Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi um umferðaróhapp þar sem bifreið hafði verið ekið á vegg. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var hann handtekinn á vettvangi. Síðar um kvöldið hafði íbúi í Reykjavík samband við lögreglu eftir að brotist hafði verið inn í bifreið viðkomandi.
Íbúa í Garðabæ var brugðið í gær eftir að brotist hafði verið inn á heimili hans. Tveir menn voru handteknir stuttu síðar, grunaðir um verknaðinn. Báðir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Tvö umferðaróhöpp áttu sér stað í gærkvöldi. Annað í Kópavogi og hitt í Garðabæ. Sem betur fer slasaðist enginn en eitthvað tjón varð á ökutækjum. Þá sinnti lögregla reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði tvo ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.