Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert nýjan kjarasamning á milli félaganna til 30. september 2025. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef FÍA.
Þar segir að lokafrágangur standi nú yfir og stefnt er að því að kynna breytingar og hefja kosningu svo fljótt sem auðið er.
Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.
„Við erum mjög ánægð með að langtímasamningur við flugmenn sé í höfn. Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Gerðar voru verulegar breytingar á samningnum sem tryggja aukið vinnuframlag flugmanna og gefa félaginu aukinn sveigjanleika til þróunar á leiðakerfi Icelandair. Með þessu eru flugmenn að leggjast á árarnar með félaginu til framtíðar,“ er haft eftir Boga Nils, forstjóra Icelandair Group.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir: „Félag íslenskra atvinnuflugmanna gerði í nótt tímamótasamning við Icelandair Group. Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair. Samningurinn tryggir að félagið er vel í stakk búið að til að sækja fram á hvaða markaði sem er til langrar framtíðar og nýta þau tækifæri sem sannarlega munu skapast.“