Lögregla var kölluð til á hótel í miðbæ Reykjavíkur í gær vegna aðila í annarlegu ástandi. Þegar lögregla handtók aðilann hrækti hann á lögreglumann en var hann síðar vistaður í fangaklefa lögreglu. Í Hafnarfirði barst lögreglu tilkynning um manneskju sem sýndi ógnandi tilburði í verslun. Þegar lögreglu bar að garði var ekkert að sjá og manneskjan á bak og burt.
Tilkynnt var um tvö innbrot í gær, hið fyrra átti sér stað í skóla í miðbænum en seinna brotið átti sér stað í Kópavogi þar sem þjófar brutust inn í fyrirtæki. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort þjófarnir hafi haft eitthvað á brott með sér. Ósvífnir aðilar óku mótorhjólum utan vegar í Mosfellsbæ og var lögreglu gert viðvart. Í Árbæ hafði íbúi samband við lögreglu vegna aðila sem reyndi að kveikja eld. Þá sinnti lögregla öðrum minniháttar málum auk umferðareftirlits.