Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Í hringiðu ofsans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér á hvaða vegferð íslensk stjórnvöld eru í máli íslenskrar móður sem nú stendur frammi fyrir framsali til Noregs. Þar bíður hennar mikil óvissa um framgang máls sem höfðað hefur verið á hendur henni vegna forsjárdeilu sem hún stendur í. Deilan sú var til lykta leidd í Noregi og var föðurnum dæmt forræði.
Óþarfi er að fjölyrða um það mál, enda búið að fjalla mikið um það í fjölmiðlum. Ekki er ætlunin hér að taka afstöðu til sektar eða sakleysis hlutaðeigandi, en þess í stað horfa aðeins til aðgerða yfirvalda hér, sem og lögreglunnar.

Í fyrsta lagi má velta fyrir sér þeim gjörningi að lýsa eftir umræddri móður og birta af henni mynd, líkt og um stórglæpamann sé að ræða. Á sama tíma fjargviðrast lögreglan yfir myndbirtingu almennra borgara sem einungis vilja fá eigur sínar til baka úr höndum óprúttinna einstaklinga sem óáreittir láta greipar sópa um annarra manna eigur.

Í annan stað mun víst vera búið að fallast á framsal móðurinnar til Noregs og það má setja spurningarmerki við hve íslensk stjórnvöld eru fljót að girða niður um sig þegar aðrar þjóðir leggja fram kröfu um hitt og þetta.
Gera má því skóna að móðirin muni dúsa í fangelsi hér á landi þar til við tekur fangelsisvist í Noregi að framsali loknu.
Meðan á þessu stendur er ekki enn vitað hvenær réttað verður í umræddu máli, þannig að móðurinnar bíður sennilega norsk prísund í óskilgreindan tíma.

Mér er til efs að yfirvöld frændþjóða okkar gengju jafn rösklega til verks og lögregla hér ef þessu dæmi yrði snúið við. Vissulega er til staðar framsalssamningur milli Norðurlandaþjóðanna, en þá þarf að vera um sérstaklega alvarleg mál að ræða. Til dæmis heimila norsk lög ekki framsal eigin þegna undantekningarlaust. Þess í stað heimila þau að réttað sé yfir þeim einstaklingi sem um ræðir, vegna brota sem framin eru utan Noregs. Eitthvað svipað er uppi á teningnum hvað Danmörku áhrærir. Ljóst er að hjá þeim tveimur frændþjóðum okkar er krafist afar gildra raka þegar um er að ræða framsal eigin þegna. Glæpurinn þarf þess utan að vera mjög alverlegur.

Mitt í hringiðu þessa ofsa íslenskra yfirvalda eru börn sem vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga. Tilveru þeirra hefur verið snúið á hvolf í þessum ofsafengnu viðbrögðum yfirvalda.
Ekki er úr vegi að varpa þeirri spurningu fram hvort hagsmunir barnanna séu hafðir að leiðarljósi í þessu máli. Vissulega er það nú þannig að lög og réttlæti eiga sjaldnast samleið, en að fara í þennan bófaleik undir þeim meintu formerkjum að hagsmunir barnanna séu hafðir í fyrirrúmi er til háborinnar skammar. Hryðjuverkasamtök eru þekkt fyrir að nota börn sem mannlega skildi í átökum, en að yfirvöld hér grípi til þess úrræðis er með öllu óskiljanlegt. Má nánast leiða líkur að því að yfirvöldum hér sé almennt nokk sama um almenna, íslenska þegna.

Til að bíta höfuðið af skömminni þá er þeim sem reyna að vera þessum börnum skjól í þessum stormi hótað öllu illu af yfirvöldum.
Er nema von að maður spyrji: Er mennskan með öllu horfin úr íslensku samfélagi?

- Auglýsing -

Þess er vert að geta, að þegar þessi orð eru skrifuð situr umrædd móðir í fangelsi á Hólmsheiði, þar sem hún bíður þess að verða framseld til Noregs.

Þennan leiðara og fleira áhugavert efni má lesa lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs hér að neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -