveldlega og regla getur reynst þeim þrautin þyngri. Heima fyrir fær það oft útrás með framkvæmdum og stórum breytingum. Ákvarðanir og að halda sig við hluti er yfirleitt ekki sterka hlið þeirra og þetta fólk á það til að vera sveiflukennt og rótlaust í afstöðu og ákvörðunum. Á móti er það einstaklega opið fyrir nýjum hugmyndum og skoðunum annarra.
Fólki með tungl í Tvíbura getur reynst erfitt að tjá og skilja tilfinningar sínar, sem og að takast á við tilfinningar sinna nánustu.
Þetta er félagslynt fólk sem líkar vel að vera í miklum samskiptum við aðra. Þessir einstaklingar eru gjarnan mjög klárir og þurfa sína vitsmunalegu örvun – til að mynda með líflegum rökræðum. Fólk sem á í rómantísku sambandi við þá verður að vera tilbúið til að takast á um hin ýmsu málefni, en Tvíburatunglum gengur ekki vel að eiga í nánu sambandi við fólk sem er fast fyrir og ekki til í að skoða mál frá öllum hliðum.
Krabbi
Tungl í merki Krabbans er mjög náttúruleg tunglstaða. Það er vegna þess að Krabbinn stjórnast af tunglinu, sem þýðir meðal annars það að stjörnumerkið tekur til sín sterk áhrif frá tunglinu og einkennum þess.
Þetta er afskaplega tilfinningarík staða og fólk með tungl í Krabba ber þess sannarlega merki. Þetta fólk er tilfinninganæmt, hlýtt og býr yfir ríku innsæi. Það er yfirleitt friðsælt og kærir sig síður um átök. Það þráir öryggi og nánd í nánum samskiptum. Þetta fólk er afar næmt á tilfinningar annarra og býr yfir miklum skilningi og ástúð. Á móti eru einstaklingar með tungl í Krabba auðsærðir og taka hluti afar persónulega. Þetta er því hörundsárt fólk sem á það til að hörfa inn í skel ef þeir upplifa ógn.
Fólk með Krabbatungl er traust og gefur endalaust af sér til þeirra sem þeim þykir vænt um. Þeim er stundum tekið sem sjálfsögðum hlut. Ef það gerist ítrekað eða of lengi geta tilfinningar og hegðun fólks með þetta tungl orðið myrk og það orðið stjórnsamt og langrækið. Þetta fólk á líka sérlega erfitt með að gleyma, sérstaklega sárindum og því sem aðrir gera á þeirra hlut. Það á oftar en ekki erfitt með að horfa hlutlægt á mál og þeim getur reynst erfitt að láta ekki tilfinningar sínar og skap hlaupa með sig í gönur.
Einstaklingar með tungl í Krabba búa yfir mikilli tilfinningagreind og þrá að fara á dýptina í samskiptum – yfirborðskennd samskipti eru þeim þvert um geð.
Heimilið er þessu fólki mikilvægt og það eyðir dágóðum tíma í hreiðri sínu, sem þeim þykir skipta öllu máli að sé notalegt og öruggt. Það vill alla jafna frekar eiga indælt kvöld heima fyrir, frekar en að fara út að skemmta sér í hópi fólks. Orka þess er viðkvæm og orkubúskapurinn tæmist auðveldlega í miklu áreiti. Þetta fólk hefur oft skemmtilegt og óvenjulegt skopskyn, sem flestir kunna að meta.
Ljón
Fólk með tungl í Ljóni er gjarnan skapandi og hugmyndaríkt. Það er traust og í þeirra huga er afar mikilvægt að passa upp á þá sem þeim þykir vænt um.
Einstaklingar með tungl í Ljóni eru ekki endilega úthverfir persónuleikar öllum stundum, en innst inni vilja þeir leika aðalhlutverkið og fá athygli. Þetta getur átt vel við í rómantískum samböndum og í heimilislífinu. Börn með Ljónatungl eru ekki endilega alltaf á útopnu en þau þurfa á athygli, hrósi og félagsskap að halda. Eins og með Ljónasólir og rísandi Ljón þarf þetta fólk að fá að hrista makkann sinn og láta dást að sér. Þetta eru oft góðir leiðtogar sem eiga auðvelt með að heilla aðra með sér. Réttlæti er þeim mikilvægt.
Þetta fólk hefur sterka tilhneigingu til að vera þrjóskt og stjórnsamt. Í vinahópum eru þetta yfirleitt einstaklingarnir sem taka stjórnina og skipuleggja. Þeir vilja skemmta öðrum og verða stundum dálitlir trúðar – en þeir búa yfir góðu og lifandi skopskyni. Þessir einstaklingar eru afar stoltir og bregðast illa við sé stolt þeirra sært á einhvern hátt. Þeim er mjög annt um almenningsálit.
Fólk með tungl í Ljóni getur verið dálítið dramatískt. Ef þau móðgast, reiðast eða verða sár geta viðbrögðin orðið á pari við ástríðufullan og ýktan leikþátt.
Þetta fólk er traust og heiðarlegt. Þeim er líka mjög annt um að aðrir komi fram við það af heiðarleika og eiga afar erfitt með ósannindi og brot á trausti.
Meyja
Þeir sem hafa tungl í merki Meyjunnar eru jarðbundnir einstaklingar sem búa yfir ákveðnu jafnvægi út á við. Þeim er mjög annt um röð og reglu og hafa þörf fyrir að hafa stjórn á aðstæðum. Þetta fólk kann yfirleitt vel við að sinna hinum ýmsu verkefnum, sérstaklega smáatriðum sem krefjast nákvæmni, því af nákvæmni á það nóg.
Tunglmeyjur eru hjálpsamar og fá mikið út úr því að aðstoða aðra – sérstaklega sína nánustu. Það eru fá verkefni sem ekki væri hægt að biðja þær um aðstoð með. Þær gera ávallt sitt allra besta. Þær bregðast hins vegar illa við sé þeim tekið sem sjálfsögðum hlut. Það gerist rólega, en þær verða með tímanum óánægðar, pirraðar og geta farið að nöldra ótæpilega og setja út á aðra.
Finni þær hins vegar að þær séu metnar að verðleikum líður þeim vel.
Fólk með tungl í Meyju getur brugðist illa við álagi og streitu. Það hefur meðfædda tilhneigingu til mikilla áhyggja og ofhugsunar. Þar af leiðandi líður þeim best með lífið í jafnvægi og rólegheitum. Þetta fólk þekkir gjarnan sín mörk og forðast helst pressu og of mikið áreiti. Það er yfirleitt í afar sterkum tengslum við líkama sinn og andlega heilsu. Fólk með tungl í Meyju er að eðlisfari kvíðið og getur verið kvartgjarnt. Þeim líkar afar illa þegar skipulag og fyrir fram ákveðnir hlutir ganga ekki eftir og þeim hugnast ekki fólk sem kollvarpar áætlunum og ákvörðunum stöðugt. Það er oft með slæmt sjálfstraust og gagnrýnir sjálft sig allt of harkalega.
Það er mikilvægt fyrir þetta fólk að búa við öryggi, reglu og það skiptir miklu máli að þeim finnist það gera gagn. Það sýnir umhyggju og ást í gegnum litlu hlutina – þeim er yfirleitt ekki tamt að vera með stórar rómantískar yfirlýsingar eða að sýna ástríðu innan um fjölda fólks.
Vog
Fólk með Vogartungl er yfirleitt listrænt, heillandi og friðsælt fólk. Það á auðvelt með félagsleg samskipti og býr yfir miklum hæfileikum í samskiptum. Þetta geta verið góðir sáttasemjarar, því það á auðvelt með að setja sig í spor annarra og skoða mál frá öllum hliðum.
Það skiptir þetta fólk miklu máli að eiga fallegt og huggulegt heimili. Það vill gjarnan eiga fallega hluti og hefur gott auga fyrir hönnun.
Einstaklingar með tungl í Vog hafa mikla þörf fyrir náin sambönd. Þeim finnst þeir stundum ekki fullkomnaðir nema þeir séu í langtíma ástarsambandi. Þetta getur gert það að verkum að fólk með Vogartungl sæki í sambönd frá ungum aldri og sé lítið sem ekkert einhleypt í gegnum lífið. Sé það ekki varkárt getur það orsakað það að þetta fólk týni sjálfu sér, verði meðvirkt og gleymi að hlúa að sjálfu sér og eigin hugðarefnum. Þeim getur hætt við að sameinast maka sínum um of.
Þessi ásókn Vogartungla í langtíma sambönd hefur að gera með þrá þeirra fyrir samveru, samskipti og nánd. Þau elska að skiptast á hugmyndum og skoðunum, fara yfir mál frá öllum hliðum og eiga skemmtilegar rökræður. Þeim er eðlislægt að koma auga á galla og hafa mikla þörf fyrir að laga það sem þeim þykir vera að, sérstaklega þegar kemur að samböndum. Þau þrá jafnvægi umfram allt.
Fólk með tungl í Vog býr yfir miklum sjarma, fágun og geta verið dálitlir daðrarar. Þetta fólk er yfirleitt félagslynt. Það þarf á mikilli vitsmunalegri örvun að halda og blómstrar í líflegum rökræðum, enda er þetta klárt og hugsandi fólk sem fer vel með hið talaða orð. Vogartungl eru rannsakandi, forvitin og greinandi frá náttúrunnar hendi.
Sporðdreki
Fólk sem hefur tungl í Sporðdreka býr yfir djúpu innsæi og er dálítið dularfullt. Það er mikilvægt fyrir þessa einstaklinga að fara á dýptina í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur, sem og í samskiptum við aðra. Þeir eru mjög ástríðufullir og leita sífellt í tilfinningalega ákefð og dýpt.
Tungldrekar eru tortryggnir að eðlisfari og sé traust þeirra brotið er afar erfitt að vinna það til baka. Þeir gleyma engu og séu þeir særðir finna þeir til með hverri taug. Þeir eiga oft erfitt með að fyrirgefa.
Það er stundum dálítið myrkur yfir þessum einstaklingum og þeir þurfa að fara varlega ef myrkrið á ekki að gleypa þá. Þeir verða að muna eftir og sjá alla ljósu liti lífsins.
Þetta eru gjarnan djúpvitrir einstaklingar og dálitlir einfarar. Innsæi þeirra er einstakt – það getur virst sem þeir sjái í gegnum þá sem þeir eiga í samskiptum við og viti öll þeirra leyndarmál. Af leyndarmálum eiga tungldrekar enda nóg – sínum eigin sem og annarra. Þeir eru einstaklega traustir og geta varðveitt hluti innra með sér og farið með trúnaðarmál í gröfina.
Fólki með tungl í Sporðdreka farnast eingöngu vel í rómantískum samböndum þar sem maki þeirra hleypir þeim fullkomlega að sér og leyfir þeim að sjá allar sínar dýpstu hugsanir og þrár. Það þarf að hafa fullt leyfi til að kryfja maka sinn og sjá þeirra myrkustu hliðar. Þörfin fyrir að vita allt er mjög sterk og til þess að finna fyrir öryggi verður það að upplifa fullkominn heiðarleika.
Endurfæðing er ákveðið einkunnarorð þeirra sem hafa tunglið sitt í merki Sporðdrekans. Þeir þurfa á því að halda að breytast, endurfæðast, endurskapa – líkt og fuglinn Fönix. Það verður að ríkja tilfinningaleg spenna í lífi þeirra og þeim er í blóð borið að hrista upp í hlutum í leit að ákefð og uppskera oft töluverða dramatík í lífi sínu og miklar sveiflur.
Tungldrekum farnast best ef þeir nota sinn mikla mátt og yfirskilvitlegt innsæi til góðra verka – til að hjálpa bæði sjálfum sér og öðrum.
Bogmaður
Fólk með tungl í Bogmanni þráir frelsi umfram allt. Þetta er almennt glatt fólk og létt í lundu. Það er félagslynt og til þess að líða vel þarf það að ferðast, kynnast nýju fólki og vera sem mest á ferð og flugi.
Þetta eru einstaklega jákvæðir og bjartsýnir einstaklingar sem sjá heiminn í skærum litum. Þeir eru fróðleiksfúsir og þurfa sífellt að vera að læra eitthvað nýtt. Helst vilja þeir svo geta átt litríkar rökræður um það sem þeir hafa lært – en þeim er þó mikilvægt að eiga síðasta orðið og geta verið dálítið uppfullir af sjálfum sér. Þeir eru sannfærðir um að hafa ávallt rétt fyrir sér. Þeir eiga það til að vera dálítið kærulausir og stundvísi er sannarlega ekki þeirra sterka hlið. Það er oft dálítill athyglisbrestur í þeim.
Fólki með tungl í Bogmanni er það þvert um geð að festast í hjólförum – þetta er ekki mikil reglufólk og það þarf á breytingum að halda til að þrífast. Það er gott fyrir þetta fólk að skipta reglulega um umhverfi til að hlaða batteríin. Stöðnun er afar skaðleg lífsanda þeirra.
Tunglbogmenn búa yfir einstakri aðlögunarhæfni. Þeir eru hvatvísir, leiðist að skipuleggja sig fram í tímann og kunna best við að lifa í núinu. Skyndiákvarðanir eru þeirra ær og kýr. Þeir elska að víkka út sjóndeildarhring sinn og eru öðrum oft mikill innblástur. Þeir eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og kunna vel við að storka gömlum viðhorfum og því sem þeir töldu sig áður vita.
Steingeit
Þeir sem hafa tungl í Steingeit eru traustir og stöðugir. Þeir koma fyrir sem sterkir einstaklingar og eru sérlega hæfir og vinnusamir í hverju því sem þeir taka sér fyrir hendur.
Manneskjur með þessa tunglstöðu geta virst dálítið kaldar. Það er vegna þess að þær hafa almennt mikla stjórn á tilfinningum sínum, eru nokkuð lokaðar og hleypa fólki alls ekki hratt að sér. Tilfinningar þeirra geta verið sterkar og sveiflukenndar undir niðri, en á yfirborðinu er allt kyrfilega skrúfað og fest saman. Þær nota oft kaldhæðni sem ákveðinn skjöld.
Þetta er jarðbundið fólk sem þrífst best í öryggi og reglu. Það getur verið dálítið íhaldssamt, en það er þó ekki algilt. Fólk með þessa tunglstöðu er einstaklega traust og þarf sjálft á traustum samböndum að halda, hvort sem um ræðir vini eða maka. Sveiflukennt fólk sem ber ofsafengnar tilfinningar á torg getur hrætt einstaklinga með tungl í Steingeit.
Þessir einstaklingar hafa mikla þörf fyrir virðingu. Þeir eru sínir eigin verstu gagnrýnendur og eru oft afar harðir við sjálfa sig. Það skiptir þá miklu máli að standa sig og skara fram úr en stundum sjá þeir ekkert nema mistökin og litlu gallana. Þeim ferst best ef þeir temja sér sjálfsmildi og læra að meta sjálfa sig að verðleikum.
Það er fallegt þegar fólk með tungl í Steingeit finnur sér lífsförunaut sem sannarlega kann að meta það, hrósar því af einlægni og minnir það á eigin kosti.
Fólk með tungl í Steingeit þarf að leyfa sér að slaka á endrum og sinnum, opna sig og hleypa öðrum að sér.
Vatnsberi
Þeir sem hafa Vatnsbera sem tunglmerki eru oft óvenjulegir og standa utan við hið hefðbundna form. Þeir hafa gríðarlegan áhuga á fólki og fylgjast af athygli með mannlegri hegðun. Þeim er eðlislægt að greina fólk, aðstæður og atferli. Þeim finnst heimurinn forvitnilegur og eru afar fróðleiksfúsir.
Fólk með tungl í Vatnsbera er yfirleitt framsækið og frjálslynt. Komi það úr íhaldssamri fjölskyldu er mjög líklegt að það hafi farið í uppreisn gegn henni. Þetta er sjálfstætt fólk sem þarf á frelsi og andrými að halda. Það myndar sér sínar eigin skoðanir, hvort sem þær fara á móti samfélagslega samþykktum hugmyndum eða ekki. Það hefur ákveðna þörf fyrir að vera „öðruvísi“ og upplifir sig stundum sem hálfgerðar geimverur.
Einstaklingar með tungl í Vatnsbera hafa mikinn viljastyrk og eru ákveðnir. Þeir standa ávallt fast á sínu og geta verið sérlega þrjóskir. Þeim finnst þeir oft yfir „neikvæðar“ tilfinningar hafnir og hafa stundum mikið fyrir því að neita sér um þær. Þeim er illa við tilfinningar á borð við afbrýðisemi og ótta. Þetta getur orðið til þess að þeir bæla niður tilfinningar og skammast sín fyrir þær. Þeir geta í framhaldinu orðið aftengdir og átt erfitt með tilfinningalega nánd. Það getur líka verið erfitt fyrir fólkið í kring um þá að finna fyrir dómhörku þeirra gagnvart erfiðum tilfinningum.
Tunglvatnsberar sækja oft í ýmiss konar mannúðarstörf og líður mjög vel á þeim vettvangi. Þeir eru réttlátir og góðir við fólk sem þarf á því að halda. Jafnrétti er þeim afar mikilvægt og þeir vilja engan skilja útundan. Þeir eru trygglyndir og áreiðanlegir.
Fólk með tungl í Vatnsbera þarf alltaf að fá að vera það sjálft og á mjög erfitt með það þegar persóna þess er gagnrýnd. Það er frumlegt, skapandi og einstaklega ófyrirsjáanlegt að eðlisfari.
Fiskar
Fólk með tungl í Fiskum er dreymandi og býr yfir ríku innsæi og samkennd. Það gefur mikið af sér til annarra og er uppfullt af ást og hlýju.
Öll skynjun þessa fólks er mjög sterk og það getur yfirleitt lesið aðra auðveldlega. Það er þeim líka eðlislægt að setja sig í spor annars fólk og skilja eðli þeirra og hegðun. Tunglfiskar hafa mikinn áhuga á fólki.
Einstaklingar með tungl í Fiskum skynja oft tilfinningar annarra mjög sterkt og vegna ríkrar samkenndar þeirra og vilja til að hjálpa öðrum geta þeir týnt sjálfum sér og drukknað í þjáningum annars fólks. Það er afar mikilvægt fyrir þá að læra að setja mörk og draga örlítið skýrari línu á milli sín og annarra. Annars getur orka þeirra þurrkast upp og þeir orðið daprir eða jafnvel þunglyndir.
Fólk með tungl í Fiskum er um margt óhefðbundið og öðrum þykir það oft dálítið sérstakt. Þetta er draumórafólk sem á það til að vera utan við sig og týna sér í hinu ósýnilega og ýmiss konar draumaheimum. Það treystir á innsæi sitt og það sem það finnur fyrir. Þetta fólk þarf á andrými og einveru að halda til að hlaða batteríin fyrir samskipti og hið daglega líf. Það hefur mikla þörf fyrir frelsi og leiðist að vera í of föstum skorðum.
Tunglfiskar eru afskaplega tilfinningaríkir og hafa fallegt hjartalag. Þeim er afar annt um aðra og verða auðveldlega snortnir. Sumum þykir þeir of viðkvæmir – en viðkvæmni er hluti af þeirra eðli og ekki eitthvað sem ætti að skamma þá fyrir. Þeir geta þó lent í því að fólk nýti sér viðkvæmni þeirra, samkennd og mýkt. Það er best fyrir þá sjálfa að læra að greina á milli einlægni og vélabragða, en það gera þeir oftast með tímanum.
Fólk með tungl í Fiskum er oft mjög listrænt og skapandi. Það, auk samkenndar þeirra og innsæis, gerir það oft að öflugum og áhugaverðum listamönnum. Oft virðast hamingjusömustu Tunglfiskarnir hafa valið sér starfsvettvang á sviði listgreina á borð við skrif, tónlistarsköpun og leiklist.
Stjörnuspekina, ásamt ótal spennandi greinum og viðtölum, er að finna í nýjasta helgarblaði Mannlífs. Þú getur flett blaðinu hér að neðan: