Í góðum málum
Unnendur góðra bóka eru í afar góðum málum eins og oftast á þessum árstíma. Óvenjumargir af „stórum“ höfundum gefa út bækur fyrir þessi jól en nefna má sem dæmi þau Ólaf Jóhann Ólafsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Jón Kalman Stefánsson, Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Elísabetu Jökulsdóttur, Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur, svo þó nokkur séu nefnd. Þá eru ungir og efnilegir höfundar einnig áberandi í jólabókaflóðinu 2022 en helst ber þar að nefna Fellbæinginn Jónas Reyni Gunnarsson sem gefur út bókina Kákasusgerillinn, Emil Hjörvar Petersen með bókina Dauðaleit og Eva Björg Ægisdóttir með bókina Strákar sem meiða. Unnendur ljóða geta einnig ekki kvartað mikið því úrvalið af ljóðabókum er mjög gott en bæði má sjá þekkt skáld gefa út bækur og minna þekkt en helst ber að nefna Þórarinn Eldjárn, Gerði Kristný og Steinunni Sigurðardóttur. Þá er sjálfur Egill Ólafsson að feta nýjar brautir með ljóðabókaútgáfu sinni sem verður fróðlegt að lesa. Sem sagt, bókaunnendur eru í stórgóðum málum og mun eflaust ekki leiðast um jólin.
Í slæmum málum
Íslensku jólasveinarnir, allir 13, eða voru þeir 9? Jæja, allir jólasveinarnir eru í vondum málum. Af hverju? Það vantar allan snjó, að minnsta kosti þegar þetta er ritað þanng sjötta desember. Og af hverju er það slæmt fyrir jólasveinana gæti einhver spurt sig? Því að það tefur þá ósköpin öll við að komast til byggða til að geta skemmt börnum á skólaskemmtunum og öðrum viðburðum. Ekki geta þeir notast við skíði eða snjósleða og hvað þá uppblásnar dekkjaslöngur eins og tíðkaðist austur á Héraði í denn. Nei, þeir verða að láta sé nægja að ganga yfir fjöll og fyrnindi, hóla og hæðir, mela og móa. Reyndar þurfa þeir ekki að óttast það að verða úti við að skakklappast ofan úr fjöllum til að gefa í skóinn því veðrið er búið að vera svo helvíti gott undanfarið. Eitthvað er þó farið að kólna enda ekkert skrítið, það er kominn desember og það á Íslandi. Það er því enn von um að snjórinn verði kominn þegar sá fyrsti þarf að koma gjöfum í skó barnanna.
Pistill þessi birtist í nýjasta tímariti Mannlíf sem má lesa í heild sinni hér.