Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Íbúar í Grindavík tvístígandi: „Tilhugsun um að lifa með þessu ástandi um ókomin ár ekki geðfelld“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björn Birgisson segir að fyrri hluti nætur 9. nóvember hafi verið alversti tími þeirra hjóna í Grindavík, slíkur hafi atgangurinn verið.

Jörð skelfur eins og aldrei áður í Grindavík þessa dagana og eru mörgum íbúanna hætt að lítast á blikuna, enda bendir ýmislegt til þess að næsta eldgos verði ekki svokallað túristagos. Mannlíf heyrði hljóðið í einum þekktasta Grindvíkingnum, samfélagsrýninum og fyrrum blaðamanninum Birni Birgissyni og spurði hann hvernig hefur eiginlega verið að búa í Grindavík að undanförnu.

„Við hjónin eyddum fyrsta fjórðungi ævinnar fyrir vestan og austan. Þar skalf jörðin aldrei. Höfum verið í Grindavík síðan 1975 og lært að lifa með jarðhræringum, en síðustu þrjú árin hefur vissulega keyrt um þverbak.“ Segir Björn að fyrri hluti nætur þann 9. nóvember hafa verið það allra versta sem hann hafi upplifað, hvað skjálfta varðaði.

„Alversti tíminn var fyrri hluta nætur 9. nóvember þegar stórir skjálftar komu á færibandi og virtust vera hér undir húsinu, slíkur var atgangurinn og ég var þess fullviss að væri jörðin að rifna í Svartsengi og nýr kafli í óvissunni að hefjast. Við reynum að vera yfirveguð og róleg, en þetta er farið að taka verulega á. Ég vil ekki tíunda neitt hér hvað við hugsum þessi dægrin, en óhjákvæmilega er tilhugsun um að lifa með þessu ástandi um ókomin ár ekki geðfelld.“

Aðspurður um stemmninguna í bæjarbúum sagði Björn hana sjálfsagt mismunandi.

„Ég býst við að andrúmsloftið í bænum spanni allan skalann, frá hræðslu og flótta úr bænum upp í algjört æðruleysi sem hugsanlega mætti kalla kæruleysi miðað við aðstæðurnar sem við búum við.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -