Íbúar tveggja sveitarfélaga geta næstu þrjú ár fengið greitt fyrir að flokka og skila endurvinnanlegum úrgangi. Þetta kemur fram á Mbl.is.
Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum endurvinnslufyrirtækisins Pure North. Fyrirtækið hefur samið við tvö sveitarfélög en fleiri hafa sýnt verkefninu áhuga.
Fyrirkomulagið er þannig að íbúar sveitarfélaganna flokka úrganginn sjálfir, skila á móttökustað Pure North og fá greitt fyrir skilin.
„Kerfið í dag er þannig að það kostar þig lítið að vera sóði,“ segir Sigurður Halldórsson, forstjóri Pure North. Hann segir að með þessu móti fái fólk umbun fyrir að flokka eftir kúnstarinnar reglum. „Þeir sem ekki gera það þurfa að borga meira.“ Hann segir stefnt að því að reisa fyrstu fimm móttökustöðvar fyrirtækisins í september.