Fimmtudagur 27. júní, 2024
9.1 C
Reykjavik

Hvarfið í Böðvarsdal – Bróðir Geirfinns Einarssonar týndist aðeins þriggja ára gamall

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkur stálpuð börn frá Böðvarsdal í Vopnafirði ákváðu að vera almennileg við vegavinnumenn sem unnu að vegagerð í fjalllendi milli Böðvarsdals og Fagradals, þann 19. júní 1941, og færa þeim kaffi. Með þeim var hinn þriggja ára gamli Runólfur Kristberg Einarsson, svonur bóndans Einars Runólfssonar. Reyndist þessi för vera sú síðasta í hinni stuttu ævi Runólfs litla.

Þegar vinnumennirnir höfðu lokið við að drekka kaffið lögðu börnin aftur af stað heima á leið. Þegar þau voru komin dálitla spöl, vildi Runólfur litli hins vegar snúa aftur til baka, til að vera með föður sínum. Fylgdu börnin honum yfir læk og þar til þau töldu öruggt að hann kæmist til föður síns. Það reyndist hins vegar því miður ekki vera raunin því síðan þá spurðist ekkert um drenginn. Rúmlega þremur áratugum síðar týndist annar sonur Einars bónda, sá hét Geirfinnur Einarsson.

Hér má lesa umfjöllun um hvarfið í heilbrigðisskýrslu frá 1941:

Vopnafj. 3 ára drengur týndist frá Böðvarsdal 19. júní 1941 og hefur ekki fundizt. Tildrög voru þau, að faðir drengsins og fleiri menn voru að vegargerð í fjallinu milli Böðvarsdals og Fagradals. Síðari hluta dags færðu börn frá Böðvarsdal mönnunum kaffi í veginn. Var í för með stálpuðum börnum 3 ára drengur, sonur bónda. Að lokinni kaffidrykkju sneru börnin heim á leið. Er þau voru skammt á veg komin, vildi drengurinn snúa aftur til föður síns, og fylgdu börnin honum út yfir læk í svo kölluðu Miðandagili. Var þá stutt brekka eftir til vegamannanna, en sá ekki til þeirra úr gilinu. Vegurinn liggur þarna nærri bjargbrún, en hengiflug fyrir neðan. Þegar vegagerðarmenn komu heim um kvöldið, var barnsins saknað. Hafði það ekki komið til þeirra. Leit var nú hafin að barninu, fyrst af heimafólki úr Böðvarsdal og síðan af fjölda manns úr héraðinu og úr Jökulsárhlíð, en allt varð það árangurslaust. Leitað var rækilega í fjallinu, svo kölluðu Búri — og telja kunnugir, að aðeins á 2 stöðum sé möguleiki til þess, að barnið hafi getað hrapað í sjó niður.

Morgunblaðið fjallaði einnig um hið sviplega hvarf Runólfs litla:

Barn hverfur með sviplegum hætti

Síðastliðinn fimtudag vildi það til, að þriggja ára drengur, sonur Einars Runólfssonar í Böðvarsdal í Vopnafirði, hvarf og hefir ekki fundist enn. Þennan dag höfðu menn frá Böðvarsdal verið við vegagerð í fjallinu milli Böðvarsdals og Pagradals, í svokölluðu Búri. Færðu fjögur stálpuð börn þeim þangað kaffi síðari hluta dagsins. Er vegavinnumennirnir höfðu drukkið kaffið hjeldu börnin heimleiðis og fylgdist sonur Einars Runólfssonar þá með þeim. En hann hafði verið hjá föður sínum. Þegar börnin voru komin kippkorn heimleiðis vildi drengurinn snúa við aftur til föður síns og fylgdu börnin honum þá aftur til baka út yfir læk í svokölluðu Miðandagili. Var þá aðeins eftir stutt brekka hinum megin gilsins til vegavinnumannanna. Upp brekkuna liggur glögg sniðgata. Sáu börnin síðast til drengsins er hann labbaði upp götuna. Kl. 8 um kvöldið hjeldu vegavinnumennirnir heimleiðis. Til ferða drengsins vissu þeir þá ekkert. Var þá hafin leit að honum og var leitað í rúma tvo sólarhringa en án árangurs. Leitinni er nú hætt. Talið er líklegt að drengurinn hafi gengið fram af fjallsbrúninni, sem aðeins er skamt frá veginum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -